Hvalveiðar

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16:59:00 (3008)

2003-01-23 16:59:00# 128. lþ. 64.8 fundur 20. mál: #A hvalveiðar# (leyfi til veiða) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[16:59]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir jákvæð viðhorf til þess að hefja hvalveiðar á nýjan leik. Ég tel að það sé mikið mál að við hefjum þessar veiðar. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ríkisstjórnin hefur mikinn meiri hluta hér í þinginu til þess að fylgja fram þeirri stefnu sem sjútvrh. hefur undirgengist með samþykkt til þess að fara í hvalveiðiráðið með þessum skilyrðum sem gert var.

Ég vonast hins vegar til þess að í hv. sjútvn. verði þetta mál skoðað gaumgæfilega og niðurstaðan verði þá sú að hv. sjútvn. afgreiði málið með þeim hætti að hér verði teknar upp vísindaveiðar þegar á næsta vori og að það megi þá gerast með þeim hætti að málið verði afgreitt í tíma þannig að þeir sem eiga aðgang að veiðunum --- í 1. gr. frv. segir að það megi marka þeim forgang sem áður nýttu viðkomandi hvalastofna í a.m.k. tvö ár --- fái svigrúm til að undirbúa veiðarnar ef það liggur fyrir að það eigi að hefja veiðar, þótt í vísindaskyni sé. Það er ekki eins og menn byrji bara einn, tveir og þrír og hefji veiðar. Það þarf að fara fram undirbúningur í landi til þess að geta tekið við afurðunum og unnið úr þeim þá vöru sem vinna á úr hráefninu og eins auðvitað að stunda þær markvissu rannsóknir sem tengjast eiga vísindaveiðum. Það er ekki hvað minnsta atriðið þegar í slíkar veiðar er farið að kanna í raun og veru hvaða áhrif nýting viðkomandi sjávarspendýra hefur á lífríki sjávar, t.d. hvert fæðuvalið er eftir svæðum, í hvaða tegundir viðkomandi sjávarspendýr sækja, við hvaða aðstæður o.s.frv. Það er auðvitað mikið mál. Það skortir mikið á þekkingu okkar á Íslandsmiðum og þarf að kanna hvers konar áhrif hvalveiðar munu hafa. Við vitum talsvert um það en þar má miklu bæta við með markvissum rannsóknum.

Þegar búið er að telja hvalina, eins og gert hefur verið hér við land nokkrum sinnum, finnst mér líka að gangur veiðanna ætti að endurspeglast svolítið í því hvernig gengur að veiða og bera það saman við hvalatalningu. Ég geri mér verulegar vonir um að hv. sjútvn. afgreiði málið fljótt og vel. Þótt ég telji að sjútvrh. hafi farið út fyrir valdsvið sitt með þeim málatilbúnaði sem hann hefur staðið fyrir án þess að bera það undir hv. Alþingi er auðvitað mest um vert að veiðar verði hafnar og að við öðlumst meiri þekkingu á líffræði sjávarspendýranna og hefjum nýtingu þeirra. Það er auðvitað meginmarkmið þessa máls að við stöndum á þeim sjálfsagða rétti okkar að nýta lífríkið innan lögsögunnar og að sjávarspendýrin verði nýtt með sambærilegum hætti og annað í lífríkinu þó að okkur hafi gengið brösuglega við ýmislegt í þeim efnum eins og áður hefur verið rakið í umræðunum í dag um kvótakerfið og annað slíkt.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. sem hér tóku þátt í umræðunni og vonast til þess að málið fái skjóta og markvissa afgreiðslu. Það getur orðið til atvinnusköpunar. Það þarf undirbúning áður en veiðarnar hefjast og það væri gott ef þetta lægi sem fyrst fyrir.