Atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 17:36:16 (3014)

2003-01-23 17:36:16# 128. lþ. 64.14 fundur 52. mál: #A atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Enginn vafi er á því að þorskeldi á mikla framtíð fyrir sér á Íslandi. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að það sé meira en einnar messu virði að skoða hvort ekki sé rétt að setja slíka miðstöð niður á Vestfjörðum. Ég er með öðrum orðum, herra forseti, að taka undir þá tillögu sem hér er flutt af nokkrum hv. þm. Sjálfstfl. Ég dreg enga dul á að ég vildi gjarnan hafa flutt hana sjálfur því að mér finnst hún nokkuð góð.

Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að þorskur sem hefur verið einn helsti nytjafiskur okkar Íslendinga á undir högg að sækja á sínum náttúrulegu slóðum í hafinu. Um leið sjáum við það líka gerast að vaxandi eftirspurn er eftir hvítfiski úr sjó og úr eldi. Við sjáum að í vaxandi mæli er fólk víða um lönd að auka neyslu sína á fiski. Það liggur líka alveg ljóst fyrir að velsæld mun aukast a.m.k. á Vesturlöndum þar sem þorskneysla hefur verið hvað ríkust ekki síst eftir að 10--15 nýjar þjóðir ganga í Evrópusambandið og miklar væntingar bundnar við það. Þar er einmitt hefð fyrir fiskneyslu. Það þarf því á einhvern hátt að búa til vöruna sem á að svara eftirspurninni.

Við höfum séð hvað gerðist með laxinn. Laxinn var munaðarvara sem var ákaflega dýr en mönnum tókst að ná góðum tökum á laxeldi og hann er seldur sem einhver ódýrasti fiskur víðs vegar um heiminn í dag, laxinn sem framleiddur er á norðurslóðum. Ég er alveg sannfærður um að sama framtíð bíður þorsksins. Ég hef sjálfur alið þorsk. Ég hef sjálfur sem ungur maður unnið á rannsóknarstofnun erlendis þar sem þriðja kynslóð af eldisþorski var notuð. Það voru að vísu ákveðin vandamál við þorskeldi eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gat um áðan en það var ekki mjög erfitt að ná tökum á þokkalegu þorskeldi. Þau vandamál sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson drap á í ræðu sinni rétt áðan, t.d. át þorsksins á sjálfum sér og ungviði sínu er vandamál sem menn eru í vaxandi mæli að ráða bót á.

Kostnaðurinn við framleiðslu á þorski hefur hingað til verið hlutfallslega mestur við framleiðslu á seiðum. Seiðaframleiðsla, framleiðsla og viðhald á góðum klakstofni er nauðsynleg ef við ætlum að ná forskoti og viðhalda því. Það er að vísu hægt að fara þá leið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson drap á áðan og ég hef nokkrum sinnum rætt hér eins og reyndar fleiri hv. þm. þegar þorskeldi ber á góma, að ná í seiði úr sjónum. Ljóst er að með því er hægt að ná ákveðnu forskoti, hægt er að ná ákveðinni reynslu sem líka skapar aukið forskot. Það blasir við að sums staðar á landinu er hægt að gera þetta en eigi að síður verðum við að læra af laxeldinu og það er einfaldlega þannig að lykillinn að því að ná og viðhalda forskoti eru kynbætur.

Það vill svo til, herra forseti, að þó að laxeldi hafi ekki nándar nærri náð því flugi hér á landi sem gerst hefur í nágrannalöndunum þá höfum við samt sem áður forskot á heimsvísu á einu smáu sviði laxeldis. Það er framleiðsla á hrognum. Því veldur bæði að við höfum gott vatn hérna en við lögðum líka frá upphafi töluvert mikið af opinberu fé í kynbætur á laxi og það hefur leitt til þess að við eigum ákaflega góðan stofn af íslenskum og norskum uppruna. Það sem við höfum t.d. fram yfir Norðmenn er að okkur hefur tekist að kynbæta laxinn með tilliti til bragðgæða og fituinnihalds. Þetta skiptir miklu máli í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem ríkir í dag.

Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að ef Íslendingar bæru gæfu til þess að setja fjármagn í þorskeldi og frá upphafi að einbeita sér að því að leggja grunn að kynbótum í þorskeldi í framtíðinni, þá er ég sannfærður um að það mun skila sér, kannski ekki fyrr en eftir 15--20 ár, en það mun skila sér og mun gera það að verkum að við kynnum að ná svipuðu forskoti og við höfum í þessari sérstöku tegund laxeldis sem er framleiðsla á hrognum.

Herra forseti. Eigi að síður vil ég gera aðeins að umræðuefni þá möguleika sem Vestfirðingar fyrstir Íslendinga hafa fært sér í nyt. Það er einmitt að verða sér úti um náttúruleg seiði. Á Nauteyri við Ísafjarðardjúp eru menn núna að ala ég held nokkur þúsund seiða sem voru veidd í sjónum fyrir Aðalvík. Það var sá ágæti kraftamaður Magnús frá Ósi í Steingrímsfirði sem átti hugmyndina að því en ýmsir góðir félagar hans vestfirskir sáu möguleikana sem í þessu lágu og lögðu fé í það. Ég vona að Vestfirðingar hafi náð þarna mikilvægu forskoti og ég held að það skipti máli að hið opinbera notfæri sér með einhverjum hætti þá þekkingu sem þarna er að verða til og ýti undir þetta framtak.

Ég hef áður sagt, herra forseti, í ræðum um þorskeldi að ég lít á þetta frá tvenns konar sjónarhorni, annars vegar frá sjónarhóli rannsókna á þorskeldi í framtíðinni en hins vegar tel ég líka rétt að drepa þarna niður tjaldhælum frá sjónarhóli byggðastefnu. Ég tel að það skipti ákaflega miklu máli fyrir þetta kjördæmi og Vestfirði sérstaklega að hægt sé að flytja inn í það atgervi í formi menntafólks, í formi þekkingar og það gerist með þessu. Það skiptir mjög miklu máli.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, undir lok ræðu minnar að fara líka í smábotnlanga sem tengist með óbeinum hætti þorskeldi. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við eigum að leita að möguleikum til þess að flytja þekkingu út á landsbyggðina og setja þar upp miðstöðvar sérhæfðrar þekkingar á ýmsum sviðum. Það vill svo til að á Vestfjörðum er vísir að sérstakri og einstakri þekkingu á sviði veiðarfæragerðar og það er eitt af því sem ég hvet hv. þm. bæði í mínum flokki og öðrum að huga að í framtíðinni. Þar liggur ákveðin sérþekking sem ekki er hægt að finna annars staðar. Þar er mannskapur sem hefur jafnvel verið sóttur til annarra landa, þ.e. fluttur til annarra landa til þess að kenna mönnum veiðarfæragerð. Í framtíðinni hljóta veiðar Íslendinga að beinast að þróun sem gerir okkur fært að veiða fiskinn ekki með þeim hætti sem við gerum núna, í net og troll, heldur hreinlega með því að velja ekki bara tegundir heldur líka stærð fiska og veiða hann lifandi.

Mér er ógleymanlegt þegar ég hlustaði á Vestfirðinginn Einar Hreinsson flytja fyrirlestur um brú Byggðastofnunar --- ég var staddur á Akureyri en hann á Ísafirði --- þegar hann lýsti þeim möguleikum sem hlytu að vera fólgnir í þróun af þessu tagi. Ég hef aldrei getað gleymt þessum fyrirlestri, herra forseti, og ég er sannfærður um að þetta er eitt af því sem á að setja niður á Vestfjörðum vegna þess að þar er vísir að slíkri þekkingu. Ég get eins og aðrir sem hér hafa talað í dag líka tekið undir með þeim og sagt að mér finnst mörg ágæt rök hníga að því að miðstöð atferlis- og þorskeldisrannsókna verði sett niður á Vestfjörðum. Þar hafa Vestfirðingar nú þegar ákveðið forskot og mér finnst að það eigi að launa þeim það og verðlauna þá með því að ýta undir þetta með opinberum stuðningi.