Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 17:59:48 (3016)

2003-01-23 17:59:48# 128. lþ. 64.12 fundur 50. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (úrskurðir kærunefndar) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[17:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er afar mikilvægt mál sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, frsm. Samfylkingarinnar í þessu máli, hefur fjallað um og gert afar góð skil í stuttu máli. Ég tek undir að það væri afskaplega mikilvægt að sem flestir tækju þátt í umræðu sem þessari vegna þess að þessi mál, jafnréttismálin, eru meðal stærstu mála samtímans. Auðvitað hafa þau hvílt meira á herðum okkar kvenna en karlanna, og við konur á Alþingi látið meira til okkar taka varðandi jafnréttismálin en karlmennirnir. Þetta er þó mál beggja kynja, og jafnréttislögin eiga að tryggja jafnrétti og gæta að því hvort hallar á annað hvort kynið.

[18:00]

Frv. sem við flytjum í dag, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og ég, fjallar í raun um að tækin sem lögin kveða á um í dag séu ekki nægilega virk. Þau tæki sem eiga að vera til staðar í jafnréttisbaráttunni verða að gagnast til að rétta hlut kynjanna. Frv. fjallar um að færa kærunefnd jafnréttismála sterkari vopn í hendur og virkari tæki í þessu efni. Það er mat okkar flutningsmanna að mjög þýðingarmikið sé að gera úrskurðina bindandi, úrskurði kærunefnar jafnréttismála. Það mun auka mjög vægi kærunefndarinnar.

Það er umhugsunarefni að í hvert skipti sem niðurstaða kærunefndar liggur fyrir eftir að hún hefur fjalla um mál sem til hennar hefur verið vísað fær niðurstaðan afskaplega mikla athygli fjölmiðla og vekur oft umræðu í samfélaginu. Ég geri ekki lítið úr því vegna þess að það er skoðanamyndandi og eykur á tilfinningu fólks fyrir því að það þurfi að lagfæra þessa hluti. En þegar upp er staðið virðist sem úrskurðirnir hafi litlu breytt nema þessu, þ.e. þeir hafi fyrst og fremst verið til þess fallnir að vekja athygli á mismunun. Það verður þó að segjast að nokkur dómsmál hafa orðið í framhaldi af úrskurðum jafnréttisnefndar þó að fæstir dómanna hafi leitt til þess að óréttlátu fyrirkomulagi hafi verið breytt í kjölfarið.

Auðvitað hefur margt áunnist í jafnréttismálum. Við þurfum ekki annað en líta yfir þingsalinn. Nú eru yfir 30% þingmanna á Alþingi konur. Konur hafa náð frama í atvinnulífinu þó að í minni mæli sé en karlar. Konur mennta sig í auknum mæli og í sumum deildum Háskóla Íslands eru konur reyndar í meiri hluta. Þó finnst mörgum að það ríki ládeyða í jafnréttismálum í landinu og jafnvel er talað um bakslag í þessu efni. Þess vegna skulum við, þegar við tölum um hvort bakslag hafi orðið í jafnréttismálunum, ekki gleyma væntingunum á 8. áratugnum og miklum landvinningum sem urðu þá. Þá fengum við jafnréttislög og fæðingarorlof og seinna lengingu þess til viðbótar þeim lögum sem fyrir voru, sem hafa reyndar alls ekki virkað nægilega vel, um sömu laun fyrir sömu vinnu.

Konur risu á tímabili til áhrifa á ýmsum sviðum. Hæst bar þó þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Það skipti líka máli þegar við fengum fyrsta kvenhæstaréttardómarann. Fleiri tilefni væri hægt að nefna sem gáfu konum tilfinningu fyrir því að nú væri þetta að koma, jafnréttinu væri náð, konur væru jafngildar og karlar, hefðu þær sömu menntun, greind og visku til að bera. En raunin hefur orðið önnur og ég tel langt í land enn þá hvað launajafnrétti varðar.

Raunlaun eru önnur en skráðir taxtar segja til um og margt annað hefur áhrif á tekjurnar. Hér fjallaði Jóhanna Sigurðardóttir einmitt um þessa skoðun á sporslum og bifreiðastyrkjum og öðrum sporslum hjá ríkisbönkunum. Það gaf okkur tilefni til að vísa málinu til kærunefndar jafnréttismála. Ég verð að viðurkenna að í því máli taldi ég að ástæðan fyrir því að konur fengju minni aukagreiðslur en karlar væri fyrst og fremst sú að þær væru ekki í sömu störfum, ekki í þeim störfum sem aukagreiðslurnar ættu heima í. Það sem kom á óvart í því máli sem Jóhanna Sigurðardóttir vísaði til var að konur sem voru útibússtjórar fengu ekki sömu aukagreiðslur og karlar sem voru útibússtjórar. Skrifstofustjórar sem voru konur fengu ekki sömu aukagreiðslur og karlar sem voru skrifstofustjórar o.s.frv. Þetta er afskaplega merkilegt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég vil fyrst og fremst brýna viðstadda varðandi það hve mikilvægt er að taka á í þess máli. Ég get ekki annað en nefnt, með leyfi forseta, könnun Jafnréttisráðs um tekjumun kynjanna og tekjumunstur. Þar kemur fram að miðað við þróun síðustu fimm ára mundi það taka konur 43,7 ár að ná sömu atvinnutekjum og karlar. Drægi hins vegar jafnhratt saman með kynjunum og gerðist á árunum 2000 og 2001, þá næðist jafnvægi eftir 22,5 ár. Auðvitað er þetta allt of langur tími og þokast allt of hægt þó að mikið hafi áunnist. Í könnun Jafnréttisráðs kemur fram margt athyglisvert. Þó að ég fari ekki ítarlega ofan í hana ætla ég þó að nefna að það er ekki endilega gefið að það taki ekki meira en 22 ár að jafna laun kynjanna. Eins og Ingólfur V. Gíslason segir í Morgunblaðinu 5. janúar gætu stjórnvöld t.d. tekið einhverja þá ákvörðun sem hægja mundi á þessari þróun. Hann nefnir að ef fæðingarorlofið hefði verið lengt án þess að setja reglur um skiptingu þess milli móður og föður, hefði það haft slæm áhrf á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Við skulum því vera meðvituð um hversu mikilvægt er hvernig lög við setjum.

Varðandi breytinguna og lagfæringuna á launamálunum þá kemur Ingólfur V. Gíslason með mjög áhugaverðar athugasemdir, t.d. um að það komi út á vinnumarkaðinn í æ ríkari mæli ungar konur sem hafa alist upp hjá konum sem létu ekki bjóða sér mismunun og að litið væri á þær sem annars flokks þátttakendur í atvinnulífinu. Það mun ekki hvarfla að dætrum þessara kvenna að þær séu síðri starfskraftar en karlar. Hann segir að þótt hægt gangi þá fjölgi þó konum í stjórnunarstöðum.

Það er athyglisvert að það er karlmaður sem nefnir þetta sem mjög þýðingarmikinn hlut í framgangi launajafnréttis og þetta er sennilega rétt. Það eru konurnar, mæðurnar, sem hafa haldið um þetta mál og mæðurnar sem hafa brýnt dæturnar. En auðvitað ættum við foreldrar, bæði karlar og konur, að taka höndum saman um að breyta þessu og körlum ætti að vera jafnumhugað um að dæturnar ættu sömu möguleika eftir að þær hafa fengi sömu menntun og synirnar. Það er eitthvað bogið við að þannig skuli það ekki vera.

Að lokum, herra forseti, bendi ég á að í þessari launakönnun kemur fram að þegar fólk gengur í hjónaband þá hækka tekjurnar lítillega hjá konunni. En þær tvöfaldast hjá körlunum, miðað við tölur frá árinu 2000. Það er leitt að enn skuli gilda gamla viðhorfið, að þegar karlar eru komnir með fjölskyldu verði þeir að hafa hærri laun sem hjálpi til við framfærsluna og karlar eigi rétt á hærri launum af því að þeir séu framfærendur. Það er alveg áreiðanlegt að framfærendahugsanagangurinn ríkir í viðhorfum til launa karla. En þetta viðhorf gildir ekki um einstæðar mæður sem þurfa að sjá fjölskyldu sinni farborða.

Hið merkilegasta sem mér finnst koma fram í viðtalinu við Ingólf er að mörg dæmi séu um að stjórnendur fyrirtækja komi af fjöllum þegar úttekt á launabókhaldi sýnir að konur innan fyrirtækjanna njóti lakari kjara en karlarnir og þess vegna sé mikilvægt að fyrirtæki setji sér jafnréttisáætlanir.

Herra forseti. Ég skal láta þetta verða lokaorð mín. Hér hefur verið sett í lög að stofnanir ríkisins og ráðuneyti setji sér jafnréttisáætlanir. Við höfum oft kallað eftir því hverju þær hafa skilað. Ef til vill er það eitt af því sem við eigum að gera núna á þeim fáu vikum sem þingið stendur, þ.e. að kanna hvernig mál standa með jafnréttisáætlanir stofnana ríkisins.