Skipan Evrópustefnunefndar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:03:19 (3019)

2003-01-27 15:03:19# 128. lþ. 65.1 fundur 369#B skipan Evrópustefnunefndar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil taka upp við hæstv. forsrh. hugmynd sem hann setti fram í áramótagrein í Morgunblaðinu um að setja á fót svonefnda Evrópustefnunefnd eða þverpólitíska nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna til að fara yfir stöðu mála varðandi aðild eða tengsl okkar við Evrópusambandið og sem mögulega virkar sem samráðsvettvangur um þau mál.

Nú háttar einmitt svo til að í gang eru farnar að því er virðist nokkuð strembnar samningaviðræður við Evrópusambandið vegna þeirra óheyrilegu krafna sem Evrópusambandið setur fram á hendur EFTA-ríkjunum í tengslum við breytingar sem verða á högum þeirra og tengjast þeirri staðreynd að Evrópska efnahagssvæðið stækkar eða ætti að stækka samhliða stækkun Evrópusambandsins til austurs. Mér sýnist að slík þverpólitísk samstarfsnefnd stjórnmálaflokkanna gæti til viðbótar því að afla upplýsinga og móta áherslur og skiptast á skoðunum um þessi mikilsverðu mál, einnig þjónað þeim tilgangi að vera ákveðinn samráðsvettvangur þegar uppi er átakamál af því tagi sem yfirstandandi viðræður við Evrópusambandið sannanlega eru. Ég nefni sem fordæmi að þegar hér starfaði um árabil svonefnd úthafsveiðinefnd þá þjónaði hún margþættum tilgangi, þar á meðal að vera samráðsvettvangur íslenskra aðila um viðræður okkar í erfiðum samningaviðræðum og deilum, t.d. við Norðmenn um Smugumál og fleira í þeim dúr, auk þess að gera drög að nýju lagafrv. um skipan úthafsveiða.

Nú er nokkuð um liðið frá því að hæstv. forsrh. viðraði þessa hugmynd í áramótagrein sinni. Undirtektir voru almennt jákvæðar. Ég vil því leyfa mér að inna hæstv. forsrh. eftir því hvort þess sé að vænta að slík nefnd verði skipuð á næstunni eða a.m.k. óskað eftir tilnefningum í hana.