Ráðherranefnd um fátækt á Íslandi

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:09:35 (3023)

2003-01-27 15:09:35# 128. lþ. 65.1 fundur 370#B ráðherranefnd um fátækt á Íslandi# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. nefnir að að tilhlutan hæstv. félmrh. var settur saman óformlegur hópur fulltrúa, að ég hygg, fjögurra ráðuneyta, forsrn., félmrn., fjmrn. og heilbrrn., ef ég man rétt. Ég hef fyrirvara ef ég skyldi fara rangt með þetta. Hugsunin var sú að reyna að kortleggja þetta mál í framhaldi af þeim umræðum sem um það hafa verið.

Hér er náttúrlega um að ræða mál sem er þýðingarmikið. Við vitum að kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað meira en nokkru sinni áður í sögunni. Kaupmáttur bóta hefur aldrei verið hærri í sögunni en nú þannig að umræður um fátækt hljóta því að lúta að öðrum þáttum en þeim. Menn gera ekki lítið úr þeim umræðum nema síður sé og því er sjálfsagt að fara yfir þau mál. Margt hefur breyst í okkar þjóðfélagi. Margt kemur róti á fjölskylduhagi. Að sumu leyti er meiri upplausn í fjölskyldum en stundum endranær. Eiturlyfjavandi getur blasað við og fleira þess háttar. Menn verða að skoða þetta allt í samhengi. Því þótti rétt að hópur þessara ráðuneyta færi í gegnum málið, leitaði sem gleggstra upplýsinga sem víðast til þess að auðvelda mönnum umræðuna. Ég hygg að það sé af hinu góða og ég tek undir það með þingmanninum að æskilegt er að þessari vinnu miði þannig áfram að hægt sé að taka málið til umræðu á þessum vettvangi á grundvelli þeirrar vinnu og mun taka það upp við hæstv. félmrh. í ríkisstjórninni sem hafði frumkvæði og forgöngu að þessu máli innan veggja hennar.