Ráðherranefnd um fátækt á Íslandi

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:11:18 (3024)

2003-01-27 15:11:18# 128. lþ. 65.1 fundur 370#B ráðherranefnd um fátækt á Íslandi# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra og fagna því að ríkisstjórnin er farin að velta þessum málum fyrir sér. Ég nefni í því sambandi að hæstv. félmrh. vildi ekki taka málefni fátækra upp í ríkisstjórn þegar ég spurði hann um það fyrir rúmum mánuði síðan í utandagskrárumræðu í þinginu. Hæstv. ráðherra sagði þá að ef í ljós kæmi að sár fátækt ykist marktækt og fjölskyldur og einstaklingar liðu skort yrði það að sjálfsögðu rætt í ríkisstjórn og leiða til úrbóta leitað.

Því er alveg ljóst að ríkisstjórnin er farin að viðurkenna þennan vanda og farin að vinna í málinu og ber að fagna því. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort stefnt sé að því að leggja fram tillögur til úrbóta áður en þingi lýkur eins og ég nefndi hér áðan og hvort þetta mál verði unnið í samráði við ASÍ sem hefur sagt opinberlega að þeir séu að vinna að tillögugerð og skilgreiningu á þessum vanda. Því er mikilvægt að samvinna sé höfð við aðila eins og ASÍ og jafnvel fleiri eins og hjálparstofnanir og aðra sem eru að vinna að málefnum þessa fólks.