Greiðslur Íslands til ESB

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:17:25 (3028)

2003-01-27 15:17:25# 128. lþ. 65.1 fundur 371#B greiðslur Íslands til ESB# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er yfirleitt ákaflega ánægður með þau svör sem hæstv. utanrrh. veitir varðandi Evrópusambandið.

En ég spyr hins vegar: Hvers vegna getur ekki hæstv. utanrrh. komið hingað og svarað þessu eins og maður? Ég spyr hann spurningar og spurningin er þessi: Er samstaða um það innan ríkisstjórnarinnar að ef Ísland væri aðili að Evrópusambandinu þá kynnum við að fá meira greitt úr sjóðum sambandsins heldur en við þurfum að greiða í þá?

Hvað er það sem vekur upp þá spurningu? Það er sú staðreynd að fram hefur komið í fjölmiðlum að helstu rök sendimanna hæstv. utanrrh. eru að svona sé í pottinn búið. Og það er fullkomlega eðlilegt að formaður Samfylkingarinnar spyrji hvort samstaða sé millum hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. í þessu efni. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. forsrh. hefur marglýst því yfir að greiða þurfi marga milljarða. Hann hefur nefnt töluna 10 í því sambandi.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að menn þurfi að geta rætt þetta hleypidómalaust og mér finnst að við séum að færa okkur nær því. En ég spyr aftur, herra forseti: Er samstaða um þessa fullyrðingu?