Afstaða ríkisstjórnarinnar til hernaðarátaka í Írak

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:26:59 (3035)

2003-01-27 15:26:59# 128. lþ. 65.1 fundur 372#B afstaða ríkisstjórnarinnar til hernaðarátaka í Írak# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég tek undir að það er krafa okkar að þær þjóðir sem búa yfir gjöreyðingarvopnum afvopnist og hlíti þeim reglum sem alþjóðasamfélagið setur.

En ég vek athygli á því að hæstv. utanrrh. hefur hér breytt afstöðu sem kom fram í viðtali við Stöð 2 22. janúar sl. en þar sagði hæstv. utanrrh. að hann liti svo á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu veitt heimild til innrásar í Írak ef á daginn kæmi að gjöreyðingarvopn væru fyrir hendi í Írak.

Nú hefur hæstv. ráðherra breytt þeirri afstöðu og ég fagna því. Hann segir að hann líti svo á að öryggisráðið þurfi að koma saman að nýju og undir þetta tek ég. En ég tel að ekki sé nóg að gert. Íslensk stjórnvöld eiga að hafa frumkvæði að því að hafa samband við Bandaríkjastjórn og koma þeirri afstöðu Íslendinga á framfæri að allra leiða skuli leitað til að afstýra innrás í Írak, og í öðru lagi að komi til hernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skuli Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði.