Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:40:02 (3041)

2003-01-27 15:40:02# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Launamunur kynjanna er viðvarandi vandamál í samfélagi okkar. Á það var m.a. bent í skýrslu eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um jafnréttismál sem birt var á síðasta ári. Margs konar rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum sýna að þegar tekið hefur verið tillit til hefðbundinna skýribreyta virðist munurinn á launum karla og kvenna liggja á bilinu 8--18%.

Í lok síðasta árs var birt niðurstaða verkefnis á vegum ESB sem bar yfirskriftina ,,Að loka launagjánni``. Leið mistök urðu við kynningu verkefnisins vegna villu í úrvinnslu. Þau mistök hafa verið leiðrétt af hlutaðeigandi aðilum og verða ekki gerð að sérstöku umræðuefni hér. Þau afhjúpa hins vegar alvarlegan skort á samræmdum opinberum gögnum um íslenskan vinnumarkað, gögnum sem svara þeirri sjálfsögðu kröfu að vera kyngreind.

Könnunin leiddi í ljós að hjá þremur starfsstéttum hér á landi er launabil kynjanna, þ.e. munur á heildarlaunum, 27% á almennum markaði og 24% hjá hinu opinbera. Aðferðafræði launakannana lýsir sér oftast í því að þegar búið er að taka tillit til svokallaðra skýribreyta, svo sem mismunandi launa fyrir dagvinnu og yfirvinnu, starfsaldurs og menntunar, stendur eftir það sem kallað er óútskýrður munur eða launamunur sem aðeins verður rakinn til kynferðis.

En leitin að skýribreytum hefur að mínu áliti gengið býsna langt. Hinn skýrði launamunur þarf nefnilega hvorki að vera eðlilegur né sanngjarn. Telst hjúskaparstaða eða barnafjöldi t.d. eðlileg skýribreyta, eða útlit eins og kom fram í einni könnun á vegum VR? Margir kvennavinnustaðir eru sem kunnugt er láglaunavinnustaðir, en er réttlætanlegt að nota þá staðreynd til þess að skýra launamun eins og stundum hefur verið gert?

Sú staðreynd að hefðbundin karlastörf eru betur launuð en hefðbundin kvennastörf segir okkur margt um mat samfélagsins á vinnuframlagi karla og kvenna, og þar virðist því miður nokkuð langt í hina margumræddu viðhorfsbreytingu.

Herra forseti. Fyrir liggur að atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er sú mesta sem þekkist, eða um 80%, einnig að vinnumarkaðurinn hér á landi er mjög kynskiptur eftir starfsgreinum og að við vitum að kynskiptingin eykur, ein og sér, launamun kynjanna. Þá er ljóst að menntunarbilinu á milli karla og kvenna hefur verið lokað hér á landi en hlutfall háskólamenntaðra á vinnumarkaði er svo að segja jafnt hjá körlum og konum á aldursbilinu 25--64 ára. En við vitum líka að góð menntun skilar körlum almennt meiri framgangi á vinnustað en konum. Því er brýnt að spyrja hvaða tæki hið opinbera hafi í raun í höndum til þess að fylgjast með þróun launa og þróun launamunar kynjanna.

Í 21. gr. jafnréttislaga sem samþykkt voru árið 2000 er kveðið á um söfnun kyngreindra upplýsinga en fyrir liggur að grundvallargögn um vinnumarkaðinn, kyngreind og samræmd, liggja ekki fyrir á einum stað hér á landi. Hvernig er þá, herra forseti, hægt að fylgjast með launaþróun og bregðast við henni með viðeigandi hætti, samanber bókun þá sem gerð var við kjarasamninga opinberra starfsmanna 1997?

Hæstv. forseti. Það þarf skýr hlutlæg markmið þegar gengið er til samninga um laun og kjör, ekki síst þegar samið er um kaup og kjör á vinnustað í dreifstýrðu kerfi eins og það heitir núna. Ef huglæga matið ræður ferðinni, t.d. hjá forstöðumönnum ríkisstofnana, getur útkoman orðið svona: Guðrún á svo mörg börn að það hlýtur að minnka afköstin hennar, hún fær lægra kaup. En Guðmundur á svo mörg börn og þarf að sjá um framfærslu á sínu heimili, það hlýtur að hækka kaupið hans. Það sér náttúrlega hver maður, hæstv. forseti, að hið huglæga mat getur aldrei unnið bug á launamuni kynjanna. Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. um stefnu stjórnarinnar í þessum efnum. Með hvaða hætti er verið að vinna að því að útrýma launamuni kynjanna hér á landi?