Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:50:18 (3043)

2003-01-27 15:50:18# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka þetta mál upp. Hér hefur verið vísað til kjarasamninga sem gerðir voru vorið 1997 en í þeim kjarasamningum var dregið úr miðstýringu og aukin svokölluð dreifstýring. Margir höfðu efasemdir um þessa kerfisbreytingu og töldu að hún mundi m.a. leiða til aukinnar mismununar í launakerfinu, þar á meðal milli karla og kvenna. Ýmsar stéttir, sérstaklega kvennastéttir settu þess vegna inn í kjarasamninga sína ákvæði þess eðlis að fylgst skyldi með launaþróuninni. Í nóvembermánuði sl. þegar hv. varaþm. Drífa Snædal kom inn á þing fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð tók hún þetta mál sérstaklega upp. Hún beindi fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. og spurði hvernig á því stæði að ekki hefði verið farið eftir þessum ákvæðum kjarasamninganna.

Hæstv. ráðherra sagði að það skorti ýmis gögn til að fá hið sanna í ljós. Hv. þm. Drífa Snædal, fulltrúi VG, hvatti til þess að þeirri könnun yrði hraðað. Hún hefur síðan fylgt þessari umræðu eftir í blaðaskrifum, m.a. í desembermánuði. Í Morgunblaðsgrein sem ber heitið ,,Jafnrétti í launaumslagið`` fjallar hún um könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Reykjavíkurborg sem sýndi fram á aukinn launamun af völdum dreifstýringar og segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ekki er hægt að túlka niðurstöðurnar á annan veg en að kjaraatriði sem ákveðin eru á vinnustöðum, svo sem yfirvinna og akstursgreiðslur, komi körlum betur en konum. Þarna er ,,óútskýrt`` misrétti sem virðist fylgja dreifstýringu launaákvarðana. Ef jafnréttishugsunin væri okkur öllum töm mundi þetta ekki gerast og jafnréttið rataði í launaumslagið eins og það ratar í lög og reglugerðir. Sú er hins vegar ekki raunin. Því verður að bregðast við þessu á einhvern hátt. Fyrsta skrefið er að rannsaka málið svo við gerum okkur betur grein fyrir því hverjar hinar raunverulegu orsakir eru.``

Að lokum vil ég, herra forseti, taka undir þessi orð hv. varaþingmanns Drífu Snædal. Við höfum ekki aðgang að þessum upplýsingum. Þótt upplýsingalög kveði á um að við fáum aðgang að þeim þá neita stofnanir verkalýðsfélögunum, samtökum launafólks almennt um aðgang að slíkum upplýsingum.