Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:09:06 (3052)

2003-01-27 16:09:06# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum fyrir þátttökuna hér og málefnalega umræðu. Auðvitað viljum við öll útrýma launamuni kynjanna en til þess þarf skýr markmið og mikinn pólitískan vilja. Það hefur reynslan sýnt okkur. Það miðar í rétta átt, en betur má ef duga skal. Og auðvitað er það viðfangsefni okkar allra. Að sjálfsögðu.

Kyngreindum grunngögnum, eins og ég hef áður komið að, þarf að safna saman á einn stað í stjórnkerfinu. Það þarf að samræma aðferðafræðina og endurtaka rannsóknir á sömu hópum reglulega svo að samanburðurinn fáist. Það er í raun og veru ekkert hægt að fullyrða um reynsluna af dreifstýrðu launakerfi fyrr en hægt er að gera rannsóknir með þessum hætti.

Nú hefur ýmislegt verið gefið út til þess að styrkja og styðja það að vel sé að verki staðið hjá ríkinu, t.d. er ég hér með bækling frá fjmrn. frá febrúar 1996, Nýskipan í ríkisrekstri -- jafnréttismál, ábendingar um leiðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Hér eru ábendingar til forstöðumanna ríkisstofnana sem eflaust hafa nýst einhverjum vel. Að sama skapi er ég hér með bækling, Launajafnrétti í framkvæmd í dreifstýrðu launakerfi, frá því í október 1998. Auðvitað er ýmislegt til að styðjast við, en við verðum að hafa rannsóknirnar þannig og haga þeim þannig að við höfum samanburðarhæft efni í höndunum. Annars getum við ekki fylgst með þróuninni.

Að síðustu, herra forseti: Í sjónvarpinu í gærkvöldi voru sýndar svipmyndir frá kvennafrídeginum 24. október 1975. Þar mátti heyra baráttukonuna Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur ávarpa fjöldann og spyrja sjálfa sig og aðra hvað drægi allar þessar konur niður á Lækjartorg. Og svarið hafði hún á reiðum höndum: Launamisrétti og vanmat á störfum kvenna yfirleitt. Þetta var fyrir 27 árum, og rétt eins og kjörorðin ,,sömu laun fyrir sömu vinnu`` eiga enn við í dag eiga orð Aðalheiðar að sama skapi enn við í dag.