Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:11:23 (3053)

2003-01-27 16:11:23# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta við það sem ég ræddi hér áðan varðandi eftirfylgni gagnvart þeirri skipulagsbreytingu í kjaramálum ríkisins sem átti sér stað frá og með samningum 1997. Í framhaldi af upptöku hins nýja launakerfis leitaði fjmrn. til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og fór fram á það að stofnunin ynni úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun kynjanna. Um þetta gat hv. þm. Ögmundur Jónasson hér í tilefni af fyrirspurn varaþingmanns frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fyrr á þessu þingi. Við undirbúning verksins kom í ljós að í núverandi launakerfi voru ekki fyrir hendi þær upplýsingar sem stofnunin taldi nauðsynlegar til að geta unnið sitt verk, unnið þessa úttekt.

Af hálfu ráðuneytisins hefur að undanförnu verið unnið markvisst að því að launagögn í nýjum upplýsingakerfum sem ríkið er nú að innleiða standist þær kröfur sem gera verður til þess að unnt sé að meta kerfisbundið m.a. kynbundinn launamun. Er þetta verk langt komið gagnvart fjölmennum kvennavinnustöðum eins og Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og Háskóla Íslands. Áætlað er að þessu verki geti lokið á árinu og stefnt er að því að fyrrnefnd úttekt verði síðan unnin í beinu framhaldi af því í samstarfi Félagsvísindastofnunar og ráðuneytisins. Í framtíðinni er síðan stefnt að því að fylgst verði reglubundið með þróun kynbundins launamunar og ættum við þá öll næst þegar þessi mál ber á góma hér á Alþingi að vera betur í stakk búin til að fjalla um þau á besta fáanlega grunni tölulegra upplýsinga.

Ég vil síðan eingöngu bæta því við, herra forseti, að vert er að hafa í huga að þær aðgerðir eða úrræði sem eru á valdi fjmrh. að beita hafa einungis áhrif á launamyndun starfsmanna ríkisins, en þeir eru eins og kunnugt er aðeins um 10 af hundraði í heildarvinnuafli hér á landi. (SvH: Það er nú ærið.) Það var meira þegar þú varst í ríkisstjórn.