Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:13:58 (3054)

2003-01-27 16:13:58# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Umræðan er um landhelgisgæslu til sjós, lands og í lofti. Skyldur eru lagðar á stjórnvöld til þess að halda úti hér við land tryggri öryggisþjónustu fyrir sjómenn á fiskimiðum og siglingaleiðum á gríðarlega stóru hafsvæði okkar eigin efnahagslögsögu, sem er 758 þús. ferkílómetrar. Til samanburðar er efnahagslögsaga Færeyja 167 þús. ferkílómetrar og sú norska 2,2 millj. ferkílómetra.

Norðmenn nota 25 varðskip til eftirlits og öryggisþjónustu og hafa auk þess sjóher. Færeyingar nota 2,5 skip að jafnaði, og eitt danskt eftirlitsskip með þyrlu er að auki á miðunum. En hvað gerum við? Í dag á okkar elsta varðskip afmæli. Varðskipið Óðinn kom til landsins 27. janúar 1960 og er því 43 ára, en Óðinn liggur nú bundinn í höfn vegna þess að ekki fást fáeinar milljónir til að gera við skipið. Sennilega dygðu 15--20 millj. í þær lagfæringar að gera skipið haffært til næstu þriggja eða fjögurra ára sem vonandi er sá tími sem dugar til smíða á nýju varðskipi. Það er full þörf á nýsmíði. Ægir er orðinn 38 ára og Týr 28 ára.

[16:15]

Leitar- og björgunarsvæði sem okkur er ætlað að þjóna er 1,86 milljónir ferkílómetra, hátt í eins stórt og norska efnahagslögsagan sem 25 skip gæta. Erum við ekki í lagi hér á Íslandi? Heldur hæstv. ráðherra að hún stjórni ofurmannaþjóðfélagi? Við rekum tvö varðskip og oft er aðeins eitt skip á sjó í svartasta skammdeginu. Er þetta í lagi? Nei, aldeilis ekki. Hér er verið að gera aðför að Landhelgisgæslunni með því að halda starfseminni í gíslingu fjársveltis.

Landhelgisgæslan fær ekki fjárveitingar til að sinna þeim verkefnum sem henni eru ætluð, samanber skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæsluna frá 2001, en þar segir á bls. 51, með leyfi forseta:

,,Frá árinu 1995 hefur rekstrarhalli Landhelgisgæslunnar að meðaltali verið um 18 millj. kr. Auk þess hefur stofnunin þurft að jafnaði um 21 millj. kr. af fjáraukalögum til að halda rekstri innan heimilda. Í heild er um að ræða 39 millj. kr., sem umreiknað til núgildandi verðlags nemur um 46 millj. kr.`` --- Þetta er miðað við febrúar 2001.

,,Umfang í starfsemi Landhelgisgæslunnar mælt í sigldum og flognum sjómílum dróst saman um 31% vegna skipa og 17% vegna flugvéla á milli áranna 1995 og 1999. Samdrátturinn svarar til um 15 millj. kr. sparnaðar í eldsneytis- og smurolíukostnaði. Þannig er fjárvöntun meiri en að ofan greinir ef halda skal sama umfangi og árið 1995.``

Enn fremur segir í þessari skýrslu á öðrum stað, á bls. 52:

,,Eins og fram kom hér að framan vantar að meðaltali á bilinu 46--80 millj. kr. á ársgrundvelli til að fjárveitingar hrökkvi til að mæta útgjöldum við svipað rekstrarumfang og verið hefur nokkur undanfarin ár hjá Landhelgisgæslunni.``

Þetta stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að vandinn hefur verið kortlagður.

Því miður verða stundum hörmuleg slys, bæði til lands og sjávar. Varðskipin eru stundum við verstu veðuraðstæður eina farið sem kemst á slysstað. Nægir að minna á Flateyrarsnjóflóð í því sambandi. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru í raun ekki aðeins mikilvæg björgunartæki heldur einnig sjúkrabifreið landsbyggðafólks og sjómanna ef þannig má að orði komast.

Hlutur landþjónustu í þyrluferðum er mikill. Yfir 80% af ferðum þeirra sl. þrjú ár voru inn á land en 20% út á sjó. Í flugtímum talið var 75% inn á land en 24% út á sjó. Þar af leiðandi er kostnaður einnig 75% vegna sjúkra- og neyðarflugs inn á land en 25% kostnaðar við neyðarflug út á sjó. Kostnaður við flug inn á land var 90 millj. en 29 millj. voru vegna flugs út á sjó, alls 180 millj.

Herra forseti. Er það svo að stjórnvöldum verði um og ó ef 20 millj. verða lagðar í viðhald og endurnýjun á þyrluhreyfli? Á e.t.v. að leggja þyrlunni í sparnaðarskyni? Vantar kannski fjármagn til að stækka og þenja út einhver sérstök gæluverkefni á vegum ríkisins?

Ég vil leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

Hvers vegna eru ekki settir fjármunir í að lagfæra varðskipið Óðinn svo nýta megi skipið og efla útgerð skipa Landhelgisgæslunnar svo hún geti sinnt eftirlits- og öryggishlutverki sínu við fiskimenn og landsbyggðafólk?

Hvernig verður staðið að eflingu á útgerðarþætti gæsluskipa á nýjan leik?

Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru í raun sjúkrabifreiðar landsbyggðarinnar og fiskimiðanna auk þess sem þær hafa mikilvægt björgunarhlutverk. Hvers vegna á að svelta rekstrareiningu sjúkra- og öryggisþjónustu vegna fjárskorts upp á 20--30 milljónir? Hvenær er fyrirhugað að bjóða út smíði á nýju varðskipi?