Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:19:26 (3055)

2003-01-27 16:19:26# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. áhugann á málefnum Landhelgisgæslunnar, áhuga sem ég deili með honum af heilum hug, enda eru störf hennar ákaflega mikilvæg. Starfsmenn hennar hafa oft unnið ótrúleg afrek í þágu þjóðarinnar.

Nokkur ár eru síðan bera fór á erfiðleikum í rekstri Landhelgisgæslunnar. Við því var brugðist með ýmsum hætti, m.a. var reynt að skilja skýrlega á milli kostnaðar eins og viðhaldskostnaðar tækjaflota Gæslunnar og rekstrar hennar og fleira mætti nefna. Ríkisendurskoðun gerði ítarlega stjórnsýsluendurskoðun á skipulagi, verkefnum og rekstri Gæslunnar og var skýrsla hennar kynnt í febrúar 2001.

Fyrir réttu ári setti ég á laggirnar sérstakan starfshóp undir forustu Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns. Í þeim hópi áttu einnig sæti forstjóri og fjármálastjóri Landhelgisgæslunnar auk embættismanna úr fjármála- og dómsmálaráðuneytinu. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum um mitt síðasta ár þar sem m.a. var lagt til að uppsafnaður halli, bæði á viðhalds- og stofnkostnaðarsjóði og á rekstri stofnunarinnar, yrði þurrkaður. Veittar voru 120 millj. af fjáraukalögum 2002 til Landhelgisgæslunnar í því skyni. Jafnframt lagði hópurinn til að framlag í viðhalds- og stofnkostnunarsjóð yrði aukið um 20 millj. kr. á fjárlögum 2003. Á það var einnig fallist og hækkaði framlagið til Landhelgisgæslunnar sem því nam.

Á fjárlögum síðasta árs hafði framlag til Gæslunnar verið aukið um 8 millj. kr. umfram verðlag og því liggur fyrir að á síðustu tveimur árum og frá því að skýrsla Ríkisendurskoðunar var kynnt hefur framlag til Landhelgisgæslunnar verið aukið um a.m.k. 28 millj. að raungildi. Auk þess hafa framlögin verið hækkuð um aðra 3 tugi milljóna til að standa undir sérstökum verkefnum.

Það kom mér því mjög á óvart þegar forstjóri Landhelgisgæslunnar upplýsti fyrir stuttu að enn vantaði mikið upp á að endar næðu saman í rekstri Gæslunnar og var helst á honum að skilja að nú væri það flugreksturinn sem væri kominn úr böndum. Það vakti ekki síst athygli mína vegna þess að þetta hafði hvergi komið fram í vinnu starfshópsins sem fór yfir fjármál Landhelgisgæslunnar meginhluta síðasta árs.

Eftir vandlega yfirferð yfir stöðu mála komst ég að þeirri niðurstöðu að setja á laggirnar nýjan starfshóp sem fengi skýr og afmörkuð verkefni og var það gert fyrir um tveimur vikum síðan. Starfshópnum var falið að fara yfir þær fjárhagsáætlanir sem gerðar hafa verið um rekstur Landhelgisgæslunnar á síðustu missirum og fjárhagsútkomu rekstrarins á sama tíma og gera tillögu til úrbóta. Lagt var fyrir hópinn að hafa til hliðsjónar í starfi sínu skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Gæslunnar, svo og niðurstöður starfshópsins sem starfaði á síðasta ári. Ég bind að sjálfsögðu vonir við að árangur verði af störfum þessa starfshóps en í hópnum eru fulltrúar dómsmrn. og frá Ríkisendurskoðun og fjmrn.

Hvað varðar séstaklega þau atriði sem hv. 4. þm. Vestf. gerði að umtalsefni þá skil ég að hann hafi áhyggjur af því að tvö varðskip geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum sem Landhelgisgæslan á að sinna. Eins og fram hefur komið var ákveðið í tengslum við gerð fjárlaga og til að mæta kröfum um tveggja prósenta sparnað í ríkisrekstri að leggja varðskipinu Óðni. Var þetta gert til þess að ná fram 40 millj. kr. sparnaði en einnig og ekki síður í ljósi þess að varðskipið Óðinn er orðið gamalt. Fyrir lá, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar, að gera þyrfti við skipið fyrir tugi millj. kr. á þessu og næsta ári til þess að unnt væri að nota það áfram sem varðskip. Jafnframt lágu þessari ákvörðun til grundvallar skýrar upplýsingar frá Landhelgisgæslunni í bréfi til ráðuneytisins um að unnt væri að auka úthald varðskipanna Týs og Ægis þannig að ekki yrði breyting á fjölda úthaldsmánaða samanlagt milli ára.

Á grundvelli allra þessara upplýsingar var ákveðið að grípa til þessara ráðstafana. Rétt er að hafa í huga að úthaldið á Óðni á undanförnum árum hefur verið um sex mánuðir á ári. Úthaldið á Tý og Ægi var 7,8 mánuðir á hvoru skipi. Með því að auka það upp í 11 mánuði eins og áætlanir Landhelgisgæslunnar sýndu að unnt væri, væri úthaldið áfram það sama, þ.e. samtals um 22 mánuðir með tveimur skipum í stað 21 mánaðar með þremur skipum.

Rétt er einnig að taka fram að samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar hefði rekstrarkostnaður Óðins á þessu ári verið tæpar 100 millj. kr., en einungis er gert ráð fyrir 40 milljóna sparnaði í fjárlögum þessa árs. Mismunurinn er ætlaður til þess að auka úthaldið hjá Tý og Ægi. Til þess að draga enn frekar úr neikvæðum áhrifum lagningar Óðins, ákvað Alþingi að leggja til að 24 millj. kr. yrðu settar til Landhelgisgæslunnar til að gera tilraun með leigu á skipi Hafrannsóknastofnunar til landhelgisgæslustarfa. Kostnaður við það er áætlaður um 1.200 þús. kr. á sólarhring. Því væri unnt að nota það í 20 daga til landhelgisgæslustarfa.

Með hliðsjón af þessu met ég það svo að öryggi sjómanna og vöktun landhelginnar sé ekki stefnt í hættu enda er ljóst að úthaldstími varðskipa, þ.e. sá tími sem þau eru ekki í höfn, er jafnvel áætlaður meiri á þessu ári en á því síðasta.

Hv. þm. varpar því fram hvort ekki ætti að lappa upp á varðskipið Óðinn til að unnt verði að nýta það (Forseti hringir.) áfram í þágu Landhelgisgæslunnar. Það mundi þurfa mjög kostnaðarsamar viðgerðir til að halda því í rekstri. Ég mun bæta við þessar upplýsingar í seinni ræðu minni. Ég sé að tími minn er að verða búinn.