Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:27:22 (3057)

2003-01-27 16:27:22# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að taka málefni Landhelgisgæslunnar upp á þingi. Landhelgisgæslan er stolt okkar og við köllum á hana þegar eitthvað bjátar á. Við gerum til hennar miklar kröfur og væntum þess að hún sé reiðubúin að bregðast við hvenær sem er og við hvaða aðstæður sem er.

Ég held að það sé ósk, von og krafa allrar þjóðarinnar og okkar á Alþingi að tryggja að Landhelgisgæslan sé í stakk búin til að mæta þessum kröfum eins og hún líka vill fá tækifæri til að gera.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002 komu fulltrúar Landhelgisgæslunnar á fund fjárln. og gerðu grein fyrir fjárhag Landhelgisgæslunnar einmitt með hliðsjón af skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hafði þá nýlega skilað rækilegri úttekt á stjórnsýslu, fjármálameðferð og verkefnum Landhelgisgæslunnar. Í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að vel væri farið með fjármuni innan Landhelgisgæslunnar og að hún yrði að skera niður verkefni ef hún ætti ekki að fá aukið fjármagn. Þar kom fram að það þyrfti 46--80 millj. kr. til hækkunar á rekstrargrunni Landhelgisgæslunnar á ári til að hún gæti staðið undir óbreyttum verkefnum.

Nefndin sem hæstv. dómsmrh. setti á laggirnar til að fara yfir þessa skýrslu komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu, lagði til að hallinn yrði greiddur upp og fjárhagur Landhelgisgæslunnar styrktur sem þessu nam ef ekki ætti að skera niður verkefnin. En því miður, herra forseti, hefur hæstv. dómsmrh. ekki orðið við þessu. Því eru störf og verkefni Landhelgisgæslunnar í uppnámi. Það er að mínu viti í andstöðu við vilja þjóðarinnar.