Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:36:34 (3061)

2003-01-27 16:36:34# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:36]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni hvað áhrærir störf og þekkingu starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem búa yfir mikilli þekkingu í leit og björgun á sjó. Eins og fram hefur komið hér áður er ekkert smáhafsvæði sem Landhelgisgæslan þarf að hafa eftirlit með, í fyrsta lagi 758 þús. ferkílómetrar og í öðru lagi þeir samningar sem við höfum gert við aðrar þjóðir um að undir Landhelgisgæsluna falli leitarsvæði sem er yfir milljón ferkílómetra hafsvæði. Það er því í mörg horn að líta.

Hins vegar held ég að málið sé kannski að það eru svo margir þættir sem Landhelgisgæslan þarf að koma inn í nú sem samrýmast ekki þeim lögum sem enn eru í gildi fyrir Landhelgisgæsluna frá 1976 sem við þurfum auðvitað að endurskoða. Ég nefni t.d. það sem hér var komið inn á varðandi mengunarmálin. Nú á Landhelgisgæslan að sinna hluta þeirrar starfsemi sem er á vegum umhvrn.

Hér hefur verið talað um sjúkraflugið. Þar er líka margt sem fellur undir samgrn. Þannig eru það þrjú ráðuneyti, ásamt dómsmrn., sem þessi merka stofnun fellur undir og það þarf auðvitað að samræma. Það getur leitt til þess að þó að búið sé að ákveða fjárlög eins árs fyrir Landhelgisgæsluna verði umfangið of mikið. Mörg atriði geta komið upp hjá ýmsum ráðuneytum sem leita til Landhelgisgæslunnar, t.d. sjúkraflugið. Lengi hefur það verið í liði að þegar Landhelgisgæslan hefur sinnt því hafa engar greiðslur komið fyrir það. Ég nefni líka t.d. tryggingafélögin til viðbótar.

Ég held, herra forseti, að hér sé í mörg horn að líta og ekki kannski við eitt mál að sakast í þessu sambandi. Við þurfum hins vegar að endurskoða lögin um Landhelgisgæsluna. Við þurfum líka að horfa til þess að þetta stóra og mikla verkefni Landhelgisgæslunnar er svo breytilegt að það er tæplega hægt að ákveða nema einhver lágmarksfjárlög fyrir hana. Auk þess fögnum við auðvitað því að nú fer að styttast í að tekin verði ákvörðun um nýtt varðskip og það mun auðvitað gjörbreyta starfsemi Landhelgisgæslunnar.