Umferðarlög

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:49:03 (3065)

2003-01-27 16:49:03# 128. lþ. 65.10 fundur 489. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á umferðarlögum.

Markmið frv. er að auðvelda möguleika tjónþola á að fá bætur vegna umferðarslyss sem þeir hafa orðið fyrir í EES-ríkjum og Sviss. Tjónsuppgjörsaðilum og upplýsingamiðstöðvum hefur verið komið á fót eða slíkir aðilar viðurkenndir í flestum þessara ríkja til að auðvelda tjónþola að sækja rétt sinn og fá greiddar bætur frá því vátryggingafélagi sem tryggði ökutækið sem tjóninu olli. Er lagt til að svo verði einnig hér á landi og að viðurkenndur verði tjónsuppgjörsaðili og upplýsingamiðstöð í þessu skyni.

Ekki er gert ráð fyrir að komið verði á fót nýjum aðilum heldur að Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. taki að sér þetta hlutverk. Er það í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og flestum öðrum nágrannaríkjum Íslands, enda sækir frv. fyrirmynd sína til dönsku laganna um sama efni.

Tilefni frv. er fyrst og fremst innleiðing tilskipunar 2000/26/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingar vegna notkunar vélknúinna ökutækja, svonefnd Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar. Er brýnt að frv. nái fram að ganga á þessu þingi til þess að Ísland geti fullnægt skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum.

Einnig felur frv. í sér breytingar til samræmis við ákvæði svonefnds Vaduz-samnings, sem öðlaðist gildi fyrr á þessu ári.

Meginefni frv. snýr að hlutverki tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar hér á landi, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Tjónsuppgjörsaðili á að annast greiðslu bóta vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis ef tjónþoli er búsettur hér á landi og ökutæki er vátryggt í öðru EES- eða EFTA-ríki. Þetta á líka við um tjónþola sem búsettir er í öðru EES- eða EFTA-ríki og verða fyrir tjóni af völdum ökutækja sem vátryggð eru hér á landi.

Greiðsla bóta af hendi tjónsuppgjörsaðila er háð nánari skilyrðum, m.a. að tjónþoli hafi krafið viðkomandi vátryggingafélag um bætur fyrst. Tekið skal fram að ákvæði frv. varða hvorki reglur alþjóðlegs einkamálaréttar né réttarfars um lagaskil og varnarþing.

Upplýsingamiðstöð á að aðstoða tjónþola við að afla upplýsinga um vélknúið ökutæki og vátryggingu þess í nánar tilgreindum tilvikum. Er gert ráð fyrir því að dómsmrh. setji nánari reglur um þessa starfsemi og skyldu vátryggingafélaga til að láta miðstöðinni í té uppýsingar. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að söfnun upplýsinga er háð skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.