Almannatryggingar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:52:54 (3066)

2003-01-27 16:52:54# 128. lþ. 65.12 fundur 49. mál: #A almannatryggingar# (breytingar á bótagreiðslum) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:52]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, Jóhanni Ársælssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á því ákvæði almannatryggingalaga sem kveður á um hækkun bóta, greiðslna og fjárhæða samkvæmt lögunum. Frumvarpsgreinin er í þá veru, herra forseti, að lagt er til að bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr. almannatryggingalaga og fjárhæðir skv. 17. gr. sömu laga, skuli breytast ársfjórðungslega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal fylgja launavísitölu. Þó skulu bætur, greiðslur og fjárhæðir hækka í samræmi við verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs ef slík viðmiðun leiðir til hærri bóta.

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að þetta frv. er flutt. Á undanförnum árum hafa bætur almannatrygginga dregist verulega aftur úr öllu launaviðmiði í þjóðfélaginu og ríkisstjórnin, sem hefur samkvæmt lögum vald til að hækka bætur og ákvarða í fjárlögum hverju sinni, hefur ávallt miðað við þá tryggingu sem lægst hefur gefið bótaþegum hverju sinni.

Nú er gert er ráð fyrir að bætur almannatrygginga, svo og greiðslur samkvæmt 59. gr. og 17. gr. almannatryggingalaga, séu endurskoðaðar árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og breytt í samvæmi við þróun launa en hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Í töflu sem fylgir þessu frv. kemur fram neysluvísitala og launavísitala fyrir árin 1998--2001. Þessi tafla sýnir ljóslega að neysluvísitalan hefur öll þessi ár verið mun lægri en launavísitalan. Það var einkum á árinu 1998 að neysluvísitalan var 1,7 meðan launavísitalan var 9,4. Þó að dregið hafi saman með þessum vísitölum frá 1999 þá munar verulegu á því sem launavísitalan hefði gefið lífeyrisþegum í hærri greiðslur eða bætur ef miðað hefði verið við hana.

Það hefur reyndar, herra forseti, verið krafa bæði Öryrkjabandalagsins og Landssambands aldraðra að lögfest yrði að bætur almannatrygginga yrðu miðaðar við launavísitölu. Reyndar var það ein aðalkrafa Öryrkjabandalagsins vegna Evrópuárs fatlaðra að miða bætur almannatrygginga við launavísitölu.

Útreikningar Þjóðhagsstofnunar hafa sýnt að t.d. grunnlífeyrir og tekjutrygging hefðu árið 2001 verið rúmum 7 þús. kr. hærri á mánuði, eða rúmum 84 þús. kr. hærri á ári ef útreikningar þessara lífeyrisgreiðslna hefði tekið mið af þeim breytingum sem orðið hafa á launavísitölu á árabilinu 1995--2001. Þannig hafa lífeyrisþegar verið hlunnfarnir um verulegar fjárhæðir á hverju ári með því að miða lífeyrisgreiðslur þeirra ekki við launavísitölu.

Það er einnig ástæða til að geta þess að ég spurði hæstv. félmrh. um þau viðmið sem notuð hefðu verið varðandi hækkun á atvinnuleysisbótum. Hefði verið miðað við launavísitölu, eins og eðlilegt er að gera, hefðu atvinnuleysisbætur verið 15 þús. kr. hærri á mánuði en þær eru í dag. Þannig hefðu atvinnulausir haft um 180 þús. kr. meira á ári ef sú viðmiðun hefði verið notuð sem var í gildi fyrir nokkrum árum.

Einnig koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar þegar skoðuð er þróun kaupmáttar samanlagðs grunnlífeyris og tekjutryggingar á árunum 1995--2001 og hún borin saman við kaupmátt lágmarkslauna. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar kemur í ljós að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefur aukist um liðlega 11% á árunum 1995--2001 en kaupmáttur lágmarkslauna aftur á móti aukist á sama tímabili um liðlega 42%. Aukning á kaupmætti lágmarkslauna er því 28% umfram aukningu á kaupmætti grunnlífeyris og tekjutryggingar á árabilinu 1995--2001.

Það er satt að segja, herra forseti, afar villandi, eins og stjórnvöld hafa reynt að gera þegar þau eru að tala um kaupmátt lífeyris og hvað hann hafi aukist mikið, að taka með í útreikninga um kaupmátt lífeyrisþega, heimilisuppbót og tekjutryggingarauka, sem lítill hluti aldraðra og öryrkja fær. Má t.d. nefna að aðeins 1,3% aldraðra og 9,3% öryrkja, eða 908 öryrkjar, fengu á árinu 2001 tekjutryggingarauka eða fullar bætur almannatrygginga, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig fá einungis milli 16--20% aldraðra og öryrkja heimilisuppbót. Stærstur hluti lífeyrisþega fær því ekki heimilisuppbót eða tekjutryggingarauka.

Þar með er verið að taka mið af því sem nokkur hundruð öryrkjar og aldraðir sem mest hafa úr almannatryggingakerfinu fá þegar talað er um kaupmátt þessa hóps af hálfu stjórnvalda. Slíkur málflutningur er afar villandi vegna þess að hópinn telur sennilega í heild yfir 30 þús. manns og hér er einungis verið að taka mið af því sem örlítill hluti þessa hóps fær eða hefur fengið að því er varðar kaupmáttaraukningu.

Stjórnvöld hafa valið þá leið að fylgja vísitölu neysluverðs í stað þess að fylgja þróun launa með þeim afleiðingum sem ég hef lýst. Hér er lagt til að launavísitölu verði fylgt og að framangreindar breytingar komi til framkvæmda ársfjórðungslega í stað þess að slíkt gerist árlega enda vísitölur reiknaðar út mánaðarlega. Það kæmi því miklu betur út fyrir lífeyrisþega ef breytingar á lauanvísitölu yrðu lagðar til grundvallar ársfjórðungslega í staðinn fyrir að reikna hækkun á bótunum á árs fresti. Ég tel að bið eftir hækkunum og uppfærslu í allt að 12 mánuði eins og nú er verði að teljast óeðlileg leið og óréttlát.

[17:00]

Ég vil vitna til þess, herra forseti, að Landssamband eldri borgara hefur lagt áherslu á að þessu verði breytt og gerði það með ályktun um kjaramál á landsfundi sambandsins fyrir nokkrum árum, árið 1999. Þetta er því búið að vera baráttumál mjög lengi hjá þessum hópi. En í ályktuninni er lýst nauðsyn þess að hækka grunnlífeyri almannatrygginga án skerðingar tekjutryggingar og í kjölfarið verði breytingar á upphæðum grunnlífeyris almannatrygginga og annarra bótaflokka látnar fylgja breytingum á launavísitölu Hagstofunnar eins og ég hef hér greint frá.

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið flutt nokkrum sinnum áður, fyrst á 125. löggjafarþingi og málið hefur farið til umsagnar fjölda aðila. Flestar umsagnir eru afar jákvæðar frá Öryrkjabandalaginu, aðgerðarhópi aldraðra, Sjálfsbjörgu -- landssambandi fatlaðra, Landssambandi eldri borgara, Alþýðusambandi Íslands, Þroskahjálp og Félagi eldri borgara. Enginn umsagnaraðili mælti gegn frv., en það var m.a. einnig sent til fjmrn., heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnunar ríkisins.

Það er því ástæða til, herra forseti, að ætla að nú þegar frv. er lagt fram á nýjan leik geti skapast víðtæk sátt um það og um nauðsyn þess að kjör þessa hóps verði leiðrétt og bætt, enda liggur skýrt fyrir að aldraðir og öryrkjar hafa ekki fengið réttmætan hlut í aukningu þjóðartekna á umliðnum árum.

Það er alveg ljóst að þó að kjör þessa hóps hafi lítillega verið lagfærð fyrir tilstuðlan Landssambands eldri borgara nú í nóvembermánuði ef ég man rétt, þá er einungis verið að skila litlum hluta aftur af því sem tekið hefur verið af þeim hópi á umliðnum árum með því að miða ekki við launavísitölu.

Það alvarlega í þessu öllu saman er þá, herra forseti, þegar ríkisstjórnin státar sig af því að hafa verið að rétta lítillega hlut aldraðra og öryrkja, herra forseti, þá er það tekið umsvifalaust aftur að verulegu leyti með því að sá hópur er látinn greiða skatt af þessum litlu tekjum sem hann fær í sinn vasa.

Það er einmitt það sem við í Samfylkingunni höfum verið að mótmæla og leggja fram tillögur um að menn skoði það af fyllstu alvöru og setjist yfir það viðfangsefni að finna leiðir til þess að vera ekki að skattleggja lágtekjuhópana í þjóðfélaginu sem hafa sér til framfærslu einungis 90.000 kr. sem er langt frá því að duga fyrir brýnustu framfærslu.

Herra forseti. Sú leið sem við leggjum til miðar að því að rétta hlut aldraðra og öryrkja í þjóðfélaginu og verður að vænta þess, herra forseti, að menn skoði þetta mál jákvætt, ekki síst með tilliti til þeirra umsagna sem fram hafa komið að þær áherslur sem Öryrkjabandalagið og Landssamband aldraðra leggja á það að hlutur þeirra skjólstæðinga sé ekki fyrir borð borinn í þjóðfélaginu og þeir hópar sitji við sama borð og aðrir þegar verið er að færa hópum í þjóðfélaginu eilitlar kjarabætur.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.