Könnun á umfangi fátæktar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 17:43:44 (3071)

2003-01-27 17:43:44# 128. lþ. 65.13 fundur 51. mál: #A könnun á umfangi fátæktar# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[17:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir til umræðu tillaga frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum um könnun á umfangi fátæktar. Ég kem hér í pontu til að lýsa sérstökum stuðningi mínum við þessa tillögu. Eins og margt sem kemur frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er þetta eitt af best ígrunduðu málum sem hér koma fram.

Tillagan fjallar um að Alþingi álykti að fela félagsmálaráðherra að láta fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi, bæði félagslegum og fjárhagslegum, með það að markmiði að leggja fram tillögur um úrbætur sem treysti öryggisnet velferðarkerfisins. Til að ná þessu markmiði leggur hv. þm. til að lágmarksframfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð verði skilgreindur og gerðar tillögur til úrbóta sem miði að því að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.

Þetta eru orð í tíma töluð. Það hefur háð því að við gætum markvisst unnið að því að bæta velferðarkerfið í landinu. Það hefur vantað slíka skilgreiningu sem opinberlega er farið eftir. Að vísu hefur stjórn Íbúðalánasjóðs gengið út frá ákveðnum skilgreiningum í tengslum við að hjálpa fólki með að endurskipuleggja fjárhag sinn en slíkar almennt viðurkenndar skilgreiningar sem byggðar eru á raunhæfum neyslukönnunum eru því miður ekki til staðar. Þetta hefur haft margvíslegar afleiðingar, t.d. núna þegar við vitum að fjöldi atvinnulausra á Íslandi er einhvers staðar á milli 5 og 6 þúsunda eins og staðan er í dag. Eru þar þó ekki allir taldir því að við vitum að fjölmargir eru atvinnulausir sem ekki láta skrá sig af ýmsum ástæðum. Þær bætur sem viðkomandi aðilar fá eru einhvers staðar milli 70 og 80 þús. kr. á mánuði. Það vita allir að af slíku er ekki hægt að lifa, raunar hvorki lifa né deyja. Hafi einstaklingur verið búinn að kaupa sér íbúð og miðað við, eins og reglurnar segja, næstu mánuði áður en íbúðakaupin eru gerð en misst síðan vinnuna á hann ekki möguleika á að halda húsnæðinu. Flestir reyna af öllum mætti og ég þekki dæmi þess að fólk borgi nánast allar sínar tekjur í gegnum greiðsluþjónustu bankanna í afborganir af skuldum og hafi nánast ekkert sér til framfærslu, jafnvel þó að það sé á lágmarkslaunum að ég tali nú ekki um á atvinnuleysisbótum. Ástæðan er sú að tekjugrundvöllur fjölskyldunnar hefur breyst.

[17:45]

Það eru ýmis ljón í veginum. Í þessum hópi aldraðra ætlum við að sé fjöldi öryrkja, þó auðvitað ekki allir því að staða þeirra er mjög misjöfn; fjöldi aldraðra, það má sama segja um þá, það eru auðvitað ekki allir aldraðir illa settir; einstæðir foreldrar eru hópur sem stendur afar höllum fæti hér á Íslandi og hefur mjög erfiðlega gengið að fá almennan skilning í þjóðfélaginu sem dugar til þess að það séu gerðar raunhæfar úrbætur til þess að reyna að ná einhvern veginn utan um vandamál þess hóps.

Svo eru einnig barnmargar fjölskyldur láglaunafólks sem standa afar illa. Ég minni á að barnabætur á Íslandi, óskertar barnabætur hjóna, eru 117.030 kr. á ári. Með hverju barni umfram eitt eru þær 139.304 kr. en viðbót vegna barna yngri en 7 ára er 34.474. Þetta mundi duga mörgum vel ef við værum í rauninni að tala um þessa upphæð. En hjá hjónum og sambúðarfólki reiknast skerðing vegna tekna af samanlögðum tekjustofni umfram kr. 1.354.727. Við sjáum strax að þegar fólk hefur mjög lágar tekjur, með fjölskyldutekjur rétt rúmlega 100 þús. kr. á mánuði, byrjar skerðingin að tikka, og hún er engin smásmíði. Þetta á líka við um einstæðu foreldrana. Þar byrjar skerðingin strax við 677 þús. kr. tekjur. Sé um að ræða eitt barn skerðast barnabætur um 4% af tekjum umfram þessi mörk. Ef börnin eru tvö skerðast barnabætur um 8% af tekjum umfram þessi mörk og ef börnin eru þrjú eða fleiri um 10% af tekjum umfram þessi mörk. Þetta eru mjög hörð skerðingarskilyrði og það er einkennilegt að við skulum ríghalda í þessa skerðingu jafnvel þó að það blasi við að við erum nánast eina landið innan OECD sem er með slíkar skerðingar af barnabótum. Í flestum löndum er reynt að styðja við barnafjölskyldur, einkum þær. Nú hagar því svo til að það eru ekki síst barnmargar fjölskyldur í hópi hinna tekjulágu. Þar sem t.d. eru mörg börn undir 10 ára aldri á móðirin mjög erfitt með að sinna starfi utan heimilis, getur í rauninni ekki gert það nema skaða fjölskylduna enn meir fjárhagslega. Ég verð að segja að eitt það brýnasta sem mér finnst að þurfi að fylgja í kjölfar þessarar úttektar ---- ég trúi ekki öðru en að þessi þáltill. verði samþykkt og komi til framkvæmda --- sé að gera ráðstafanir til að bæta stöðu barnafólks í landinu. Það fyrsta sem þarf að gera í því sambandi er að afnema þessa tekjutengingu ef hún verður yfirleitt við lýði. Annars þarf að miða við miklu hærri tekjur en nú er gert.