Styrktarsjóður námsmanna

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 18:37:09 (3078)

2003-01-27 18:37:09# 128. lþ. 65.19 fundur 58. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[18:37]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um styrktarsjóð námsmanna sem ég flyt ásamt hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Gunnari Birgissyni og Magnúsi Stefánssyni.

Frumvarpið var flutt á 123. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt af mikilli bjartsýni, enda er það trú okkar flm. að hér sé hið mætasta mál á ferðinni.

Frumvarpið gengur í stuttu máli út á það, herra forseti, að komið verði á fót styrktarsjóði fyrir námsmenn þar sem markmiðið er að einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera geti lagt fé til þess að styrkja námsfólk til náms. Meginhugsunin er sú að auka það fjármagn sem fer til þess að styrkja námsfólk, ekki síst að gefa einstaklingum og fyrirtækjum kost á að leggja fjármuni í slíkan sjóð gegn því að fá þá skattafslátt á móti slíkum framlögum og geta þannig örvað íslenska æsku til frekari mennta.

Ég vísa að öðru leyti í þskj. 58 og leyfi mér að vonast til þess að málið gangi til 2. umr. og verði vísað til hv. menntmn.