Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:04:17 (3088)

2003-01-28 14:04:17# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. verður tíðrætt um efnahagslegan ávinning, meintan, af þessum framkvæmdum. Það er talað um að það skapist, beint og óbeint, um 750 störf.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því að á árabilinu 1990--2000 mynduðust hér í landinu tæplega 15 þús. störf og að á árabilinu frá 1970 fram á þennan dag hafa að jafnaði skapast í landinu um 1.700 ársverk árlega. Hér erum við að tala um fjárfestingu upp á mörg hundruð milljarða sem mun hugsanlega skapa 750 manns atvinnu. Hvað vill hæstv. iðnrh. segja um varnaðarorð efnahagssérfræðinga sem segja að afleiðingar þessarar ráðagerðar muni gera öðrum atvinnurekstri í landinu erfiðar uppdráttar? Nú er það svo að ef vel á að fara þarf að skapa hér á næstu 10 árum um 15 þús. störf. Hér erum við að tala um 750 af þessum sökum. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað segir ráðherrann um þau varnaðarorð sem koma frá efnahagssérfræðingum hvað þetta snertir?

Varðandi hitt atriðið, um ávinning fyrir efnahagslífið, verður hæstv. ráðherra tíðrætt um nafnstærðir, um útflutningsverðmæti, og ber þar saman við útflutningsverðmæti í sjávarútvegi. Hér er ekki saman að jafna. Í sjávarútveginum er eignarhaldið á innlendum höndum. Í þessu tilviki er það erlent stórfyrirtæki, risafyrirtæki, sem kemur til með að fá hagnaðinn til sín. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvert verður vinnsluvirði þessara framkvæmda? Hefur ríkisstjórnin látið fara fram mat á því hvað kemur til með að sitja eftir í íslensku efnahagslífi þegar hagnaðurinn, vextirnir og afborganirnar hafa verið fluttar úr landi?