Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:08:36 (3090)

2003-01-28 14:08:36# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er einmitt að tala um mikilvægi þess að skapa störf. Á næstu 10 árum þarf að skapa að lágmarki 15 þús. störf í landinu. Hér erum við að tala um 700--750. Það á eftir að skapa 14.300 störf. Ég er að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún bregðist við þeim varnaðarorðum sem fram hafa komið hjá efnahagssérfræðingum þess efnis að þessar ráðagerðir muni torvelda öðrum atvinnurekstri, bregða fæti fyrir annan atvinnurekstur vegna hækkunar á vöxtum, svo að dæmi sé tekið, og nauðsynjar þess að draga úr útgjöldum. Það er þetta sem ég bið hæstv. ráðherra um að bregðast við.

Síðan spyr ég um vinnsluvirði þessara framkvæmda. Hvað telur ríkisstjórnin að muni sitja eftir í landinu eftir að hagnaðurinn hefur verið fluttur út til Bandaríkjanna? Það er ekki saman að jafna sjávarútvegi og þungaiðnaði sem ríkisstjórnin setur allt sitt traust á. Það er ekki saman að jafna.

Síðan vil ég vekja athygli á einu. Það er ekki búið að ganga frá samningum. Ég veit ekki betur en hér séu fulltrúar ítalska fyrirtækisins Impregilo að semja við Landsvirkjun, og hvers konar samningamenn eru hér eiginlega á ferðinni og hvern bakhjarl hafa þeir? Ríkisstjórnin lýsir því yfir að ritað verði undir samninga eftir fáeina daga. Hvað skyldu samningamenn Impregilo gera við þær aðstæður þar sem þeir sitja á hótelherberginu sínu? Ætli þeir taki ekki bara upp naglaklippurnar og bíði? Það er komin pólitísk ákvörðun um að semja hvað sem það kostar. Þetta er forkastanleg framganga af hálfu ríkisstjórnarinnar.