Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:11:50 (3092)

2003-01-28 14:11:50# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og gerð var grein fyrir í framsögu hæstv. iðnrh. er efni þessa frv. eitthvað á þá leið að ríkisstjórninni verði veitt heimild til að gera samninga til a.m.k. 20 ára við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf. og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi.

Verkefnið felur í sér að félagið, Alcoa, Fjarðaál sf. byggir álverksmiðju í Reyðarfirði til framleiðslu á áli og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu, þar með talin bygging hafnarmannvirkja. Álverksmiðjan er hönnuð til framleiðslu á allt að 322 þús. tonnum af áli á ári.

Í frv. þessu er einnig fjallað um ábyrgðir ríkisstjórnarinnar vegna þeirra samninga sem tengdir eru álverksmiðjunni og starfsemi hennar. Þar eru heimilaðar ýmsar undanþágur frá lögum sem lúta að eignarhaldi og tryggingum og virðast mér þau ákvæði að flestu leyti vera í samræmi við fyrri lög um sambærilega samninga. Er ég þá sérstaklega að miða við lög um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga frá árinu 1997 sem er kannski nýjasta dæmið sem við höfum til samanburðar.

Stærsta og efnismesta ákvæði þessa frv. er um skattlagningu en í 6. gr. frv. er kveðið á um ýmsar undanþágur og frávik frá íslenskum skattareglum. Í heildina tekið er sú grein sambærileg við fyrri lög um sambærilegar framkvæmdir en þó ekki að öllu leyti. Er þar töluvert frábrugðið ákvæði sem lýtur að tekjuskattsskyldu fyrirtækisins. Einnig vakti sérstaka athygli mína ákvæði í 2. mgr. 6. gr. þar sem íslenskum stjórnvöldum eru settar verulegar skorður þegar kemur að því að leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna.

Að lokum fjallar þetta frv. um reikningsskilareglur, lögsögu og lausn deilumála, undanþágu frá tollum og gjöldum vegna innflutnings og kaupa félagsins á byggingarefnum, vélum, tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álverksmiðjuna og tengd mannvirki. Í 10. gr. frv. er veitt heimild til framsals félagsins og eigendanna á samningum með tilteknum skilyrðum sem fram skulu koma í samningnum.

Það er í sjálfu sér umhugsunarefni að Alþingi Íslendinga skuli sitja hér yfir sérákvæðum og undanþágum frá almennum skattareglum fyrirtækja á þeirri forsendu að erlendir aðilar hyggist hefja hér atvinnustarfsemi. Það segir kannski meira en mörg orð um veikleika íslenskra skattareglna þótt þær hafi að mörgu leyti breyst tl hins betra fyrir fyrirtækjarekstur á síðustu árum en enn þarf sérreglur til í tilvikum sem þessum þrátt fyrir að þær verði sífellt færri, undanþágurnar, sem þörf virðist vera talin á að gera í tengslum við slíka samninga. Heimilt er nú að gera upp í erlendri mynt. Tekjuskatturinn hefur verið lækkaður mjög og er nú með því lægsta sem gerist meðal OECD-þjóðanna. Það er búið að afnema verðbólgureikningsskilin sem voru mörgum slíkum fyrirtækjum þrándur í götu.

Við erum enn í þeirri stöðu að sitja hér yfir sérákvæðum vegna skattaumhverfisins og maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ekki komi að þeim degi að sérreglur sem þessar séu úr sögunni, að erlend fyrirtæki sem hingað koma og hefja starfsemi geti búið við sömu skattakjör og íslensk fyrirtæki.

[14:15]

Það má líka spyrja sig að því, herra forseti, hvort ekki sé unnt að setja almennar reglur sem gilda fyrir fyrirtæki af þessu tagi, hvort þörf sé á því að gera sérsamninga um hverja og eina framkvæmd. Það er t.d. undarlegt að ekki skuli gilda sambærilegar reglur um tekjuskattsskyldu þeirra fyrirtækja sem hér halda úti stóriðjurekstri. Samkvæmt lögum sem gilda t.d. um álbræðslu á Grundartanga er gert ráð fyrir að félagið greiði 33% tekjuskatt sem væntanlega var það hlutfall sem fyrirtæki greiddu árið 1997 þegar þeirri starfsemi var hrundið af stað. En fyrirtækið getur fengið þetta ákvæði upptekið ef lagabreytingar eru gerðar sem fela í sér lækkun á tekjuskattshlutfallinu. Með öðrum orðum á fyrirtækið rétt á því að fá endurupptekið ákvæðið um skatthlutfallið. En það liggur ekki fyrir skilyrðislaus skylda til þess að hlutfallið lækki, eða þannig skil ég a.m.k. umrætt ákvæði í lögum nr. 62/1997, um álbræðslu á Grundartanga. Í þeim lögum segir, með leyfi forseta:

,,1. Þrátt fyrir breytingar, sem síðar kunna að verða á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, skal félagið greiða 33% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:``

Síðar segir:

,,Verði gerðar breytingar á lögum nr. 75/1981 skal félagið eiga rétt á að sérákvæði verði endurskoðuð í þeim tilgangi að tryggja að ekki séu lagðir á félagið þyngri skattar en ef það væri skattlagt samkvæmt lögunum, án hinna áðurnefndu sérstöku ákvæða.``

Mér skilst að nú standi til viðræður milli stjórnvalda og Norðuráls um þetta ákvæði í tengslum við fyrirhugaða stækkun fyrirtækisins. En enn hefur ekki reynt á að þetta fyrirtæki greiði tekjuskatt. Þarna erum við að tala um tiltölulega nýtt fyrirtæki sem byggir á lögum frá árinu 1997. En samanburðurinn er óneitanlega annar þegar kemur að fyrirtækjum sem hafa starfað hér um áratugabil því ýmislegt hefur jú breyst í skattaumhverfinu á síðustu áratugum.

En núna sex árum síðar erum við að gera samninga við erlent stórfyrirtæki og þá hljóma skattákvæðin á nokkuð annan veg þótt þau séu í stórum dráttum samhljóma. Í frv. sem hér er til umræðu er kveðið á um að fyrirtæki greiði 18% tekjuskatt sem er það hlutfall sem fyrirtæki greiða almennt hér á landi í dag. En um leið er það neglt niður, ef ég skil þetta ákvæði rétt, að ef tekjuskattshlufall á félögum með takmarkaðri ábyrgð er lægra en 18% á þeim degi sem afhending raforku fer fram að fullu skuli það hlutfall gilda um eigendurna. Verði hlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um eigendurna, en skal þó aldrei vera hærra en 18%.

Mér er ekki kunnugt um að slíkt ákvæði hafi verið í öðrum samningum sem gerðir hafa verið um atvinnurekstur af þessu tagi. Hugsunin er líklega sú að mikilvægt sé að forsendur þær sem fyrirtækið gefur sér í upphafi samningstímans standi þegar á líður þannig að áætlanagerð sé örugg og hægt sé að byggja á stöðugum forsendum gagnvart lánastofnunum. Slíkt sjónarmið er afar skiljanlegt af hálfu fyrirtækisins enda er reksturinn þess eðlis að mikilvægt er að forsendur standist til langframa. En það má þó auðvitað segja að sömu grundvallarsjónarmið eigi við um önnur fyrirtæki sem flest eiga mikið undir því að geta gert langtímaáætlanir sem standast. Að minnsta kosti var ekki talin ástæða til að festa slíkt ákvæði í sessi þegar lögin um álbræðslu á Grundartanga voru gerð árið 1997 og var þó skattaumhverfið mun óhagstæðara hvað tekjuskattshlutfallið varðar, en það var nánast helmingi hærra en það er í dag.

Maður hlýtur að velta vöngum yfir því hvers vegna ástæða er talin til svo afgerandi undanþágu frá almennum skattareglum ef til hækkunar kæmi. Skýringar eru einhverjar á þessu á bls. 16--17 í frv. og lúta að því að ástæða þessarar undanþágu um skatthlutfallið sé sú að samið er um starfsemi sem ekki hefur framleiðslu fyrr en árið 2007. Þykir þá eðlilegt að eigendurnir njóti þeirra breytinga í sama mæli og önnur fyrirtæki fram að þeim tíma er rekstur hefst.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að við fáum að heyra útskýringar á þessum þætti málsins þegar kemur að umræðu í iðnn. þingsins. Ég geri líka ráð fyrir því að efh.- og viðskn. þingsins taki skattaþátt þessa máls til ítarlegrar skoðunar við meðferð málsins í þinginu. Ég held að það sé mjög eðlilegt þar sem hér er um að ræða fyrst og fremst skattalagabreytingar. Efnisþáttur þessa frv. snýr fyrst og fremst að skattaumhvefinu og því er alls ekki óeðlilegt að efh.- og viðskn. þingsins sem hefur þau mál á sinni könnu fjalli um það og veiti a.m.k. iðnn. þá umsögn um þennan þátt málsins.

Ég held að mikilvægt sé að skoða hvers konar fordæmi verið er að skapa með þessu ákvæði og hvaða áhrif það kunni að hafa fyrir skattaumhverfi fyrirtækja almennt í framtíðinni.

Umhverfisþáttur málsins er mikilvægur og umhverfisáhrif álversins voru metin á sínum tíma og var það rakið í máli hæstv. iðnrh. í framsögu hennar. Upphaflega var skýrsla lögð fram af Reyðaráli fyrir Skipulagsstofnun í maí 2001 og í ágúst það ár féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina með nánar tilteknum skilyrðum um umhverfisvöktun og fleira. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhvrh. sem síðan staðfestir hann.

Við kaup Alcoa á Reyðaráli voru Skipulagsstofnun kynntar breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði, en breytingarnar fólu jú aðallega í sér að dregið var úr framleiðslugetu álversins, fallið frá byggingu rafskautaverksmiðju og ekki kæmi til urðunar kerbrota eða annarra úrgangsefna á svæðinu.

Eftir að nýr eigandi Reyðaráls, Alcoa, lét vinna skýrslu þar sem saman voru borin umhverfisáhrif þessara tveggja framkvæmda komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu í desember 2002 að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar sérstöku mati á umhverfisáhrifum. Og eins og hér hefur verið rakið hefur sá úrskurður verið kærður.

Það er eitt ákvæði hér sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni. Það snýr að umhverfisþætti málsins þó það sé í eðli sínu kannski skattalegs eðlis. Það er 2. mgr. 6. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.``

Ef ég skil þetta ákvæði rétt, herra forseti, er þarna verið að takmarka verulega heimildir ríkisstjórnar til að leggja losunarskatta eða auðlindagjöld vegna raforkunotkunar í framtíðinni. Takmörkunin lýtur í raun að því, eins og ég skil þetta ákvæði, að þá aðeins er heimilt að leggja slíka skatta á stóriðjufyrirtæki að það verði gert almennt á öll fyrirtæki. Þá er samkvæmt mínum skilningi á þessu ákvæði ekki heimilt að leggja slíka skatta á stóriðju eingöngu og vekur það furðu að ríkisstjórnin skuli tilbúin að gera slíkar takmarkanir á möguleikum komandi kynslóða til að nota slík úrræði sem stjórnunartæki, bæði í efnahagslegum og umhverfislegum skilningi.

Nú veit ég ekki til þess að svona ákvæði hafi áður verið sett í viðlíka samninga. Það kann vel að vera og þá leiðréttir hæstv. iðnrh. mig ef svo er. En ég held þó að umræða um slíka skatta sé tiltölulega nýtilkomin þannig að ólíklegt að slíkt ákvæði hafi komið til áður.

Það má líka spyrja sig, herra forseti, hvort eðlilegt sé að svona almenn takmörkun sé sett í einstaka samninga og lög vegna einstakrar framkvæmdar, hvort ekki hefði verið eðlilegra að gera það þá með almennum skattalagabreytingum.

Í skýringum við þetta ákvæði á bls. 18 er vitnað m.a. til þess að áþekk regla gildi í þessum efnum um Alcan á Íslandi og Ísal. Ég hef ekki haft tök á að skoða þau ákvæði og veit ekki hvað það þýðir í þessu samhengi að áþekk regla sé í gildi þar. En má skilja þetta svo, herra forseti, að þarna sé í raun verið að koma í veg fyrir að settir verði slíkir skattar á í framtíðinni, nema það verði þá almennt á stóriðju, nema það verði verði gert almennt á öll fyrirtæki? Ég velti því aðeins fyrir mér hversu mikil takmörkun þarna er á ferðinni. Væntanlega hefur hæstv. iðnrh. skoðað ítarlega hvað í þessu felst.

Gerir hæstv. iðnrh. ekki ráð fyrir því líka að önnur stóriðjufyrirtæki muni óska eftir sams konar ákvæðum með sína samninga? Væntanlega mun á eftir fylgja krafa um að þarna séu sambærileg ákvæði. Er ekki verið að skapa hér fordæmi sem líklegt er að í framtíðinni muni fela í sér útilokun á þeim möguleika að leggja hér auðlindagjöld á raforkunotkun eða losunarskatta vegna mengunar?

Herra forseti. Ég mun óska eftir ítarlegum skýringum á þessu ákvæði og hvað það muni þýða fyrir framtíðarskattapólitík gagnvart stóriðjufyrirtækjum. Reyndar legg ég til að umhvn. þingsins skoði þennan þátt málsins sérstaklega við meðferð þess á þingi því hér er jú á ferðinni stórpólitískt mál sem gæti reynst mjög afdrifaríkt þegar fram í sækir.

Auk þeirra ákvæða sem ég hef gert sérstaklega að umtalsefni má segja að um sé að ræða nokkuð eðlileg frávik frá íslenskri löggjöf sem eru sambærileg því sem hefur verið í svipuðum lögum sem sett hafa verið í sambærilegum tilvikum að því er mér sýnist.

Ýmsar undanþágur frá gjöldum til sveitarfélags er að finna í þessu frv. En yfirleitt hefur þá komið á móti að sveitarfélagið hefur ekki sömu þjónustuskyldu gagnvart fyrirtækinu eins og þegar önnur fyrirtæki eiga í hlut og geri ég ráð fyrir að svo sé einnig í þessu tilviki. Ég geri ráð fyrir því að mér muni gefast tækifæri til að kynna mér þau ákvæði betur í hv. iðnn. þingsins og í yfirferð nefndarinnar um málið.

Herra forseti. Önnur ákvæði frv. ætla ég ekki að gera sérstaklega að umtalsefni við 1. umr. en vænti þess að fá frekari skýringar á málinu öllu þegar það kemur til umfjöllunar í iðnn. og ítreka þá ósk mína að efh.- og viðskn. fái skattaþáttinn sérstaklega til skoðunar og að umhvn. þingsins fái umhverfisþáttinn til skoðunar ásamt ákvæðinu um losunarskattana.