Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:27:04 (3093)

2003-01-28 14:27:04# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta var nú athyglisverð framsöguræða talsmanns Samfylkingarinnar hér í umræðunni. Það varð ekki annað af henni ráðið en að þetta frv. snerist eingöngu um skatta eða skattatæknileg atriði. Það er að sönnu ýmislegt fróðlegt í þeim efnum þegar maður veltir því fyrir sér að hve miklu leyti sérákvæði eiga að gilda um málefni eða rekstur þessa fyrirtækis. Reyndar er það svo að það er miklu nær því að vera öfugmæli að um það gildi íslensk skattalög heldur en hitt. Að langmestu leyti eru sérsaumuð utan um þetta fyrirtæki og hagsmuni þess skattaákvæði og í nánast öllum tilvikum, þ.e. varðandi alla álagningu skatta og gjalda fær það ívilnanir og undanþágur sér í hag.

Herra forseti. Um þetta stóra mál sem hófst, þ.e. þessi kafli þess, í draumum manna um stórvirkjanir og stóriðju á Austurlandi, a.m.k. virkjanir á Austurlandi og stóriðju einhvers staðar í landinu, mætti margt segja. Það hófst í raun með heimsókn fyrirtækisins Norsk Hydro hingað til lands í febrúar 1997 og þessi kafli málsins á því sex ára afmæli eftir örfáa daga.

Þetta er stærsta einstaka fjárfesting sem nokkurn tímann hefur staðið til að ráðast í á Íslandi og þetta er líka eitt stærsta ef ekki stærsta ríkisverkefni, opinber framkvæmd, miðstýrð ríkisframkvæmd, sem sögur fara af og eru orðin fátíð, hygg ég, á Vesturlöndum mál af þessu tagi þar sem ríkisvaldið með fjármunum og pólitískum ákvörðunum knýr fram ákvarðanir í máli og ber það fram eins og hér hefur verið gert. Það snertir allan undirbúninginn. Það snertir eignarhald orkufyrirtækisins. Það snertir ríkisábyrgðir, skattaívilnanir og margs konar fyrirgreiðslu sem þetta fyrirtæki á að fá, enda yrði aldrei af þessari framkvæmd ella. Það eru allir sammála um það og það er kannski það eina eða eitt af því fáa sem allir eru sammála um í þessu máli, bæði andstæðingar framkvæmdanna og helstu stuðningsmenn, að án ríkisins, án ábyrgðar og fjármuna skattgreiðenda í landinu yrði aldrei af þessu því á markaðsforsendum væri þetta mál úr sögunni og það fyrir löngu síðan. Það hefði aldrei komið upp. Allar hugmyndir um svo mikið sem að stofna sjálfstætt dótturfyrirtæki í eigu Landsvirkjunar runnu út í sandinn af því að áhættan í þessu verkefni og afkoman í því er svo léleg að ef ekki væri opinbert eignarhald Landsvirkjunar, eigendaábyrgð ríkisins og tveggja sveitarfélaga, stórkostlegir ríkisstyrkir, þá mundi dæmið hrynja til grunna, enda er það til athugunar hjá Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins hvort þetta sé ekki brot á evrópskum samkeppnisreglum um ríkisstyrki. Það er enn ein óvissan sem enn hangir yfir í þessu máli.

[14:30]

Um umhverfisáhrif málsins, herra forseti, er það að segja að þau ein og sér, umhverfisáhrifin sem tengjast byggingu Kárahnjúkavirkjunar, gera það að verkum að það er óráð og feigðarflan að fara út í þessa framkvæmd. Og aldrei hefði átt að halda lengra en þó þangað til að Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð sinn um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Þá áttu auðvitað allir sanngjarnir og hugsandi menn að segja: Hingað og ekki lengra. Þetta er óráð, út í þetta förum við ekki.

Þegar Skipulagsstofnun eftir þá gríðarlega miklu vinnu sem að baki lá og hefði þó gjarnan mátt hafa fleiri sumur til vettvangsrannsókna, komst að afdráttarlausri niðurstöðu um það að byggingu Kárahnjúkavirkjunar fylgdu svo mikil neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif að það væri ekki verjandi, þá áttu menn auðvitað að láta staðar numið. En svo varð ekki, vegna þess að það voru ekki hinir efnislegu þættir málsins að þessu leyti eða rökstuddar niðurstöður í þeim sem réðu ferðinni, heldur pólitískar ákvarðanir ofan frá um að þetta skyldi gert hvað sem tautar og raular. Það er hinn nakti veruleiki í málinu.

Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé, enda verður þetta mál ekkert í sundur skilið, frv. fjallar um bæði Kárahnjúkavirkjun að hluta til þó að það snúist mest um álver við Reyðarfjörð, að rifja örlítið upp í þessum efnum, rifja upp hvað stóð í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Því stundum ber á því að menn vilji láta það gleymast og hæstv. ráðherrar láta gjarnan eins og það sé hætt að skipta máli hvaða umhverfisspjöll verða af Kárahnjúkavirkjun af því það sé komið aftur fyrir menn í ferlinu. Auðvitað er það ekki svo. Þetta mál er allt saman ein heild, þótt hæstv. iðnrh. gremjist það að menn skuli leyfa sér að hafa skoðanir á mismunandi þáttum þess og fylgja því eftir í umræðunni, tala bæði um umhverfisáhrif og arðsemi eða mótvægisaðgerðir, eins og menn hafi ekki leyfi til þess að hafa skoðun nema á einum hluta málsins.

Rifjum þá aðeins upp hver var meginniðurstaða Skipulagsstofnunar í hinum ítarlega úrskurði sem felldur var um byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun telur þó`` --- í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja --- ,,að á grundvelli framlagðra upplýsinga um fyrirhugaðar framkvæmdir og framkvæmda- og áhrifasvæði þeirra liggi fyrir að framkvæmdirnar séu líklegar til að hafa í för með sér veruleg neikvæð umhverfisáhrif. Sérstaklega varðar það fyrri áfanga virkjunarinnar`` --- hér var verið að tala um tvo áfanga, þ.e. fyrst Kárahnjúka og síðan Jökulsá í Fljótsdal í viðbót --- ,,og þá sérstaklega Hálslón og veitu Jökulsár á Dal til Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljóts. Þannig hefur komið fram við athugun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir í fyrri áfanga virkjunarinnar [þ.e. Kárahnjúkavirkjunarinnar] eru líklegar til að hafa varanleg neikvæð áhrif vegna jarðvegsrofs og áfoks á víðfeðm svæði austan Jökulsár á Dal sem hafa verulegt gildi með tilliti til jarðsvegs og gróðurfars. Þessi áhrif varða marga þætti, svo sem gróður á Vesturöræfum, hreindýr, fugla og landslag, auk þess sem rof mun valda mistri á Vesturöræfum og niður í byggð. Þá hefur komið fram að framkvæmdirnar munu hafa í för með sér miklar breytingar á vatnafari sem munu hafa áhrif t.d. á grunnvatnsstöðu á láglendum svæðum meðfram Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljóti sem aftur mun hafa áhrif á gróður, fuglalíf og landbúnað. Hálslón mun eyða gróðurlendi með hátt verndargildi, m.a. vegna legu þess á einu stærsta samfellda gróðursvæði yfir 500 m hæð yfir sjávarmáli á miðhálendi Íslands. Framkvæmdir við fyrri áfanga virkjunarinnar munu raska tegundum sem eru sjaldgæfar á svæðis- og landsvísu og þær munu breyta skilyrðum fyrir lífríki í vötnum. Framkvæmdirnar kunna einnig að hafa í för með sér veruleg áhrif á fuglalíf, m.a. vegna svæða sem fara undir lón og óbeinna áhrifa jarðvegsrofs og breytinga á vatnafari. Fram hefur komið að framkvæmdir við Hálslón séu líklegar til að hafa veruleg áhrif á hreindýr og að áhrif framkvæmdanna á Héraðsflóa séu líkleg til að verða veruleg á seli. Áhrifa vegna breytts ferskvatnsstreymis kunni að gæta suður með fjörðum á Austurlandi. Þá liggur fyrir að framkvæmdirnar munu hafa veruleg áhrif á jarðmyndanir og landslag sem njóta verndar og hafa verndargildi á svæðis-, lands- og jafnvel heimsvísu. Fyrir liggur að á annað hundrað fornminja geti raskast við framkvæmdir í fyrri áfanga virkjunarinnar. Talsverð óvissa er um áhrif framkvæmdanna á byggð og atvinnulíf á Austurlandi.``

Enn fremur segir:

,,Niðurstaða matsskýrslu Landsvirkjunar er að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun muni skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir.`` Með öðrum orðum: Ekki einu sinni Landsvirkjun reyndi að bera á móti hinum umtalsverðu umhverfisáhrifum, en sagði: Gróðinn verður svo mikill að það réttlætir þessi náttúruspjöll.

En svo kemur niðurstaða Skipulagsstofnunar: ,,Að mati Skipulagsstofnunar hefur ekki verið sýnt fram á að ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu áhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa á náttúrufar og landnotkun.``

Síðan sagði stofnunin:

,,Skipulagsstofnun telur enn frekar hafa verið leitt í ljós við athugun stofnunarinnar heldur en vænta mátti, þegar ákvörðun var tekin um matsáætlun um framkvæmdina síðastliðið sumar, að virði náttúrufars á áhrifasvæði framkvæmdarinnar sé hátt og áhrif framkvæmdanna á náttúrufar í mörgum tilfellum veruleg og óafturkræf.`` --- Með öðrum orðum, Skipulagsstofnun sagði: Það hefur komið enn betur í ljós við þessa vinnu heldur en áður var talið hversu verðmætt þetta svæði er.

Og enn sagði Skipulagsstofnun að lokum:

,,Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða Skipulagsstofnunar, að teknu tilliti til framlagðra gagna við athugun stofnunarinnar, að Kárahnjúkavirkjun allt að 750 megavött, eins og hún er lögð fram í tveimur áföngum og fjórum verkhlutum, muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa.``

Og með vísan til niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem gerð var grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er lagst gegn Kárahnjúkavirkjun.

Þetta var hin rökstudda, ítarlega niðurstaða Skipulagsstofnunar, matsstofnunarinnar sem samkvæmt þeim lögum sem menn höfðu sett sér gaf þessari framkvæmd falleinkunn. Var þá ekki niðurstaðan fengin ef menn hefðu viljað hlíta þeim lögbundnu og skipulögðu vinnubrögðum og leikreglum sem hér hafa verið settar í landinu? Jú, auðvitað. Því stjórnvöld áttu að sætta sig við þessa niðurstöðu. Allt annað er að mínu mati, herra forseti, ósköp einfaldlega ákvörðun um að víkja umhverfisvernd í landinu algerlega til hliðar þegar hún rekst á einhver pólitísk verkefni eða hagsmunamál stjórnvalda.

Enn fremur hefur það gerst, herra forseti, þegar bráðabirgðaniðurstöður komu úr vinnu starfshóps um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að raðað var upp 15 mögulegum virkjunarkostum. Hvað gerðist þá? Vinna sem menn hafa mikið horft til og talað um að ætti að innleiða betri vinnubrögð í þessum efnum. Jú, niðurstöður þeirrar bráðabirgðaniðurstöðu voru þær að Kárahnjúkavirkjun er versti virkjunarkosturinn frá sjónarhóli umhverfisáhrifa. Versti. Fær langhæstu einkunn á þeim skala sem gefur miklum umhverfisáhrifum eða umhverfisröskun háa einkunn og litlum lága.

Og það er svo nöturlegt, herra forseti, að þær tvær virkjunarframkvæmdir sem Landsvirkjun og stjórnvöld eru að reyna að knýja fram þessa dagana, Kárahnjúkavirkjun og miðlunin í Þjórsárverum, fá hæstu falleinkunnina ef svo má að orði komast. Þær koma verst út. Það er aðeins ein virkjun sem þarna var athuguð sem skýtur sér upp á milli þeirra, það er Jökulsá á Fjöllum með Dettifossi og þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Allar aðrar virkjanir sem menn voru að skoða í þessu sambandi eru betri, hafa minni umhverfisáhrif, eru fýsilegri á þann mælikvarða og eiginlega alla aðra mælikvarða. Vantar þó hér inn í listann t.d. virkjanirnar tvær í Neðri-Þjórsá sem flestir eru sammála um að sé náttúrlega til muna betri en öll þessi ósköp.

Ekki verða því sótt rök í þetta heldur í rammaáætlun. Með öðrum orðum, bæði Skipulagsstofnun og starfshópurinn um rammaáætlun gáfu þessari virkjun falleinkunn. Það hafði engin áhrif. Það breytti engu því ráðherrarnir komu bara hér í þennan ræðustól og sögðu: Það verður samt virkjað. Hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, kom hérna fyrir jólin og sagði, missti það að vísu út úr sér og reyndi að snúa ofan af því eftir á: ,,Það er búið að ákveða að virkja``, sagði hæstv. utanrrh., undrandi á þessu andófi manna gegn ákvörðunum sem bara hann sjálfur og Davíð, hæstv. forsrh., voru búnir að taka. Hvað eru menn að tuða þetta?

Þetta eru hin málefnalegu viðbrögð stjórnvalda sem hafa birst okkur meira að segja gegn því lögformlega matsferli sem Alþingi sjálft og þessir ágætu herramenn hafa tekið þátt í að setja og gagnvart þeirri vinnu sem ríkisstjórnin sjálf setti af stað um rammaáætlunina.

Víkjum aðeins, herra forseti, að umhverfisáhrifum álversins sjálfs næst. Við skulum ekki gleyma því, því það er nú ekki þannig að álverin hafi ekki líka umhverfisáhrif. Ég minntist á það áðan í andsvari við hæstv. ráðherra að reisa ætti strompa þarna fyrir austan. Ég fékk bréf --- þeir höfðingjarnir hjá Alcoa, sjálfur Alain Belda sendi mér bréf þar sem hann var að gleðja mig með fréttunum um að stjórn Alcoa hefði ákveðið að byggja þetta álver. Og það vantar nú ekki fögur orð í þetta bréf, þetta er svo stórkostlega gott allt saman að það hálfa væri nóg. Og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það gleður mig mjög að tilkynna þér að á stjórnarfundi Alcoa í dag var samþykkt að hefjast handa við byggingu 322.000 tonna álvers á Reyðarfirði. Verksmiðjan mun bera heitið Fjarðaál`` --- þeir hafa sennilega ákveðið það sjálfir, Alain Belda, þeir eru svo vel að sér í íslensku, að það eigi að heita Fjarðaál --- ,,og hefja framleiðslu árið 2007. Um er að ræða umfangsmestu fjárfestingu Íslandssögunnar`` --- þeir vita það líka --- ,,og verður verksmiðjan í hópi umhverfisvænustu álvera heimsins.`` --- Umhverfisvænustu álvera heimsins.

Það kom þess vegna mjög á óvart, herra forseti, þegar það læddist út í umræðuna í gegnum kynningu Umhverfisstofnunar að Alcoa ætlar ekki að nota vothreinsun. Nei, þeir ætla að byggja strompa. Þeir ætla að reisa tvo 80 m háa skorsteina, sem við Norðlendingar köllum strompa, til að dreifa menguninni yfir nógu vel yfir svæðið. Og Morgunblaðið sem lýgur ekki, eða er það, herra forseti? er hér með mikla frétt um þetta 22. janúar. Þar er millifyrirsögn sem er býsna athyglisverð: 50 m skorsteinar duga ekki. Nei, þeir þurfa að vera 80 m til þess að spúa þessu nógu hátt upp þannig að þetta dreifist yfir nógu stórt svæði, þá kannski sleppur þetta. Kannski. Það er ekki víst. Þeir viðurkenna það sjálfir og meira að segja iðnrh. að það sé ekki endilega víst að þetta sé nóg.

Er umhverfisvernd á Íslandi á þessu stigi? Að við séum komin svona 30 ár aftur í tímann til gömlu strompaaðferðarinnar? Þegar Bretar lágu undir harðri gagnrýni á sjöunda og áttunda áratugnum fyrir að iðnaðarmengað loft frá Bretlandseyjum væri að valda súrri rigningu í Skandinavíu, sem það sannanlega gerði, hver voru viðbrögð þeirra? Að hækka strompana. Þá gengu í garð ein 10, 15 ár þar sem Bretar neituðu öllum úrbótum. Þeir neituðu að taka þann kostnað á breskan iðnað hreinsa loftið og leystu málin með því að hækka strompana. Þá losnuðu þeir við mengunina hið næsta sér og hún skaust betur yfir til Skandinavíu og þar mátti hún falla niður. Sem hvað? Sem brennisteinsmengun sem hefur valdið sýringu vatna í gjörvallri Skandinavíu og Norður-Evrópu þannig að það finnst varla í þeim ætur fiskur lengur. Og það kostar stórfellda fjármuni á hverju ári að kalka vötn til þess að bregðast við þessu. Nú hefur að vísu orðið mikil umbreyting á vegna þess að búið er að berja Breta og aðra til þess að taka til hjá sér og það eru verulegar framfarir á allra síðustu árum í þessum efnum, en á Íslandi virðist þessi tími vera enn við lýði, að menn hækka bara strompana.

[14:45]

Og hvað eru menn að gera? Halda menn að það sé vegna þess að þetta séu alveg jafngildar aðferðir og það sé bara svona eitthvert frjálst val? Nei, við skulum bara hafa það á hreinu hvað þetta er. Alcoa ætlar að spara sér bæði stofnkostnaðinn og rekstrarkostnaðinn við það að reka almennileg hreinsivirki í þessari fabrikku. Það vita allir sem eitthvað vita um þennan iðnað að um það snýst þetta mál.

Af því að Ísland er svo örlátt á mengunarkvóta sem er ókeypis og vegna þess að metnaður manna er ekki meiri en þetta --- (Gripið fram í: Jú.) metnaður manna er ekki meiri en þetta hér er þetta tekið gott og gilt og selt sem gjaldgeng vara. Í Noregi er þess krafist í nýjum álverum að þar sé vothreinsun. Í mörgum fleiri löndum hygg ég að það eigi einnig við. En ekki á Íslandi. Nei, þar er eins og allir vita opið hús. Komið bara. Komið endilega, Alcoa, Alcan, Rússar, Kínverjar, Pepsini. Komið, komið, komið. Byggið álver, virkið, virkið, stíflið, stíflið. Minimum red tape, lowest energy prices in Europe. Það eru gylliboðin. Lægsta orkuverð í Evrópu. Lágmarksumhverfiskröfur. Það er alveg sjálfsagt að þýða þetta í snatri og láta af því að vera með erlendar tilvitnanir. Bæklingurinn góði var samt á ensku, enda aðallega ætlaður út á við. Því var ekki sérstaklega hampað, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, á Íslandi að verið væri að bjóða erlendum auðhringum lægsta raforkuverð í Evrópu.

Umhverfisáhrif álversins eru auðvitað umtalsverð og þau hafa verið á mjög krítískum mörkum gagnvart mörgum þáttum aðstæðna í Reyðarfirði. Menn vita jú að þar er mikið staðviðri og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað verður um iðnaðarmengað loft sem þar safnast fyrir í firðinum á kyrrum dögum. Og það skyldi þó ekki vera ein ástæðan fyrir 80 metra strompunum að koma menguninni hærra upp í loftlögin til þess að þau myndi síður baneitruð ský niðri við jörðina? Samt er þetta svona krítískt, herra forseti, eins og ég hef reyndar áður vitnað til hér, að brennisteinsdíoxíð gæti farið upp fyrir viðmiðunarmörk á þynningarsvæðinu. Það er hérna neðanmálsgrein í greinargerð frv. á bls. 56 sem er afar athyglisverð, m.a. í ljósi þess að Umhverfisstofnun virðist ætla að sætta sig við þetta. Maður átti ekki von á öðru en að ríkisstjórnin tæki þessu vel en að Umhverfisstofnun skuli láta bjóða sér framsetningu mála af þessu tagi kemur á óvart. Alcoa fabúlerar um að sennilega komist þeir niður fyrir viðmiðunarmörkin með 80 metra skorsteinum, en e.t.v. ekki og þá fari þeir bara yfir í vothreinsun. Þannig stendur málið. Og það segir hér, með leyfi forseta:

,,Alcoa er að skoða mögulegar hreinsiaðferðir til þess að uppfylla umhverfismörk og stærð þynningarsvæðisins án vothreinsunar, í samræmi við markmið fyrirtækisins um að koma algjörlega í veg fyrir frárennsli frá álverum sínum. Sá möguleiki er fyrir hendi að niðurstöður athugunar Alcoa verði þær að vothreinsun sé nauðsynleg við álverið.``

Svona aumt er þetta nú. Þetta er ekki þroskaðra en svo í umræðunni.

Og hvað sagði Skipulagsstofnun í sínum úrskurði um að ekki þurfi sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum þessa álvers? Jú, í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 21 segir, með leyfi forseta:

,,Ekki er gert ráð fyrir vothreinsun, heldur verður notuð þurrhreinsun á útblástur frá álverinu. Það mun draga verulega úr styrk mengandi efna í frárennsli frá álverinu`` --- auðvitað --- ,,að ekki sé gert ráð fyrir förgun kerbrota á vothreinsun.``

Síðan segist Alcoa ætla að nota rafskaut með lægra brennisteinsinnihaldi. Og því er bara kyngt þótt þeir tali þar um lægri viðmiðunarmörk en yfirleitt eru þekkt í slíkum skautum:

,,Með lægra innihaldi brennisteinsdíoxíðs í rafskautum (1,5%) og 78 metra háum skorsteinum á þau hreinsivirki hefur verið sýnt fram á að styrkur brennisteinsdíoxíðs verði líklega`` --- verði líklega --- ,,undir umhverfismörkum alls staðar umhverfis álverið.``

Á þessum bláþræði hangir þetta. Alcoa segir: Við ætlum að nota svona og svona góð skaut og við erum að athuga þetta. Kannski gengur þetta ekki upp, e.t.v. þurfum við að fara yfir í vothreinsun, og þá kemur Skipulagsstofnun og segir: Jú, þetta sleppur líklega. Heyrðu, ókei, þið megið þetta. Þetta sleppur líklega. Allt í lagi. Farið bara af stað.

Svona er þetta. Þetta er metnaðurinn.

Er nema von að þetta sé allt saman svona þegar menn eru á hnjánum í málinu frá upphafi? Eru á hnjánun. Það er búið að mynda það andrúmsloft í þessari stóriðjuumræðu á Íslandi --- það er ekki nýtt, það hefur fylgt henni frá upphafi vega --- að við séum aðilarnir sem eigum að biðja menn að koma, bjóða mönnum landið, hafa opið hús. Við megum eiginlega bara þakka fyrir og sætta okkur við hvað sem er ef einhverjir eru svo góðir að vilja koma hingað og nota orkuna okkar, byggja stórar fabrikkur og flytja arðinn af þeim úr landi. Þannig er bara myndin.

Þetta er stóriðjustefnan eins og hún hefur verið frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Ísland er eina landið í heiminum sem hefur ekki breyst í þessu tilliti. Tíminn hefur staðið hér kyrr síðan 1960--1970 í þessum efnum, algerlega hvað varðar viðhorf þeirra sem ráða ferðinni, og eftir höfðinu dansa limirnir. Því miður. Metnaður annarra aðila sem maður hefði auðvitað bundið vonir við eða viljað trúa að reistu sig eitthvað í þessum málum reynist ekki vera meiri en þetta. Það er auðvitað dapurlegt, herra forseti.

Um efnahagsáhrif allra þessara framkvæmda hefur líka verið settur á svið ótrúlegur farsi. Hann hefur tekið stórstígum breytingum á allra síðustu dögum. Á haustmánuðum og fram um áramót ræddu menn málin af þó þeirri alvöru að þessi gríðarlega fjárfesting mundi náttúrlega hafa umtalsverð áhrif og það yrði væntanlega að grípa til mótvægisaðgerða, draga úr opinberum framkvæmdum og hækka vexti, jafnvel mundi gengi krónunnar óhjákvæmilega styrkjast þannig að þetta hefði umtalsverð áhrif á efnahagsumhverfið hér á næstu árum. Svo fóru ráðamenn undir forustu forsrh. að átta sig á því að kannski yrði þetta ekki mjög vinsælt þegar sá veruleiki rynni upp fyrir öðru atvinnulífi að það yrði þolendur þessa ástands í stórum stíl, að skuldsett heimili landsins bara vöknuðu allt í einu upp við það að skuldirnar hækkuðu vegna efnahagsáhrifa framkvæmdanna, að annað atvinnulíf, einkum útflutningsatvinnugreinarnar, mundi búa við miklar þrengingar um líklega fjögurra, fimm ára tímabil. Þá var þetta ekki lengur orðin góð söluvara. Hvað gerðu menn þá? Komu hingað í ræðustólinn og sögðu: Áhyggjur ótímabærar, í fyrsta lagi 2005 sem þarf að hafa einhverjar áhyggjur af þessu. Þvert ofan í álit Seðlabankans. Þvert á glænýtt álit fjmrn. kom forsrh. og sagði þetta allt saman bull og vitleysu, þetta hefði engin efnahagsáhrif fyrr en einhver tímabundin kannski 2005. Og þvílík svipa um hrygg fjmrh., Seðlabankans, Hagstofu, háskólans eða hvað þau heita öll apparötin sem hafa verið að kíkja á þetta.

Þegar maður les svo álit fjmrn. veltir maður fyrir sér hvernig höfundunum hafi liðið þegar sjálfur erkibiskupsboðskapurinn var fluttur hér um að þetta væru allt saman ótímabærar áhyggjur af efnahagsáhrifum. Allt saman ótímabærar áhyggjur. Auðvitað styðja Samtök atvinnulífsins þetta. Auðvitað kemur eitt lítið lettersbréf þaðan og skrifar upp á stefnu stjórnvalda, skárra væri það nú. Hverjir mæta þar á aðalfundina og halda ræður hjá Verslunarráðinu og Samtökum atvinnulífsins?

Vitnum í fjmrn., herra forseti, á meðan það hafði leyfi til að hafa sjálfstæða skoðun í þessu máli. Það er ekki lengur. Samkvæmt reglugerð ber þeim að hlýða vilja ríkisstjórnarinnar í málinu. Hvernig seytla áhrif þessara framkvæmda út í hagkerfið? spyr fjmrn.

Einföld lýsing gæti verið eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdirnar kalla á mikið innstreymi erlends fjármagns, annars vegar í formi erlends lánsfjár innlendra aðila, einkum Landsvirkjunar, vegna virkjunarframkvæmda og hins vegar vegna fjármögnunar álversframkvæmdanna. Þessi síðasttaldi hluti gæti verið hvort sem er í formi erlends lánsfjár eigenda eða eiginfjárframlaga.`` --- Með öðrum orðum, uppistaðan af fjármagninu sem fer í þessar framkvæmdir verður erlent fjármagn, lán tekin af Landsvirkjun eða erlent eigið fé eða erlend lán álversfyrirtækisins. --- ,,Bein afleiðing þessa er að eftirspurn eftir vinnuafli og öðrum framleiðsluþáttum eykst, sem aftur leiðir til þess að atvinnuleysi minnkar.`` --- Gott væri það nú. --- ,,Ef eftirspurnin er meiri en sem nemur minnkun atvinnuleysis`` --- eins og hér á við --- ,,verður þrýstingur á laun til hækkunar. Framboð á gjaldeyri eykst, sem leiðir til hækkunar á gengi íslensku krónunnar. Viðskiptahalli er að sjálfsögðu óhjákvæmilegur meðan verið er að flytja inn þær erlendu vörur sem notaðar eru í framkvæmdirnar.`` --- Viðskiptahallinn mun ekki bara vaxa af þessum sökum, hann mun að sjálfsögðu vaxa með sterkara raungengi krónunnar því þá verður innflutningurinn ódýrari. Við siglum hraðbyri inn í nýtt tímabil dúndrandi viðskiptahalla með sambærilegri erlendri skuldasöfnun. --- ,,Erlendar skuldir þjóðarbúsins aukast þannig, en hér þarf þó að hafa í huga að ábyrgðaraðilarnir hvað varðar sjálfar álversframkvæmdirnar eru erlend fyrirtæki, þ.e. Norðurál og Alcoa.``

Vel að merkja, herra forseti, hér var verið að fjalla um það ástand að í gangi væru samtímis framkvæmdirnar á Grundartanga og í Reyðarfirði og tilheyrandi virkjanir.

,,Þegar meginhluti framkvæmdanna er genginn yfir verður óhjákvæmilegur samdráttur sem m.a. kemur fram í minni eftirspurn eftir vinnuafli, minni hagvexti og lægri verðbólgu. Staðan gagnvart útlöndum fer hins vegar batnandi þegar fjárfestingin fer að skila útflutningstekjum, sem að lokum`` --- herra forseti, sem að lokum --- ,,standa undir afborgunum af þeim erlendu lánum sem tekin hafa verið til að fjármagna fjárfestinguna.``

Þetta er afar athyglisvert orðalag hjá fjmrn., og ekki að tilefnislausu. Jú, auðvitað vegna þess að greiðslujöfnuðurinn gagnvart þessum framkvæmdum er dúndrandi neikvæður um langt árabil. Það er ekki fyrr en langt er liðið á samningstímann sem þetta fer að snúast við, gagnvart meira að segja gjaldeyrisjafnvægi þjóðarbúsins. Við erum að tala um langt tímabil, ekki bara byggingartímann þegar skuldirnar hrannast upp en engar tekjur koma á móti, það er ekki fyrr en líður á árið 2007 sem fyrstu aurarnir koma í kassann hjá Landsvirkjun ef allt verður á áætlun. Milljarða tuga fjárfestingar fram að því verða teknar að láni og hlaða á sig vöxtum allan þennan tíma.

Svo kemur að því að lokum, segir fjmrn., að þetta fer að standa undir sér, þ.e. ef dæmið er rétt reiknað. Ef álverðið verður svo vinsamlegt að hækka fyrir okkur á árunum eftir 2007. Höfum við einhverjar tryggingar fyrir því? Eru menn forspáir? Hvað sagði völva vikunnar um álverðið? Ég man ekki eftir því að hún fullyrti að það mundi hækka árið 2007.

,,Þegar samdráttarskeiðinu í lok framkvæmda er lokið tekur við hægari aðlögun hagkerfisins að nýrri stöðu þar sem framleiðslustig hagkerfisins hefur vaxið sem nemur hinni nýju framleiðslu og þeim heildaráhrifum sem hún hefur.`` --- Vonandi, ef allt færi vel mundi þetta jafna sig. Niðurstaðan er þessi, herra forseti:

Fyrst kemur langt framkvæmdatímabil með gríðarlegu innstreymi fjármagns, raunvextirnir verða sennilega um 2% hærri, gengi krónunnar styrkist umfram það sem orðið er og þykir þó ýmsum nóg um, engar tekjur koma á móti fyrr en líður á árið 2007. Það er ekki fyrr en langt inni í framtíðinni sem greiðslujöfnuður þjóðarbúsins gagnvart þessari fjárfestingu kemst í jafnvægi og verður jákvæður --- ef allt gengur að óskum.

Fyrstu árin eftir framkvæmdirnar verða mjög erfið vegna samdráttaráhrifanna, þegar allt í einu hætta að koma inn í hagkerfið þeir tugir milljarða króna í erlendri mynt á hverju ári sem hafa gert það um langt árabil. Kannski verða þeir timburmenn hinu fylliríinu verri meðan á þessu stendur. Það skyldi þó ekki fara svo. Ruðningsáhrifin gagnvart öðru atvinnulífi verða umtalsverð. Og það skyldi þó ekki fara svo, herra forseti, að fórnarkostnaðurinn vegna starfanna 750 sem þarna bætast við yrði jafnvel þúsundir glataðra starfa eða tækifæra í öðru atvinnulífi í landinu?

Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti: Hvar eru forsvarsmenn annarra atvinnugreina? Þeir mættu gjarnan hringja í einhverja fleiri en mig eða fara í fjölmiðlana og bera sig upp með áhyggjur sínar af því að þessir háu vextir, þetta háa raungengi og efnahagsáhrifin muni verða þeim mjög mótdrægt næstu árin. Ég trúi ekki öðru en að einhverjir fleiri en ég hafi heyrt þessi sjónarmið hjá ábyrgðaraðilum í atvinnulífinu. Svo mörg slík erindi hef ég móttekið á undanförnum dögum og vikum.

[15:00]

Það leiðir auðvitað algerlega af sjálfu að LÍÚ, grátkórinn góði, er búinn að kveðja sér hljóðs, hann er búinn að taka nokkur lög núna þegar fyrir áramót um að hann ráði varla við það raungengi sem nú þegar er orðið. Það er svo sem ekkert skrýtið, við vitum alveg ef gengisvísitalan fer mikið niður fyrir 130 þá byrja aðvörunarbjöllur að hringja. En þeir hafa ekki hátt gagnvart því sem þó er verið að ákveða að þessu leyti.

Ferðaþjónustan. Hvernig halda menn að ferðaþjónustu muni reiða af við þessar aðstæður? Að vextirnir hækka verulega á nýjan leik og raungengið verður ekki bara á stuttu tímabili, heldur kannski í fimm ár það sem hér er verið að boða o.s.frv.

Nei, staðreyndin er sú að engin leið er að horfa fram hjá því að fórnarkostnaður annarra aðila í samfélaginu vegna þessara gríðarlegu framkvæmda, ef af þeim verður, getur orðið svo mikill að það sé af þeirri ástæðu einni verr af stað farið en heima setið.

Menn gera mikið með þessi 750 störf og ekki skal gert lítið úr því að það er gott að fá vellaunuð störf inn í landið. (Gripið fram í: Nú?) Hefur einhver haldið öðru fram? En þurfum við ekki aðeins að átta okkur á því að jafnvel þó að þetta verði nú til og störfin verði 750, þá dugar það skammt gagnvart þeim 15.000 störfum sem þurfa að verða til í landinu á hverjum áratug, þeim 1.500--2.000 störfum sem þurfa í raun og veru að verða til hér á hverju einasta ári ef ekki á að byggjast upp atvinnuleysi.

Verið var að segja frá verkefninu Auður í krafti kvenna. Stórmerkileg og skemmtileg tilbreyting frá stóriðjuvaðlinum að heyra allt í einu að sett var á fót verkefni sem örugglega hefur kostað brotabrot, prómill af þessum ósköpum. Búið að standa í þrjú ár ef ég man rétt. Til hafa orðið ein 50 fyrirtæki og störfin eitthvað talsvert á þriðja hundrað. (Gripið fram í: 217.) Vel á þriðja hundrað störf.

Hvað skyldi nú hvert starf sem þarna hefur orðið til, ekki síst kvennastörf, hafa kostað? Eigum við að giska á hálfa milljón eða eina milljón eða eitthvað svoleiðis? En hér, vægt reiknað, verður fjárfestingin á bak við hvert einasta starf 300 millj. kr. Þó við tökum bara svona lága tölu, 200 milljarða stofnkostað og 750 störf. Þetta er einhver dýrasta aðferð sem þekkt er í heiminum fyrir utan kannski þær að stunda geimrannsóknir til að skapa störf. Þetta er bara staðreynd, vegna þess að stofnkostnaður er svo gríðarlegur í þessum tæknivædda iðnaði, að störfin sem slík eru örlágt hlutfall hvort heldur mælt er á mælikvarða stofnkostnaðar eða veltu í rekstri.

Um sérkjörin, herra forseti, sem þessu fyrirtæki á að færa, bæði í skattalegu tilliti og ýmsu öðru, ætla ég að fjalla síðar því tími minn leyfir það ekki í 1. umr. Ég ætla þó að nefna einn þátt í lokin og það er raforkuverðið.

Samkvæmt fréttastofu sjónvarpsins er ríkisleyndarmálið mikla um raforkuverðið, sem ætlunin hefur verið að fara með eins og mannsmorð, ekki betur varðveitt en það að álverið á að borga 17,4 mill á kílóvattstund miðað við 1.500 dollara álverð á tonn. Það er 1,40 kr. Miðað við núverandi álverð er þetta nær því að vera 1,20 kr. á kílóvattstundina.

Almenningur borgar fyrir almenna raforkunotkun í dag 7,74 kr. fyrir sömu einingu, fyrir sömu kílóvattstund. Með virðisaukaskatti 9,64 kr. fyrir sömu kílóvattstund. Með öðrum orðum, almenningur og minni fyrirtæki í landinu sem yfirleitt verða að sæta því að borga þennan almenna taxta --- það er ekki fyrr en komið er upp fyrir 50.000 kílóvattstunda notkun á ári sem menn geta farið að semja um afltaxta --- borga sem sagt án virðisaukaskatts sexfalt verð, með virðisaukaskatti rúmlega áttfalt verð á við álverið. Svona eru nú hlutaskiptin.

Auðvitað er ekki um sambærilega afgreiðslu að ræða hvorki í magni né hagkvæmni eins og að selja stórum notanda. En stendur það ekki í nokkrum manni sem er að borga þetta verð, t.d. til utanhússlýsingar? Vita menn hvað almenningur borgar til utanhússlýsingar, að vísu með einhverri þjónustu innifalinni? Rétt tæpar 13 kr. á kílóvattstundina með virðisaukaskatti. Það er meira en tífalt það sem álverið á að borga. Enda liggur fyrir að við erum að færa þessu fyrirtæki einstök kostakjör sem sambærilegum aðilum bjóðast hvorki vestan hafs né austan.

Herra forseti. Höfum í huga að það er ekki einu sinni víst að þetta verð skili sér. Það er algerlega háð því að hinar bjartsýnu spár um hækkandi álverð þvert á langtímaþróunina gangi eftir og að álverðið verði svo vinsamlegt fyrir okkur að fara úr 1.300 dollurum upp í 1.550 á næstu missirum til að dæmið gangi upp, annars er þetta kolfallið, svo tæpir eru þessir reikningar allir. Og það viðurkenna meira að segja höfundarnir sjálfir að smávægilegt frávik, 10% hækkun á stofnkostnaði eða örlítið lægra álverð, fellir dæmið eins og spilaborg. Þá er þetta farið úr hinni meintu lágu arðsemi miðað við þessa hógværu ávöxtunarkröfu Landsvirkjunar yfir í tap.

Ef það yrði niðurstaðan, herra forseti, hversu grátlegt yrði það ekki að þjóðin fórni þessum náttúrugersemum sínum um aldur og ævi með óafturkræfum skammsýnun ákvörðunum í von um mögulegan ávinning sem er þó sýnd veiði en ekki gefin, sem er algerlega háð þróun á heimsmörkuðum fyrir álverð eða vöxtum eða öðrum slíkum hlutum.

Það er því, herra forseti, alveg sama hvernig ég nálgast þetta mál og ég leyfi mér að hafa skoðun á öllum þáttum þess, hversu mikið sem það kann að fara í taugarnar á hæstv. iðnrh., að þetta er ekki skynsamleg ákvörðun, skynsamleg framkvæmd. Það er enn hægt að snúa við. Þjóðin á að fá að hafa síðasta orðið með almennri þjóðaratkvæðagreiðslu eins og við höfum lagt til. Fáist það ekki samþykkt er aðeins ein leið eftir og hún er að breyta atkvæðaseðlinum í alþingiskosningum næsta vor í kosningu um þetta mál.