Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:09:26 (3095)

2003-01-28 15:09:26# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hóf mál sitt á því að segja að eins og venjulega eða við hafi mátt búast hafi ég dregið upp ýmsar rangfærslur og farið með hálfsannleik í mínu máli. Hverjar voru rangfærslurnar? Hvað var hálfsannleikur? Eigum við ekki að ræða þetta þannig? Ég skal skiptast á skoðunum við hv. þm. ef hún tilgreinir þau ummæli mín sem hún telur vera röng, telur vera hálfsannleik, en ekki með þessum hætti. Það er ekki rökræða sem ég nenni að eyða tíma mínum í.

Hvernig met ég aðstæður fólks á Austurlandi og þeirra sem hafa hugsað sér að njóta góðs af þessu álveri? Ég met málefni Austfirðinga með nákvæmlega sama hætti og ég met málefni Vestfirðinga, fólks í Dölum, fólks á Norðurlandi, fólks í Skaftafellssýslum og reyndar á höfuðborgarsvæðinu. Ég geri ekki greinarmun á Íslendingum í þessum efnum. Ég tel að við séum öll ein þjóð í einu landi. Og þegar kemur að stærstu og mikilvægustu ákvörðunum, þá eigum við að hefja okkur upp yfir það að við séum Austfirðingar eða Norðlendingar eða Vestfirðingar, meira en eitthvað annað.

Þess vegna, einmitt þess vegna höfum við reynt að beita okkur fyrir almennri byggðastefnu og almennum aðgerðum í atvinnumálum sem kæmu öllum landsmönnum jafnt til góða, allri landsbyggðinni, ekki bara litlum bletti um miðbik Austurlands sem e.t.v. og e.t.v. ekki nýtur góðs af þessu álveri. Um það er nú deilt hversu farsælt þetta kunni að reynast fjórðungnum einnig í byggðalegu tilliti þegar til lengri tíma er litið og vitna menn þar m.a. í reynslu margra nálægra þjóða þar sem oft hefur komið á daginn að vandamál skapast þegar frá líður í byggðarlögum sem byggja alfarið á einhæfri atvinnu af þessu tagi.

Að nýta orku fallvatnanna, segir hv. þm., að sé stefnan. Já, en hvernig og hvað á að virkja? Eigum við þá ekki að ræða það? Er allt undir? Förum við líka í Dettifoss og Gullfoss ef það er bara nógu hagkvæmt eða ef fólkið í kringum þessa fossa vantar vinnu? Við skulum bara tala um þetta eins og þetta er. Höfum við efni á því að gæta náttúrunnar okkar eða ekki?