Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:11:42 (3096)

2003-01-28 15:11:42# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var aðeins reynt að gefa það í skyn að nú ætti að fara að virkja Dettifoss. Er Dettifoss allt í einu kominn inn á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum eða Jökulsár í Fljótsdal? Er það þannig? Er verið að gefa það í skyn? (Gripið fram í: Það víst.) Ég held að það væri allt í lagi að við ræddum um þetta mál eins og það liggur hér fyrir.

Það er mat þeirra félagsfræðinga og þeirra sérfræðinga sem hafa farið yfir málið hvernig það muni hafa samfélagsleg áhrif á Austurlandi og á landsbyggðinni að hér sé um mikla atvinnusköpun að ræða. Þetta muni leiða til hærri atvinnutekna á svæðinu. Þetta muni auka viðskiptin. Þetta mun hafa góð áhrif á ferðaþjónustuna. Og þetta mun hafa góð áhrif á menningar- og félagslíf. Skiptir fólk þennan flokk engu máli? Skiptir fólk á Austurlandi þingflokk Vinstri grænna engu máli? Er það þannig?

Þarna erum við að tala um gífurlega góð áhrif fyrir búsetuna á Austurlandi og ég held að kominn sé tími til þess að heyra það að þingflokkur Vinstri grænna viðurkenni það. Það er algjörlega skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af umhverfisáhrifum. Það höfum við öll. Enda hefur verið farið yfir það með mjög vönduðum hætti og þau áhrif metin. En er ekki allt í lagi að viðurkenna það að þarna er um jákvæð áhrif á samfélagið á Austurlandi að ræða?