Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:58:10 (3100)

2003-01-28 15:58:10# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að hér er verið að ræða býsna viðamikið mál. Frumvarpið er í mikilli bók, reyndar er frv. sjálft ekki nema örlítið brot, rétt fyrstu blaðsíðurnar og síðan fylgja með ýmsar skýrslur og greinargerðir. Umræðan segir okkur hins vegar að málið sé býsna stórt. Þá er ég ekki bara að tala um þá umræðu sem er hér í dag, heldur þá umræðu sem áður hefur farið fram á hinu háa Alþingi og sömuleiðis úti í samfélaginu.

Ég verð að segja, herra forseti, að þegar umræða um mál af þessu tagi fer að bera vott um trúarhita þá fer mér nú jafnan að líða illa. Þá er mér alveg sama hvort um er að ræða ræðu eins og þá sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson flutti hér áðan eða ræður eins og heitustu andstæðingar virkjunar halda og syngja undir ættjarðarsöngva. Mér finnst hvort tveggja nokkuð sem er býsna erfitt að fóta sig á ef menn vilja í alvöru ná einhverju sem mætti kalla skynsamlega niðurstöðu, eitthvað sem byggja mætti á til framtíðar og væri klárlega samferða þeim stóra meiri hluta þjóðarinnar sem er tiltölulega jákvæður gagnvart þessum framkvæmdum en er hreint ekki sama um hvernig í þær er farið.

[16:00]

Herra forseti. Ég held að það sé afskaplega gott að Samfylkingin skuli þó hafa þá stöðu hér í þinginu að geta talað máli þessa stóra meiri hluta vegna þess að hinar raddirnar hafa verið býsna háværar, bæði hér inni og eins hingað inn, þ.e. þær jákvæðu gagnrýnislausu og hinar neikvæðu gagnrýnislausu. En af því að málið er stórt og margbrotið, herra forseti, er mikilvægt að menn hafi allan varann á, að menn gaumgæfi allt það sem er til umfjöllunar og ákvörðunar og fari sér að engu óðslega.

Ég er sammála hv. þm. Sverri Hermannssyni um að það er óþarfi að treysta hæstv. ríkisstjórn út í eitt hvað þetta mál varðar. Ríkisstjórnin hefur lagt býsna mikið undir til að ná málinu í höfn og þó að við getum verið sammála um að mikilvægt sé að setja fleiri stoðir undir efnahags- og atvinnulíf megum við samt ekki gleyma að við erum að tala um nýtingu á sameiginlegri náttúruauðlind, nýtingu á náttúruauðlind í eigu þjóðarinnar. Það kemur okkur öllum við hvernig hún er nýtt og okkur er ekki sama um afdrif náttúrunnar og afdrif mannlífsins. Við viljum skoða þetta og leita leiða til að ná sem bestri sátt um það hvernig við nýtum og notum.

Herra forseti. Þetta frv. virkar, eins og ég sagði áðan, býsna mikilfenglegt þegar bókin berst manni í hendur. En síðan kemur í ljós að frv. sjálft er ekki nema 11 greinar og þær misstórar. Meginatriði þess er auðvitað að ríkisstjórnin er að biðja um heimild til að semja við Alcoa, Fjarðaál og eigendur álversins, Alcoa á Íslandi og Reyðarál hf. um álver í Reyðarfirði. Helstu ákvæði frv. sem síðan verður byggt á eru, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er veitt heimild til að semja við Fjarðaál sf. um að reisa og reka álverksmiðju til framleiðslu á allt að 322.000 tonnum af áli á ári. Kveðið er á um að félagið og eigendur þess starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga.``

Auðvitað, herra forseti, þarf ekki að flytja lagafrv. til að segja að eigendur fyrirtækja á Íslandi eigi að starfa samkvæmt íslenskum lögum. Frv. er að sjálfsögðu einnig flutt til þess að fara fram á ákveðnar undanþágur í því efni.

,,Í öðru lagi er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að tryggja efndir af hálfu Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar.``

Þar kemur að því, herra forseti, að það er talið rétt og sjálfsagt krafa af hálfu Alcoa að ríkið tryggi efndir sveitarfélagsins sem, eins og menn þekkja, er ekki giska stórt en menn hafa væntingar um að það geti eflst mikið við þessa framkvæmd.

,,Í þriðja lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álverksmiðjunnar en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum.``

Það er mikið rétt. Hér eru nokkur undanþáguákvæði, nokkur ákvæði sem eiga að gera fyrirtækinu auðveldara að skipuleggja sig fram í tímann og einnig að gera þeim komuna til Íslands þægilegri.

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, þegar ég les ákvæði af þessu tagi, hvort við á hinu háa Alþingi þyrftum ekki að fara af meiri alvöru yfir skattalöggjöf okkar og allt umhverfið sem við búum íslenskum atvinnurekstri. Ég tala ekki um ef okkur væri alvara með að reyna að laða hingað inn erlent fjármagn. Hér er verið að leggja býsna mikið undir til þess að laða að erlenda fjárfestingu. Herra forseti. Það er af hinu góða að mati okkar jafnaðarmanna. Við teljum að það þurfi aukna erlenda fjárfestingu á Íslandi. Við teljum að það sé til bóta og það styðst auðvitað við niðurstöður hagfræðinga, að það sé til bóta að koma með erlent fjármagn inn í atvinnurekstur til þess að efla hann og auka hagvöxt í landinu. En við setjum auðvitað spurningarmerki við það af hverju þessi erlenda fjárfesting hefur hingað til verið svo einhæf sem raun ber vitni.

Ef við horfum á erlenda fjárfestingu á Íslandi eins og hún var í árslok 2000, þá er ég að vitna í svar við fyrirspurn sem hæstv. iðnrh. var með hér á Alþingi á síðasta þingi, og miðum við hana og þær tölur sem áður lágu fyrir virðist sem erlend fjárfesting á Íslandi sé um það bil 44 milljarðar. Þar af eru yfir 30 milljarðar í iðnaði. Eins og ég segi, herra forseti, hljótum við að velta því fyrir okkur af hverju við getum ekki laðað að erlenda fjárfestingu í fleiri greinum. Um það ætla ég að fjalla nánar hér á eftir í ræðu minni. Ég ætla að klára þessi ákvæði frv., með leyfi forseta.

,,Í fjórða lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og stöðu gerðardóms auk þess sem íslensk lög ráða um túlkun og skýringu samninga.``

Þetta eru megindrættir frv. Ég ætla ekki að fara frekar ofan í þá nema víkja aðeins að skattamálunum og umhverfi íslenskra atvinnufyrirtækja á eftir eins og ég sagði.

Herra forseti. Það er mála sannast að Ísland hefur gengið í gegnum mikla atvinnuháttabreytingu á ótrúlega skömmum tíma. Menn tala um þróun atvinnumála á landsbyggðinni kannski fyrst og fremst vegna þess að þar hafa breytingarnar valdið brottflutningi. Þar hefur orðið fækkun á störfum og fólk flutt í burtu. Þetta hefur gerst, m.a. vegna þess að tæknibreytingar hafa gert ýmis störf óþörf sem áður voru unnin með höndum og sömuleiðis hafa verið innleiddir ýmsir nýir siðir í samfélagi okkar sem gera það að verkum að menn horfa öðruvísi til fjárfestinga, arðsemi af fjármagni o.s.frv. Það sem einu sinni gat lifað, kaupfélögin og allar þeirra stasjónir og útnárar, gat ekki staðist þær kröfur eða það umhverfi sem smám saman varð til. Enginn landshluti, ekki höfuðborgarsvæðið heldur, hefur farið varhluta af þessum breytingum. Umræðan hefur hins vegar kannski verið ákafari um atvinnumálin sem slík úti á landi af því að þar hefur orðið fækkun, fækkun sem hefur leitt til þess að það verður sífellt erfiðara fyrir sveitarfélögin úti á landi að halda úti þeirri almannaþjónustu sem fólk gerir kröfu til og fábreytni atvinnulífsins verður sífellt meiri.

Á Austurlandi hagar þar að auki þannig til að sjávarútvegur þar hefur þá sérstöðu að þar hafa fyrst og fremst verið byggð upp öflug fyrirtæki í uppsjávarfiski. Sú veiði veitir eins og menn þekkja árstíðarbundna vinnu sem þýðir að síauknar kröfur á hagkvæmni í sjávarútvegi og þær breytingar sem hafa oft komið þar niður með öðrum og stundum áhrifaríkari hætti annars staðar í landinu. Það er þess vegna ekki einkennilegt að Austfirðingar sæki e.t.v. umfram aðra eftir atvinnu sem byggt geti á meiri stöðugleika en sjávarútvegur. Menn halda sig við að vinna með nýtingu náttúruauðlinda en það er út af fyrir sig skiljanlegt að á Austurlandi skuli menn sækja svo mjög sem raun ber vitni í atvinnugrein sem getur boðið upp á meiri stöðugleika en sjávarútvegurinn sem þar er burðarás.

Það er líka skiljanlegt, herra forseti, að Austfirðingar horfi með nokkurri eftirvæntingu til þess sem kann að gerast í ljósi þeirrar sögu sem við þekkjum af Austurlandi. Þar hefur ítrekað verið farið af stað með hugmyndir og byggðar upp væntingar varðandi nýtingu þess vatnsafls sem hægt er að virkja þar eystra og um iðjuver sem skapað gæti fleirum atvinnu. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér. Ég hef gert það áður úr þessum ræðustól og ég veit að það á eftir að gera það við þessa umræðu enda sjálfsagt að halda því til haga. Í ljósi sögunnar hljótum við líka að skilja afskaplega vel vilja og sókn Austfirðinga í þau atvinnutækifæri sem munu fylgja þeirri uppbyggingu og þeirri atvinnustarfsemi sem á að fylgja.

Að auki, herra forseti, er ástæða til að ræða það hverju sinni sem talað er um atvinnumál og fólksfækkun á landsbyggðinni að við hljótum að sýna því skilning að fólk víða um landið kjósi sér frekari atvinnutækifæri og uppgang þó ekki væri til annars en að húsið þess, fasteignin, ævisparnaðurinn, fái aftur verðgildi. Allt of víða er það þannig að húseignir fólks, jafnvel eitthvað sem fólk hefur sett ævisparnað sinn í, hafi ekki lengur verð. Það er ekki markaður fyrir þetta húsnæði. Þó að fólk vilji færa sig um set til að sækja í aðra og léttari atvinnu eða fylgja börnunum sínum á stærri þéttbýlisstaði getur það ekki selt húsin sín. Þetta er auðvitað óþolandi ástand og gerir að verkum að víða er örvænting vegna þessara hluta meiri en þyrfti að vera ef stjórnvöld hefðu á einhverju stigi komið til móts við fólk. Við hefðum átt að geta náð samkomulagi um að þær miklu atvinnuháttabreytingar sem hafa átt sér stað væru í raun samfélagsbreytingar sem kæmu okkur öllum við en ekki bara þeim einstaklingum sem verða fyrir barðinu á þeim.

Herra forseti. Þetta er sem sagt stórt mál fyrir Austfirðinga og stórt mál fyrir þjóðina alla, bæði vegna þess að við erum að nýta sameiginlegar náttúruauðlindir og líka hins að við væntum þess að áhrifin geti orðið þjóðhagslega jákvæð. Þær skýrslur sem við fáum benda til þess. Það er þó áfram rétt að hafa varann á. Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Það er full ástæða til þess, herra forseti, að sýna ríkisstjórninni og þeim sem fara með efnahagsstjórnina virkt aðhald. Ég tek undir það sem áður hefur komið fram í umræðunni, að mér finnst stjórnvöld ýta of léttilega frá sér því sem hér hefur verið innt eftir varðandi mótvægisaðgerðir.

Í fyrri viku fór hér fram umræða um mótvægisaðgerðir vegna þeirra framkvæmda sem nú eru fyrirhugaðar fyrir austan. Það var eðlilegt að kallað væri eftir umræðu um mótvægisaðgerðir en ég hélt satt að segja, þegar mér var ljóst að þessi umræða færi fram, að menn vildu ræða um mótvægisaðgerðir dagsins í dag. Hæstv. forsrh. tókst hins vegar að snúa umræðuna niður og flytja hana nokkur ár fram í tímann þannig að hann gaf landsmönnum til kynna að þetta væri ótímabært. Að mínu mati, herra forseti, er það ekki rétt. Ekki bara vegna þess að mér finnst sjálfsagt að ræða hluti sem gerast eftir tvö, þrjú eða fjögur ár. Við eigum að undirbúa okkur vandlega og reyna að gera þessa hluti þannig að hagnaðurinn verði sem mestur og skaðinn sem minnstur. Mér fannst merkilegt að hæstv. forsrh. skyldi komast upp með þetta vegna þess að við þurfum á mótvægisaðgerðum að halda nú þegar.

Það er ljóst að í því grunndæmi sem fjmrn. leggur til og byggir hagstærðir sínar á, einu af fylgiskjölum þessarar skýrslu, er t.d. gert ráð fyrir allt annarri gengisþróun en orðin er. Þar eru menn að tala um allt annað gengi en hið háa gengi sem nú þegar er orðin staðreynd í þessu landi. Það er eins og menn hafi ekki gert ráð fyrir því að væntingarnar gætu keyrt gengið upp eins og þær hafa gert og það er alveg ljóst að undanfarið hafa fjármálastofnanir í raun verið að reikna gengið inn í eitthvað sem flestir héldu kannski að færðist ekki mikið fyrr en erlent fjármagn færi að flæða inn í landið að einhverju gagni. En það er ekki svo. Gengið er orðið það hátt skráð að það veldur orðið verulegum erfiðleikum í öðrum atvinnurekstri.

Útflutningsgreinar, samkeppnisgreinar, eiga orðið mjög erfitt margar hverjar. Mörg fyrirtæki eru komin að fótum fram vegna þess hvernig gengið er skráð um þessar mundir. Þegar ég segi að fótum fram, þá er ég, herra forseti, m.a. að tala um fyrirtæki sem byrjuðu árið í ár með enga framlegð. Það vita allir sem hafa komið að atvinnurekstri að fyrirtæki ganga ekki lengi undir þeim kringumstæðum.

[16:15]

Sú sveifla sem verið hefur á gengi bandaríkjadollars undanfarið eitt og hálft ár, um 30% sveifla, er auðvitað búin að vera atvinnulífinu mjög þungbær og því miður hefur niðurstaðan af hinum mikla viðskiptahalla sem sýndi sig síðan í gengishruni eða sprakk út í gengishruni gert það að verkum að mörg af þeim fyrirtækjum sem byggðu hér á nýsköpun, sprotafyrirtæki ýmis, áttu enga lífsvon og nú er svo komið, herra forseti, að ýmis þau fyrirtæki sem þó náðu að lifa af eiga í erfiðleikum og svo þarf ég auðvitað ekki að nefna sjávarútvegsfyrirtækin, þ.e. þau fyrirtæki sem eru í vinnslu og útflutningi.

Nú er ég ekki að segja þetta til að draga upp einhverjar sérstakar hryllingsmyndir. Ég hef heyrt menn tala með miklu stærri orðum um það ástand sem nú hefur skapast. Herra forseti. Þetta eru ruðningsáhrif. Seðlabankinn gerði ráð fyrir þessum áhrifum í svari sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fékk einmitt við fyrirspurn um hin efnahagslegu áhrif sem hún lagði fram í þinginu fyrir um það bil ári. Þar var bent á að gengið kynni að hækka í aðdraganda framkvæmdanna og þó að hinar endanlegu ákvarðanir liggi ekki á borðinu og ekki sé búið að hnýta allar slaufur þá erum við þegar komin inn í þennan fasa og, herra forseti, við auglýsum auðvitað eftir mótvægisaðgerðunum. Hvar eru þær? Hvar ætla menn að taka á? Hvar eru tækin sem eru svo dýrmæt? Að minnsta kosti þegar verið er að tala um Evrópusambandið og myntsvæðið, evruna, þá hefur okkur jafnan verið sagt í þessum sal að stjórntækin sem menn hafa ef þeir hafa krónuna, þessa sveiflukenndu dyntóttu mynt, væru svo mikilvæg að þeim mætti ekki leggja. En hvar eru þau núna, herra forseti? Hversu langt á þessi ruðningur að ganga? Ruðningsáhrif, herra forseti, eru þau áhrif sem verða þegar virkjunarframkvæmdir eða yfirleitt stórframkvæmdir --- við skulum bara taka aðra minni framkvæmd eins og Smáralind --- framkalla áhrif sem ekki verður ráðið við einhvers staðar annars staðar, hafa áhrif í atvinnulífi og leggja jafnvel af fyrirtæki, heilu atvinnugreinarnar eða eitthvað þess háttar. Þannig voru t.d. ruðningsáhrif Smáralindar þó nokkur úti á landi. En ruðningsáhrifin eru sem sé þegar komin vegna þessara framkvæmda. Menn tala jafnan fyrst og fremst um vextina en horfa fram hjá genginu. Kannski er það vegna þess að stjórnvöld vilja ekki tala um þann þátt. Það er svo merkilegt að menn vilja skauta fram hjá genginu sem ræður þó úrslitum um það hvernig mörg okkar mikilvægustu fyrirtækja takast á við sinn rekstur frá degi til dags, frá mánuði til mánðar, frá ári til árs.

Síðan er annað, herra forseti, sem ég vil endilega nefna og verður líka hluti af ruðningsáhrifunum, og vildi ég nú að verkalýðsleiðtoginn sem talaði hér fyrr í dag eða var í andsvörum og hafði áhyggjur af ruðningsáhrifum, hlýddi á og það eru ruðningsáhrif sem verða vegna launahækkana. Reikna má með því, herra forseti, að hluti af ruðningsáhrifunum verði þau að hér leggist af fyrirtæki sem ekki ráða við að greiða jafnhá laun og verða greidd í álverinu. Við getum svo sem sagt, það er bættur skaðinn. Það er alveg óþarfi að vera hér með alla ryðkláfa á floti og ef við erum með fyrirtæki sem ekki geta greitt sæmileg laun, er þá bara ekki allt í lagi þó að þau deyi? Jú, jú, til þess er þetta auðvitað að hluta. Við erum alltaf að reyna að endurnýja atvinnulíf okkar þannig að við tökum inn nýja tækni og nýja möguleika og fyrirtæki sem geta greitt hærra kaup, en við þurfum að gera okkur grein fyrir þessu. Þetta þarf að vera eitt af því sem við þurfum að vera með á hreinu að verður hluti af ruðningsáhrifunum.

Herra forseti. Hluti af ruðningsáhrifunum verður sem sé hærra kaup. Fyrirtækin sem ekki ráða við launagreiðslurnar munu einfaldlega víkja. Og við munum ekki geta valið það. Það er eins og jafnan í nánast frjálsu markaðshagkerfi að markaðurinn ræður og fyrirtækin eru auðvitað missterk. Sum eru þegar, eins og ég sagði áðan, komin að fótum fram vegna gengisþróunar. Fyrirtæki af miðlungsstærð sem hafa fjármagnað sig með innlendu lánsfjármagni og þar með á þeim vöxtum sem hér er boðið upp á og lenda svo núna í genginu eiga ekki marga kosti. Við heyrum að fyrirtæki eru að grípa til þeirra ráða að lækka launin. Það þarf kannski að gera víðar. En a.m.k. er alveg ljóst að mótvægisaðgerðir þarf að skoða af fullri alvöru. Þess vegna fór það, eins og ég segi, í taugarnar á mér í umræðunni hér í liðinni viku af hve mikilli léttúð hæstv. forsrh. leyfði sér að afgreiða þetta mál. Það hefur verið hluti af stuðningi mínum við málið að menn tækju á þessu af þeirri alvöru sem málið á skilið og þarfnast og ég vona, herra forseti, að stjórnvöld takist á við þennan vanda en reyni ekki að fela hann eða gera lítið úr honum vegna þess að hann mun ekki hverfa, hann mun knýja dyra aftur og aftur. Þannig er þetta bara. Þetta er auðvitað verkefni, þetta er stór framkvæmd og eins og ég sagði áðan, við getum haft af henni ávinning og við getum haft af henni skaða. Verkefnið er auðvitað að reyna að gera þetta vel, gera þetta þannig að ávinningur verði sem mestur og skaði sem minnstur.

Hv. þm. Guðjón Guðmundsson talaði með miklu hikleysi og las upp úr skýrslu Nýsis um samfélagsleg áhrif. Þar er auðvitað ýmsu slegið fram og það er ágætt að menn setjist niður og reyni að átta sig á því hvernig aðstaðan verður og það er mjög gott fyrir okkur að hafa þessar skýrslur í höndunum. Þær eru mikilvægar vegna þess að þar kemur ýmislegt fram sem við þurfum að velta fyrir okkur og átta okkur á. Þar kemur m.a. fram að þessar framkvæmdir muni hafa mikil samfélagsleg áhrif, ekki bara efnahagsleg þó að þau hafi fyrst og fremst verið rædd, ekki bara umhverfisleg þó að þau hafi langmest verið rædd. Þær hafa líka mikil samfélagsleg áhrif. Þær hafa áhrif á gerðir og aðstæður fólksins, ekki bara á Austfjörðum heldur væntanlega um allt land að einhverju leyti en mest þar.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er gott að hafa skýrslur en ekki frekar en okkur nægir lýsing á umhverfinu eins og það er núna og þeim skakkaföllum sem það kann að verða fyrir og þeim mótvægisaðgerðum sem hugsanlega er hægt að grípa til, heldur viljum við láta fylgjast með, það þarf líka, herra forseti, að fylgjast með því hvernig hin samfélagslegu áhrif grípa inn í mannlíf, atvinnulíf og byggðaþróun. Þess vegna höfum við nokkrir þingmenn --- það er í rauninni þverpólitísk tillaga --- lagt til að sett verði ákveðin vakt á mannlífið, á byggðaþróunina, á atvinnulífið og einnig á samfélagsáhrifin þar sem menn reyna að átta sig á því hvaða áhrif stórframkvæmd af þessu tagi getur haft vegna þess, herra forseti, alveg eins og hér kom fram fyrr í umræðunni er þessi aðgerð öll mjög vel undirbúin, þá gefur það okkur líka tækifæri til þess að læra af slíkri framkvæmd. Og við þurfum ekki bara að læra af þessari framkvæmd hvað varðar lífríkið, við þurfum ekki bara að læra af framkvæmdinni hvað varðar mótvægisaðgerðir og efnahagsmál, við verðum, herra forseti, að læra af þessari framkvæmd hvað varðar byggðaaðgerðir.

Ég sagði áðan að mér fyndist menn tala býsna hiklaust um það hvernig hlutir yrðu ef af þessum framkvæmdum verður. Hins vegar er ekkert í hendi þar frekar en annars staðar og menn verða að gera ráð fyrir að hlutir geti þróast með öðrum hætti en þeim sem þykir líklegast núna. Þess vegna er mikilvægt, herra forseti, að ákveðin vakt sé á mannlífinu og á samfélagsþróuninni einnig.

Í tillögunni er t.d. vitnað í skýrslu Nýsis þar sem því er haldið fram að fyrirhugað álver á Reyðarfirði sé stærsta tækifærið sem sé í sjónmáli til að snúa byggðaþróun á Austurlandi við og auka samkeppnishæfni svæðisins þannig að það laði til sín fjármagn og atgervisfólk. Þetta er auðvitað, herra forseti, það sem stuðningsmenn þessa verkefnis vilja sjá. Þetta er sú mynd sem menn vilja gjarnan sjá verða að veruleika. Hins vegar hafa verið gerðar athugasemdir við þetta eins og þær að ruðningsáhrifin gætu orðið það skörp að starfrækslan gæti leitt til fækkunar starfa á Austurlandi eins og þeirrar að framkvæmdin gæti jafnvel valdið byggðaröskun innan Austfjarða þannig að mönnum þætti verulega taka í og þá þannig að fólk flytti frá jaðarsvæðum og inn á miðsvæðið. Nú er það kannski jákvætt út af fyrir sig. Þar gæti þá dafnað og þróast fjölbreytilegt byggðarlag sem byði upp á ýmsa þá kosti sem fólk vill eiga í daga en eigi að síður er þetta hlutur sem menn verða þá að horfa á og leggja kalt mat á hvort þeir vilji láta gerast eða hvort þeir vilji andæfa með einhverjum hætti.

Að minnsta kosti er ljóst að það er mat allra þeirra skýrsluhöfunda sem hafa fjallað um hin samfélagslegu áhrif að tiltekin svið samfélagsins séu viðkvæmari fyrir áhrifum en önnur og verði því fyrir meiri áhrifum.

Einnig má segja, herra forseti, að þó að menn hafi verið að búa til skýrslur, þá hafa byggðarannsóknir ekki verið mjög miklar á Ísland og þær eiga ekki langa sögu. Við eigum þess vegna ekki mjög margar rannsóknir að byggja á þegar við búum til skýrslur og erum að reyna að svara spurningum dagsins um það hvernig ástand kunni að verða eftir svo og svo langan tíma. Það er m.a. bent á að gögn um skiptingu vinnuafls við þessar framkvæmdir á milli landsvæða og atvinnugreina séu fátækleg, menn viti lítið um þetta. Lítið er vitað um búsetu starfsfólksins og það er lítið vitað úr hvaða starfsgreinum það kemur þegar þar að kemur. Stuðst hefur verið við gömul og að mörgu leyti ófullkomin gögn þegar menn hafa verið að reyna að sjá þetta fyrir sér. Menn vita heldur ekki með neinni vissu um hlutfall heimamanna í þessu verkefni og þess vegna gerir það erfiðara fyrir að meta staðbundin áhrif.

Ég hef farið yfir ruðningsáhrifin. Menn vita ekki hver þau verða en þau munu augljóslega ráðast svolítið af því hvað stjórnvöld eru tilbúin til þess að gera nú þegar eða hvað þau geta gert nú þegar, eða hvaða áhrifum þau geta beitt á hverjum tíma til að takast á við þau. Það sama á auðvitað við um ýmiss konar þensluáhrif sem hljóta að verða ýmist staðbundin eða tímabundin og menn verða að gera ráð fyrir en við vitum kannski ekki alveg á þessari stundu hvernig muni slá út. Síðan hafa margfeldisáhrif framkvæmda af þessu tagi ekki verið skoðuð sérstaklega við íslenskar aðstæður. Þess vegna, herra forseti, er auðvitað mjög mikilvægt að menn nýti þetta tækifæri, ef af þessu verður, og fylgist með því sem gerist í raunveruleikanum, læri að því, dragi af því lærdóma sem hægt er þá að nýta ef menn vilja halda áfram á þeirri braut að beita stórframkvæmdum af einhverju tagi til að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu.

Nú erum við auðvitað handviss um það að stórframkvæmdir hafa áhrif á byggðaþróun þegar um það er að ræða að menn setji á fót stór atvinnufyrirtæki sem munu veita mörgum atvinnu o.s.frv. en það skiptir sannarlega máli inn í hvers slags umhverfi slík fyrirtæki eru sett og hvað menn eru þá mikið á vaktinni gagnvart því hvernig hægt er að gera slíka hluti þannig að sem mestur ávinningur verði.

Herra forseti. Ég hef aðeins vikið að tillögu okkar sem eins og ég sagði áðan er um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers og virkjunarframkvæmda á Austurlandi en gæti eins og þar segir allt eins heitið tillaga um vöktun á aðstæðum fólks við þær aðstæður eða við þessar framkvæmdir.

[16:30]

Herra forseti. Ég mun þá koma aftur að erlendri fjárfestingu. Með því að Alcoa kemur inn með þá fjármuni sem hér eru til framkvæmda er auðvitað verið að auka mjög erlenda fjárfestingu í íslensku hagkerfi. Eins og ég sagði áðan hefur það verið mat hagfræðinga, og við það hef ég stuðst í þeirri umfjöllun sem ég hef tekið þátt í á hinu háa Alþingi um mikilvægi erlendrar fjárfestingar, að við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda inn í hagkerfi okkar. Hún hefur verið mjög lítil hlutfallslega og mörg okkar hafa spurt hvernig á því standi.

Erlend fjárfesting hefur fyrst og fremst verið í áliðnaði. Hún hefur fyrst og fremst verið í tengslum við nýtingu náttúruauðlindar sem er ein sú mikilvægasta sem við eigum. Ég er nokkuð viss um að þetta mun breytast á næstu árum. Mér sýnist að ef það gengur eftir sem nú liggur fyrir, að við förum að breyta raforkuumhverfinu á Íslandi, gæti þetta jafnvel breyst líka, þ.e. að svo mikil eftirsókn verði eftir óbeinni þátttöku í nýtingu íslenskra náttúruauðlinda. Við höfum verið rög við að leyfa erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi, sérstaklega í útgerð, þ.e. hinni beinu nýtingu þeirrar náttúruauðlindar. Við vitum satt að segja ekki hvort það væri yfir höfuð nokkur eftirspurn eftir því þó að það yrði leyft.

Við stöndum uppi með þá niðurstöðu að menn eru hræddir við að fjárfesta í fyrirtækjum í svo litlu hagkerfi með svo litla mynteiningu. Menn eru hræddir við að geta ekki selt bréfin sín aftur. Menn eru hræddir við að fjárfesta í einhverju sem þeir geta síðan ekki losað sig við. Akkillesarhæll okkar er þarna. Menn hafa reynt að ná hingað inn erlendu fjármagni til ýmissa hluta en gengið erfiðlega nema þegar álið eða stóriðjan eru annars vegar. Kannski er það líka að hluta, herra forseti, vegna þess að þegar um slíkan stóriðnað er að ræða hafa menn fengið örlítið rýmri og betri starfsaðstæður en lög gera að jafnaði ráð fyrir varðandi annan íslenskan atvinnurekstur. Ég vil því endurtaka það sem ég sagði í upphafi. Mér finnst full ástæða til að við skoðum það mjög gagnrýnið af hverju stjórnvöld eru tilbúin að ganga til samninga við þetta fyrirtæki um lægri stimpilgjöld en ganga ekki eins hratt til breytinga á stimpilgjöldum gagnvart íslenskum atvinnurekstri. Það er mál sem við í Samfylkingunni höfum ítrekað flutt tillögur um, að ganga í þau mál.

Við hljótum að spyrja þessara gagnrýnu spurninga. Þær eiga heima í þessari umræðu og þær verða að vera hluti af þessari umræðu. Eins og hér kemur fram í frv. stendur til að þetta fyrirtæki verði hluti af hinni íslensku fyrirtækjaflóru þó að það sé í eigu útlendinga.

Herra forseti. Ég vék að nýju raforkulagafrv. sem verður rætt á fimmtudaginn. Það sem þar er fjallað um getur skipt miklu máli fyrir þróun virkjana og jafnvel í framhaldinu byggingu stóriðjuvera á næstu árum eða áratugum. Stundum hefur maður á tilfinningunni að við séum á síðustu metrunum í gömlu hagkerfi sem byggir fyrst og fremst á nýtingu náttúruauðlinda.

En í lokin, í tengslum við umræðuna um arðsemina, vil ég minna á að það eru ekkert óskaplega mörg ár síðan við breyttum lögunum um Landsvirkjun í þá veru að Landsvirkjun var heimilt að ákvarða sér arðsemi af eigin fé. Þetta frv. fór ekki átakalaust í gegnum þingið. En það er ánægjulegt að sjá það núna að arðsemin sem Landsvirkjun ætlar sér af eigin fé vegna raforkusölu til þessa fyrirtækis er hærri en sú sem Alþingi ætlaði fyrirtækinu á sínum tíma. Menn eru því að gera betur í þessum samningum við Alcoa en Alþingi ætlaðist til að gert væri alla jafna varðandi sölu á raforku og þá arðsemi sem eigendur gætu ætlað sér varðandi sölu á raforku. Það er ástæða til að nefna þetta, herra forseti, vegna þess að umræðan um arðsemina kemur alltaf reglulega upp. Auðvitað eiga menn að hafa áhyggjur af arðseminni og auðvitað eiga menn að vera ákveðnir í að gera vel og ná góðri arðsemi. Við erum, eins og ég hef margsagt við þessa umræðu, að nýta sameiginlega aðlind og þar verða menn auðvitað að gera eins vel og mögulegt er. En það var ástæða til að koma þessu að í umræðunni.

Ég sit í iðnn. og mun þess vegna fá þetta frv. til nánari skoðunar. Þar munum við að sjálfsögðu fara yfir þau álitaefni sem þegar hafa komið fram í umræðunni. Sömuleiðis munu aðrar fagnefndir þingsins skoða, vænti ég, aðra þætti. Þegar kemur að 2. umr. verður vonandi búið að svara þeim spurningum og takast á um þau álitaefni sem varpað er fram við þessa umræðu þannig að hún geti orðið enn markvissari.