Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 16:37:09 (3101)

2003-01-28 16:37:09# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[16:37]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum í dag um eina málið sem er á dagskrá, frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Þó að titill frv. sé á þennan veg er í raun allt undir, bæði álverksmiðja í Reyðarfirði, Kárahnjúkavirkjun og allar þær framkvæmdir sem tengjast þessum tveimur stóru verkefnum sem áætlað er að fara í. Það er nú einu sinni svo að það væri ekki ráðist í þessa miklu virkjun nema með tilkomu álverksmiðju og hvorugt væri á dagskrá ef ríkisstjórnin væri ekki búin að binda sig í blinda stóriðjustefnu. Ríkisstjórnin sér í raun ekkert til framdráttar hér á landi annað en að halda sig við hana þannig að hér er allt undir.

Herra forseti. Ætíð hafa verið uppi stórhuga menn og verða það vonandi áfram. Þetta er spurning um hvernig við beislum hug okkar og orku. Einn af okkar stórhuga mönnum var Einar Benediktsson stórskáld sem sannarlega hafði hugmyndaflugið og áræðnina í lagi. Hann var ásamt nokkrum öðrum með stórhuga hugmyndir um að virkja Gullfoss og sannfærði menn um að það væri til mikilla hagsbóta fyrir land og þjóð og að af því mikla framtaki yrði sannarlega mikill fjárhagslegur ávinningur. Það voru kannski ekki margir sem þá börðust gegn þessum stórhuga framkvæmdum. Nokkrir sáu þó hvílíkt glapræði þetta væri. Þar best hæst nafn Sigríðar frá Brattholti sem beitti öllum sínum ráðum og kröftum til að hindra þessar framkvæmdir. Ég tel að við Íslendingar eigum henni allir þakkir að gjalda í dag og kunnum að meta það að á þeim tíma hafi ekki verið ráðist í að virkja Gullfoss. Gullfoss hefur sannarlega mikið aðdráttarafl og er þjóðhagslega mikils virði. Hann er mikils virði fyrir alla ferðaþjónustu í landinu fyrir utan það yndi sem við höfum öll af því að horfa á hann. Hann dregur til okkar fjölda ferðamanna. Lítill væri hinn svokallaði gullni hringur, ferðirnar héðan frá höfuðborgarsvæðinu, að Gullfossi og Geysi, nema Gullfoss væri þarna til staðar.

Hugmyndir okkar breytast. Við sjáum og kunnum að meta umhverfið með mismunandi hætti á mismunandi tímum. Á þeim tíma er menn töldu að óhætt væri að virkja þennan foss þá var ein af röksemdunum sú að svo fáir hefðu séð hann og svo fáir færu inn á það svæði að það væri óhætt að virkja hann. Í dag heyrum við þessa sömu röksemdafærslu, að svo fáir hafi farið inn á Kárahnjúkasvæðið og það sé ekki fyrr en núna, þegar kominn er þokkalegur vegur þangað, að menn geti farið að skoða þetta svæði. Við sjáum þá hvílík fjarstæða er að beita slíkum barnalegum rökum. Vissulega getum við átt náttúruperlur sem við þekkjum ekki og hugsanlega kunnum ekki að meta í dag. Það eru ekki bara hinar stórkostlegu sjáanlegu náttúruperlur okkar heldur líka örverur á stöðum sem við þekkjum ekki í dag. Þetta sýnir okkur að verndun náttúruperlna landsins getur gefið góðar tekjur ef við berum gæfu til að nýta þær til yndisauka og markaðssetningar fyrir vistvænt land og ferðaþjónustu.

Herra forseti. Það hefur aldrei farið á milli mála að við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, erum andvígir álveri á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun af mörgum ástæðum. Það eru miklu fleiri en við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem eru andvígir álverinu á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun. Það er engin ein ástæða annarri göfugri. Það er alveg nóg að hafa eina ástæðu til að vera andvígur þessum miklu framkvæmdum --- eða margar. Það er ekki hægt að gera upp á milli ástæðnanna. Það er ekki réttur málflutningur að mínu mati að segja: Fyrst voru vinstri grænir andvígir þessum framkvæmdum öllum af umhverfisástæðum og síðan farið þið að bera fyrir ykkur efnahagsleg áhrif. Þið eruð alltaf að finna ykkur til ný rök í málinu bara til þess að vera á móti.

Málið er að báðar þessar framkvæmdir, hvort heldur það er álverið eða virkjunin, eru af þeirri stærðargráðu og umhverfisáhrif og efnahagslegu áhrif slík að það gefur ástæðu til að vera á móti þessum framkvæmdum. Þó að málin hafi komið fyrir þingið í þeirri röð, að við tókumst fyrst á um umhverfisáhrifin og síðan efnahagslegu áhrifin, þá er ekki hægt að taka einn þátt og segja að hann sé gildur og annar ekki. Allir þættir eru gildir ef maður metur það svo að þjóðinni sé ekki til framdráttar að fara í þessar miklu framkvæmdir.

Varðandi umhverfisþáttinn þá erum við margbúin að fara yfir, það er þjóðinni kunnugt, að samkvæmt þeim lagaramma sem við settum okkur um hvernig ætti að meta umhverfisáhrif stórra framkvæmda þá komust skipulagsstjóri og Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu þegar umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar voru metin að þessi framkvæmd fengi algera falleinkunn, slík óafturkræf áhrif væru af framkvæmdunum að það væri ekki ásættanlegt að fara í þessa miklu virkjun, í raun væru ekki til nægilegar náttúrufræðilegar mótvægisaðgerðir til þess að vega þar á móti. En þar sem framkvæmdin er pólitísk ákvörðun þá duga ekki slík rök. Ef það á að fara í þessa virkjun þá verður farið í þessa virkjun, sama hver niðurstaða skipulagsstjóra og Skipulagsstofnunar hefur verið. Þá skiptir engu hvaða ábendingar kunna að koma fram og þó að enn sé ekki hægt að benda á mótvægisaðgerðir til að hefta fok af leirburði yfir viðkvæm gróðursvæði, þó að ekki hafi verið sýnt fram á slíkt með sannfærandi hætti þá skal samt fara í þessar framkvæmdir. Það er eins og mönnum sé sama. Þar kemur kannski Íslendingurinn upp í okkur. Það hlýtur að vera til einhver tækni. Þetta hlýtur að reddast einhvern veginn og við björgum þessu bara þegar að því kemur.

[16:45]

Hvað varðar umhverfisáhrifin af virkjuninni erum við að tala um stórfelldar breytingar á náttúru svæðisins. Við erum að beisla og færa úr farvegi sínum eitt stærsta og auðugasta fljót landsins sem er Jökulsá á Brú. Við erum að færa hana milli farvega og flytja yfir í Lagarfljót á Héraði. Bara þetta, að láta sér detta í hug að fara í slíka vatnaflutninga nú á dögum, að flytja jökulá úr farvegi sínum, er nokkuð sem maður hefði horft til og sagt um: Þetta gerðu Rússarnir á sínum tíma undir stalínskum áhrifum og framkvæmdum þegar þá munaði ekkert um að færa fljótin hér á milli. Þeir hafa samt lært af reynslunni og svona gerir maður ekki lengur. En þetta er einmitt það sem við ætlum að gera. Við ætlum að flytja Jökulsá á Dal yfir í Lagarfljót, taka hana úr farvegi sínum, og þetta inngrip er að mínu mati alveg nægileg ástæða til þess, eitt og sér, að hafna framkvæmdinni. Svona gerir maður ekki.

Við ætlum að fórna fossaröð í Jökulsá í Fljótsdal og auk þess munu Kelduá og Sauðá hverfa. Þetta eru um 60 fossar, einstakir að gerð, og við munum fórna ómetanlegum víðernum og jarðsögumenjum. Það verður ekki aftur snúið ef af stíflu verður við Kárahnjúkana. Það sem við sjáum svo ekki fyrir og hefur ekki verið svarað hvað varðar mótvægisaðgerðir er varðandi gróðureyðinguna. Þetta er einstakt svæði hvað gróðurfar snertir. Þarna er vel gróið land, sérstaklega með tilliti til þess í hvaða hæð það er, en það er alveg ljóst að hinn fíni jökulleir mun eyða gróðurlendi á stóru svæði. Erfitt er að segja til um það hvar það hættir eða hvernig eigi að bregðast við. Það má líka setja við það stórt spurningarmerki hvort eðlilegt sé að styrkja þann gróður sem er á hálendinu í dag með áburði eða hvort náttúran eigi að fá að halda sínu.

Auk þess er ástæða til að minna enn og aftur á að það á að taka af friðlýstu svæði Kringilsárrana. Ef það er hægt að gera það á þessum stað, að fara inn á friðlýst svæði --- við höfum það enn þá hangandi yfir okkur að hugsanlega verði farið inn á friðlýst svæði Þjórsárvera --- upplifi ég það rétt eins og margir aðrir að í raun sé ekkert friðhelgt í þessu landi, maður getur í raun og veru engu treyst. Ég tel að mótvægisaðgerðirnar varðandi jökulleirinn séu þannig fram settar að erfitt sé að hafa fulla trú á því að þær muni virka og með öllum þeim afleiðingum sem það mun hafa, bæði á lífríkið og gróðurfarið. Eins mun það valda foki á Héraði.

Ég ætla ekki að lýsa Kárahnjúkastíflunni. Menn eiga að þekkja það í dag hversu stór og mikil hún er og hvernig hún verður byggð. En það sem hugsanlega hefur ekki verið eins mikið í umræðunni er að ekki eru allir jafnsáttir við staðsetningu virkjunarinnar og stíflugarðsins. Það er þáttur sem ekki var tekinn inn í mat á umhverfisáhrifum og kemur hvergi fram hér, ástand jarðvegsins og grunnberglaga. Með leyfi herra forseta, vil ég aðeins fá að vitna í viðtal við Guðmund Sigvaldason jarðfræðing sem hefur margsinnis reynt að vekja á því athygli að fyrirhugað sé að reisa Kárahnjúkavirkjun ,,á krosssprunginni jarðskorpu í nánd við jökul sem er óðum að þynnast og á landi sem er að lyftast vegna þynningar jökulsins``. Hann leggur á það þunga áherslu að þessi þáttur hafi ekki verið nægilega kannaður og í raun getum við með okkar tækni í dag lítið sagt til um það, það er erfitt að vera með einhverjar forspár um það hvernig jarðskorpan muni bregðast við, bæði þynningu jökulhettunnar og eins þessum mannvirkjum og þeim þyngslum sem þarna koma niður á svæðið. Ég ætla aðeins að lesa hér upp. Hann segir, með leyfi forseta, að:

,,... svona gljúfur eins og þau sem eru á virkjunarstaðnum myndist ekki nema þar sem sprunga er í jarðskorpunni og að sprungan og þetta mikla gljúfur hafi myndast á örstuttum tíma eða á 2.600 árum.`` --- Það er örstuttur tími í jarðsögunni.

Síðan segir hann:

,,Svo þegar jarðfræðiskýrslan liggur fyrir með borunum, bæði beint niður og skáboranir undir virkjunarstæðið, kemur í ljós að undir sprungustæðinu er þéttriðið net sprungna. Það eru um það bil 16 sprungur undir sjálfu virkjunarstæðinu og svo fer sprunguþéttleikinn svolítið minnkandi til hliðanna. Eins er það að ef á að trúa þessu jarðfræðisniði verður ekki annað lesið út úr því en að vestari bakkinn á gljúfrinu hafi sigið um 20 metra miðað við austari bakkann.``

Það sem ég vildi draga hérna fram, herra forseti, er að það er erfitt að sjá fyrir hvernig þetta svæði muni þróast jarðfræðlega. Síðan bætir hann hér við í svari:

,,Við vitum raunverulega ekkert um það hvað gerist í þessu landi. Við þekkjum jarðfræðina að mjög takmörkuðu leyti og höfum engin tök á því að segja til um framtíðina. Þegar Kröfluvirkjun var byggð sáum við það með um það bil árs fyrirvara ef eitthvað var á seyði. Alþingismenn veðjuðu samt á það og héldu áfram að bora í gjósandi eldfjall. Ekki gátum við séð fyrir um Vestmannaeyjar, hvað þar mundi ske, né heldur er maður hugsar til baka og horfir til Skaftárelda, hvað þá heldur að við hefðum getað vitað með löngum fyrirvara. Ég hef ekki trú á að það hefði verið mjög langur fyrirvari. Það sama var með Öskjugosið 1875 og þá gliðnunaráverka sem þá urðu í skorpunni.``

Þarna fer hann aftur í söguna. Það sem mér finnst athyglivert er að það voru komnar ábendingar um að á Kröflusvæðinu væru einhverjar jarðhræringar en samt tókum við hér ákvörðun um að fara í framkvæmdir á þessu svæði. Síðan gaus rétt á eftir. Við vorum heppin í það skiptið. En þetta segir okkur að við skulum fara að öllu með gát.

Varðandi efnahagslegu forsendurnar hefur Landsvirkjun gefið sér ákveðnar forsendur og reiknað út frá þeim. Aðrir hafa gefið sér aðrar forsendur og reiknað út frá þeim. Þetta eru framkvæmdir, bæði álverið og sérstaklega Kárahnjúkavirkjunin, sem eru svo viðkvæmar fyrir öllum ytri breytingum að það skiptir auðvitað máli hvaða forsendur maður gefur sér. 1% til eða frá í þeim atriðum sem mestu máli skipta geta skipt sköpum um það hvort út úr dæminu kemur hagnaður eða stórtap. Við megum ekki skella skollaeyrum við því og segja: ,,Landsvirkjun er með rétta útreikninga.`` Þá hafa fulltrúar eigendanna farið yfir og staðfest að þeir séu réttir og því trúi ég að útreikningarnir sem slíkir séu réttir. Það er aftur á móti spurning um forsendurnar. Sérfræðingahópnum svokallaða var eingöngu falið að fara yfir útreikningana og sjá hvort þeir væru réttir miðað við gefnar forsendur Landsvirkjunar. Þeim var hins vegar ekki falið að skoða hvort þær forsendur væru réttar eða ekki, heldur hvort útreikningarnir miðað við þær forsendur væru réttir.

En það er líka hægt að vera varkárari og taka forsendur sem eru ekki þær sömu, þótt ekki væri nema heimsmarkaðsverð á áli, að setja það ekki eins hátt og er í forsendum Landsvirkjunar eða gefa sér það að grunnurinn sem á að ganga út frá sé ekki sá sem Landsvirkjun gengur út frá, að við förum af stað í þeirri spennu sem núna er að byggjast upp. Þar með eru forsendurnar hrundar.

Hér hefur verið reiknað út af fleiri en einum arðsemi sem er ekki arður heldur tap og ég tel enga ástæðu til þess að gera neitt minna úr þeim útreikningum en útreikningum Landsvirkjunar. Þetta er spurning um forsendur. Inni í þessu stóra dæmi eru svo margir óljósir þættir, þótt ekki væri annað en þessi framtíðarspá um heimsmarkaðsverð á áli. Hún er ekki trygg og það viðurkenna allir. Hvað mun gerast þegar Kínverjar verða búnir með sína miklu þriggja fljóta stíflu og komnir í gang með álframleiðsluna sem þeir ætla í gang með? Hvernig verður þá heimsmarkaðsverð á áli? Hvað er langt í þetta? Hvernig kemur þetta inn hjá okkur? Hvernig verður svo þróunin á öðrum sviðum? Verður ál jafnmikilvægur þáttur í iðnaðarframleiðslu eftir tíu ár eins og það er í dag? Það er hröð þróun í gangi. Það þarf ekki að velta upp mörgum spurningum til að sjá að forsendur allra þessara útreikninga eru mjög valtar. Því tel ég að við eigum að hlusta vel á allar gagnrýnisraddir.

Herra forseti. Mér fannst miður hvað hæstv. forsrh. tók létt á spurningum hv. þm. Ögmundar Jónassonar í utandagskrárumræðu fyrir viku þar sem kallað var eftir svörum um hverjar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar yrðu varðandi þessa miklu framkvæmd ef af yrði. Hæstv. forsrh. vísaði því inn í framtíðina og mátti heyra á öllu að það yrði ekki mikið vandamál ef hann sæti þá áfram við völd og yrði áfram forsrh. Hann mundi redda þessu öllu saman. En málið er, herra forseti, að undirbúningur þessara framkvæmda er kominn það vel á veg að þegar hefur byggst upp ákveðin spenna í hagkerfinu og það er nauðsynlegt að fara þegar að vakta þessi áhrif og vera þá tilbúinn fyrr en seinna að grípa inn í með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur til umráða.

[17:00]

Þá kemur að öðrum þætti þessa máls. Nú ætla ég aðeins í nokkrum orðum að víkja að frv. sjálfu sem er ekki í sjálfu sér langt eða ítarlegt. Það er 11 greinar. En það er undirbyggt af mörgum fylgiskjölum, og er það af hinu góða, til að skýra betur forsendur frv. Það verða því næg verkefni hjá hv. iðnn. að fara yfir málið. Ég vænti þess og vil trúa því að það verði gert af fullri ábyrgð nefndarinnar að fara yfir hvern einasta þátt vandlega því þó að þessi pólitíska ákvörðun hafi þegar verið tekin og það megi skilja á hæstv. utanrrh. að allt sé frágengið á samt eftir að afgreiða frv. Því vil ég beina því til nefndarinnar að fara sérstaklega vel yfir allar undanþágur frá lögum sem eru í 4. gr. og eins skattlagningu í 6. gr., því að þar sem álfyrirtækið er alfarið erlent fyrirtæki verður virðisaukinn hjá fyrirtækinu en það sem kemur í ríkissjóð eru skattar og greiðslur af framleiðslunni. Ég tel mjög áríðandi að þessi samningur verði borinn saman við aðra viðhlítandi samninga sem gerðir hafa verið og eins að dregið verði fram hvort eðlilegt sé að halda til streitu stefnu núverandi ríkisstjórnar um að leggja ekki á hina svokölluðu grænu skatta, þ.e. leggja ekki á mengunarskatt á þetta fyrirtæki og önnur álver hér á landi heldur hafa þetta nýja álver þá sem upphaf að breyttri stefnu hvað varðar skattlagningu á mengun og leggja þá jafnframt sem eðlilegt er á þau fyrirtæki sem þegar eru starfandi hér. Er eðlilegt að stimpilgjöld séu lægri? Er eðlilegt að félagið fái sérstakan frádrátt af vaxtakostnaði eins og getið er um? Er eðlilegt að félagið sé undanþegið gatnagerðargjaldi? Svo mætti lengi telja.

Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.``

Eins og ég nefndi áðan tel ég að nú sé tækifæri til að taka upp þessa grænu skatta og láta þá gilda um öll álfyrirtækin og samsvarandi fyrirtæki. Er eðlilegt að fyrirtæki skuli vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald með áorðnum breytingum? Og hvernig eiga þessir samningar þá að líta út sem koma í staðinn?

Hvað varðar stóriðjustefnuna sem slíka og hvers vegna við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum á móti þessari stefnu þá erum við ekkert á móti álveri við Reyðarfjörð af því að það er í Reyðarfirði. Við erum á móti því að þessi stefna sé höfð að leiðarljósi af mörgum ástæðum, m.a. þeirri að uppbygging álvera af þeirri stærðargráðu sem hér er talað um kallar á raforku sem byggir á stöðugri framleiðslu í miklu magni. Það eitt og sér kallar á uppistöðulón sem óneitanlega eru og verða alltaf mikil inngrip í náttúruna. Við erum búin að byggja upp mikil uppistöðulón á Þjórsársvæðinu sem hafa getað nýst niður Þjórsá. En óumdeilanlega eru þetta inngrip í náttúruna. Fyrirhugað er að fara í Norðlingaölduveitu og raska Þjórárverum. Það er eitt dæmið um uppistöðulón sem ég trúi að þjóðin sé mjög andstæð.

Við erum á móti stóriðjustefnunni og þessari álnauðhyggju af þeirri ástæðu líka að það er hættulegt að byggja upp svo einhæft atvinnulíf, einhæfan útflutning, að hafa öll eggin í sömu körfunni, eins og við getum sagt því þá erum við að síauka útflutningshlutall okkar af vöru sem er mjög sveiflukennd í verði og hlýtur því alltaf að hafa meiri og meiri áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar. Það er verið að bera þetta saman við sjávarútveginn og útflutning hvað varðar umfang. En útflutningur á sjávarvörum er miklu jafnari enda hefur dregið stöðugt úr vægi hans miðað við þá miklu uppbyggingu sem á enn að auka við. Við teljum að það sé óskynsamlegt að binda langt yfir 80% af nýtanlegri raforku í einni framleiðslugrein, í álframleiðslu. Það er álitið að um 50 teravattstundir séu virkjanlegar í landinu. En ef við tökum tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og þess að einhver sátt náist um verndun fallvatna er verið að tala um 25 terawattstundir í nýtanlegri orku. Við söxum óneitanlega hratt á þá orku sem við teljum að sátt geti náðst um að nýta. Við megum ekki gleyma að það er langt frá því sátt um Kárahnjúkavirkjun sem mun að afli framleiða nær það sama og er til allrar framleiðslu í landinu í dag.

Þar fyrir utan teljum við að stóriðjustefna sé úrelt byggðastefna, bara gamaldags byggðastefna til þess að byggja upp til framtíðar. Þetta álit höfum við frá bæði Írlandi og Skotlandi en þar hafa menn farið m.a. allt aðrar leiðir. Fulltrúar frá Skotlandi nefndu það á ráðstefnu norður á Akureyri fyrir fáum árum að við værum svona 15--20 árum á eftir tímanum, að stóriðjustefnan væri úrelt, að miklu betra til framtíðar litið væri að styrkja byggð með öðrum ráðum en að koma niður verksmiðjum, stórum iðnaðarfyrirtækjum eða álverksmiðjum. Það eru einmitt þær leiðir sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs viljum fara. Við viljum byggja á fjölbreytni. Við viljum styrkja byggðina með þeim ráðum sem eru nú að koma fram hjá m.a. hagfræðideild Háskóla Íslands, þ.e. að styrkja byggðina með öðrum ráðum en stóriðju.

Stóriðja og virkjunarframkvæmdir af þeirri stærð sem við erum að tala um hér hljóta alltaf að hafa mikil áhrif bæði á hagkerfið og náttúruna og eins á fjölþætt atvinnulíf í landinu því að ruðningsáhrifin koma alltaf fram, sama hvort það er í gegnum hagkerfið eða í gegnum ruðningsáhrif á fyrirtæki. Eins er líklegra að fjölbreyttara atvinnulíf styrki byggðina til lengri tíma betur en þessi aðferð.

Auðvitað tengjast líka jákvæðir þættir þessum miklu framkvæmdum, jákvæðir þættir sem snúa að Austurlandi og atvinnulífinu hér á landi, meðan á byggingartímanum stendur, meðan á framkvæmdatímanum stendur. Við eigum eftir að sjá í framtíðinni hvaða áhrif þetta hefur svo á búsetuþróun, hvort við náum aftur til okkar unga fólkinu á aldrinum 25--35 ára, þ.e. ef stóriðjan festir sig í sessi hvort hún muni þá hafa afgerandi áhrif á það að fólk flytji til baka. Aðrir þættir hafa áhrif á þennan aldurshóp, þ.e. menntun fyrst og fremst, fjölbreytt atvinnulíf og aðrir slíkir þættir, þjónustustig sveitarfélaganna o.s.frv. sem kallar á unga fólkið til baka.

Herra forseti. Það er ekki atvinnuleysi á Austurlandi í dag. Við getum hugsanlega talað um dulið atvinnuleysi. En það vantar starfsmenn og jákvæðir hlutir hafa verið að gerast, m.a. þeir að á undanförnum árum hefur stöðug uppbygging verið á Héraði, hæg og sígandi. Unga fólkið hefur líka verið að koma til baka og það hefur fengið störf við hæfi. Það unga fólk sem ég þekki og hefur flust heim aftur og byggt sér íbúðarhúsnæði eða keypt sér, fest sem sé rætur aftur, er ungt fólk sem er komið heim til baka á allt öðrum forsendum en þeim að hugsanlega sé að koma stóriðja eða álver á svæðið. Ég tel að ef við hefðum staðið myndarlega að uppbyggingu menntakerfisins, að vegaframkvæmdum og öðrum þáttum sem hefði styrkt svæðið, ekki bara þetta svæði heldur önnur svæði í hinum dreifðu byggðum, þá væri allt önnur staða uppi í dag, ekki bara á Austurlandi heldur víða annars staðar. Vissulega hafa þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar haft jákvæð áhrif á svæðinu núna. Fólk er bjartsýnna með afkomu sína og annað. Og því skyldi það ekki vera? Það væri einkennilegt ef svo væri ekki. Það hefur beðið eftir því að eitthvað gerðist á svæðinu, einhverjar vísbendingar kæmu um uppbyggingu á svæðinu. Það hefur ekki endilega verið að kalla eftir þessum aðgerðum. En þar sem þessar stóriðjuframkvæmdir eru það eina sem í boði er væri óeðlilegt ef fólk legðist alfarið gegn þeim. Við skulum ekki gleyma því að það eru líka mjög sterkar raddir á Austurlandi eins og alls staðar um land sem mótmæla því inngripi í náttúruna sem þarna á að verða og mótmæla því að ekki sé hægt að byggja upp öflugt atvinnulíf og styrkja búsetu í landinu öðruvísi en með stóriðju.