Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:44:22 (3103)

2003-01-28 17:44:22# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að það er alltaf talsvert af bölsýnismönnum á ferð í þjóðfélaginu, og úrtölumenn eru til staðar. Mestu bölsýnismenn nútímans í stjórnmálaumræðu á Íslandi eru að mínu mati einmitt skoðanabræður og -systur hv. þm. Halldórs Blöndals sem vantreysta svo algerlega möguleikum Íslendinga til almennrar atvinnuuppbyggingar að því er haldið fram að ekkert nema álver erlendra auðhringa og tilheyrandi stórvirkjanir geti skapað hér störf, tryggt hagvöxt og bætt lífskjör. Með þetta ritúal fór hv. þm. Halldór Blöndal hér áðan. Í þessu felst auðvitað fullkomið vantraust á hið almenna atvinnulíf sem, hvað sem öllum stóriðjuframkvæmdum líður, verður að leggja til hrygglengjuna að nýjum störfum og bera uppi hagvöxtinn.

Sama boðskap hefur t.d. hæstv. utanrrh. flutt og ég vísa til ræðu hans á ársfundi Útflutningsráðs fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo. Ég er hins vegar í hópi bjartsýnismannanna. Ég er í hópi bjartsýnismannanna á það að möguleikar okkar Íslendinga til almennrar atvinnuuppbyggingar, ef fjölbreytni er höfð að leiðarljósi, ef hlúð er að nýsköpun og stutt við tilurð nýrra fyrirtækja og vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, séu bærilegar framtíðarhorfur fyrir okkur. Og ef við lítum til vaxtar í ferðaþjónustu, lyfjaiðnaði, heilsu- og hollustuvöruiðnaði, rafeindaiðnaði, veiðarfærum og öðrum vörum tengdum sjávarútvegi o.s.frv. er engin ástæða til annars en bjartsýni á að þarna liggi ærnir möguleikar fyrir okkur til að vinna úr. Svo fremi sem við stöndum rétt að málum, tryggjum hér hagstæð skilyrði og eflum menntun og rannsóknir þarf engu að kvíða.