Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:48:18 (3105)

2003-01-28 17:48:18# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kann væntanlega einnig söguna af því að þegar Búrfellsvirkjun var reist og álverið í Straumsvík var upphafsverðið á raforkunni svo lágt að það var við það að setja Landsvirkjun á hausinn. Það var ekki fyrr en náðst höfðu fram samningar um verulega hækkun á því orkuverði að það fór vonandi nokkurn veginn standa undir sér þó lengi hafi legið það orð á að almennir raforkunotendur hafi greitt niður rafmagnið í stóriðjuna.

Ég hef aldrei útilokað, það gerum við ekki, að nýting orkunnar og iðnaðaruppbygging geti verið hluti af framtíðaratvinnuuppbyggingu í þessu landi. En þar skilja leiðir milli mín og hv. þm. þegar hann heldur því fram í ræðustólnum að ekkert nema stóriðja geti tryggt hér hagvöxt og bætt lífskjör. Það gerði hv. þm. og fór yfir stjórnmálasöguna í tímabilum. Hann tefldi því t.d. fram að vandræðin á árabilinu 1980--1995 hefðu verið þau að hér hafi ekki verið stóriðjuuppbygging í gangi. Með þessu er auðvitað verið að segja að það þurfi stóriðju til. Annars sé hér allt á vonarvöl.