Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:54:36 (3109)

2003-01-28 17:54:36# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er einmitt það sem ég hef gert. Ég hef einmitt þakkað fyrir það. Það stendur meira að segja í greinargerð með þessari þáltill. sem hv. þm. var að nefna, að það beri að þakka að þarna skuli farið í framkvæmdir fyrir austan til að styrkja byggðirnar. En menn þurfa að gá að öðrum svæðum á landinu í leiðinni og það liggur í augum uppi að byggðamál snúast um jafnvægi í byggðum landsins. Fari menn á fullt á einhverjum stað á landinu mun það auðvitað hafa þau áhrif að önnur svæði þar sem erfitt er lenda undir í samkeppninni. Ef menn gá ekki að slíkum hlutum getur illa farið.

Sannleikurinn er bara sá að menn hafa ekki hugað að öðrum landsvæðum á undanförnum missirum meðan þessar stóru ákvarðanir hafa verið teknar.

Hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu til að benda á þetta og tel ekki að ég eða við séum með neinum hætti að etja saman landsbyggðarmönnum þó við bendum á að taka þurfi ákvarðanir um framkvæmdir á öðrum svæðum landsins.