Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:58:36 (3112)

2003-01-28 17:58:36# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:58]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hlýtur að hafa komið inn í miðjum klíðum því að ég rakti nákvæmlega ummæli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég vakti líka athygli á því hvernig Samfylkingin hefði komið að málinu í borgarstjórn Reykjavíkur, sem skiptir máli til þess að sagan komist öll til skila. Ég hygg að Samfylkingin hljóti að vera mér þakklát fyrir að halda því til haga hvernig hún stendur að málum og hvaða afstöðu hún hefur almennt til mála.

Hitt finnst mér líka mikið umhugsunarefni hver afstaða Samfylkingarinnar er t.d. til fiskveiðimála, fyrst hv. þm. ræðir um það. Ég hef t.d. gaman af að vita hvaða hljómgrunn stefna Samfylkingarinnar í fiskveiðimálum hefur í Vestmannaeyjum þaðan sem hv. þm. kemur. Það væri líka fróðlegt að ræða, t.d. í Fjarðabyggð, á Akureyri eða á öðrum slíkum stöðum, Neskaupstað, af því að ég sé að hér inni er einn ágætur þingmaður frá Neskaupstað, hvaða undirtektir það fengi á þessum stöðum að brjóta fiskveiðikerfið niður og þar með þann grundvöll sem er fyrir arðsamri útgerð hér á landi og þeirri uppbyggingu víðs vegar við landið sem við sjáum og höfum orðið vitni að og lýsir sér m.a. í þeirri miklu áherslu sem fiskvinnslufyrirtækin leggja á fiskeldi, þorskeldi, laxeldi og fleira.