Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:41:36 (3120)

2003-01-28 18:41:36# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:41]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram, þó að andsvar sé, að ég hygg að ég hafi verið sammála hv. þingmanni í flestu eða hér um bil öllu sem hann sagði hér áðan nema þegar hann vék að því að ég vildi vera andstæðingur Samfylkingarinnar í þessu máli. Það er ekki svo heldur hafa komið fram, m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur, sjónarmið sem stangast á við okkar. Ég skildi hv. þingmann svo að hann teldi að virkjunin við Kárahnjúka og álverið byggðust á viðskiptalegum sjónarmiðum. Er það ekki rétt? Ég skildi hv. þingmann svo en það er gagnstætt því sem sagt var í borgarstjórninni og kallað ríkissósíalismi. (Gripið fram í.) Einnig var iðnrh. beðin um að taka þann kaleik frá Reykjavíkurborg að bera ábyrgð á þeirri framkvæmd og þeim lánum sem væru tekin vegna Kárahnjúka. Það er því algjör misskilningur hjá hv. þingmanni að ég vilji vera andstæðingur Samfylkingarinnar í málinu heldur hef ég í grundvallaratriðum haldið fram skoðunum sem eru sambærilegar við þær sem hv. þm. hefur sjálfur lýst héðan úr ræðustóli.

Segja mætti mér raunar að ef við færum að tala um sjávarútvegsmál kæmi í ljós að hann væri frekar sammála mér en Samfylkingunni. (Gripið fram í: En í landbúnaðinum?) Af þeim sökum verð ég að segja að hæpið er kannski að kalla það andsvar þegar ég kem upp og svara hv. þingmanni. Miklu frekar væri, herra forseti, rétt að segja að í grófum dráttum séum við sammála í þessum málum báðum, Kárahnjúkamáli og álverinu og einnig um nauðsyn kvótakerfis í fiskveiðum.