Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:43:39 (3121)

2003-01-28 18:43:39# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta var sérlega ánægjulegt andsvar eða meðsvar eða hvað sem við köllum það. Ég verð samt að hryggja hv. þingmann með því að ég er ekki viss um að við séum algjörlega sammála í öllum þeim málum sem hann nefndi. Hins vegar er það alveg rétt hjá honum að við erum býsna samstiga í Kárahnjúkamálinu og höfum verið það trúlega megnið af tímanum þó að ég viti ekki alveg hvenær hv. þm. fór að hafa áhuga á stóriðju á Austurlandi. En ég lýsti því í ræðu minni að það hefur verið áhugi minn um marga áratuga skeið.

Ég sagði í ræðu minni áðan að ég ætlaði mér ekki að fara að eltast við viðhorf einstakra flokksbundinna sjálfstæðismanna en ef hv. þm. vill standa í því að tína upp einstaka félaga í Samfylkingunni og fjalla um þeirra skoðanir er það út af fyrir sig mál hv. þingmanns.

Eins og ég sagði áðan er ég heldur ekki með við höndina greinarstúfa eftir flokksbundinn sjálfstæðismann sem hann skrifar reyndar ekki sem slíkur heldur sem hagfræðingur og hefur verið einn helsti prímus mótor í efnahagslegri umræðu andstæðinga virkjunarinnar. Mér finnst alveg óþarfi að ég þurfi endilega að ræða það sérstaklega við hv. þm. Halldór Blöndal, ég tel bara eðlilegt að í stjórnmálaflokkunum séu skiptar skoðanir í þessu máli og sé ekkert athugavet við það. Ég get alveg glatt hv. þingmann með því að mér fundust ummæli sumra flokksbræðra minna í borgarstjórn Reykjavíkur ekki vera viðeigandi í málinu. Það er hins vegar allt annar handleggur.

Það er þó rétt hjá hv. þingmanni að kvótakerfið, aflamarkskerfið, er við lýði í sjávarútvegi og það er ekki það sem menn eru yfirleitt að deila um, ég held að flestir séu á því að kerfið þurfi að vera sem slíkt. Hins vegar eru það útfærslur á kerfinu sem menn deila töluvert um. Þó að við hv. þm. eigum e.t.v. einhverja samleið í hluta af útfærslunum er ég því miður þeirrar skoðunar, herra forseti, að við séum ekki sammála í öllum útfærslum málsins. (Gripið fram í: En allar skoðanir eru réttar.) (Gripið fram í: Allar? Nei.)