Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:48:14 (3123)

2003-01-28 18:48:14# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:48]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. En hv. þm. rifjar hér upp ýmislegt úr eigin stjórnmálasögu varðandi m.a. framboðsfundi á Akureyri 1991 og tilkynnir okkur það hér að hann hafi einn frambjóðenda haft kjark til þess að tilkynna að hann mundi greiða atkvæði með stóriðju þó hún væri ekki á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég hygg, herra forseti, að það hafi síðan reynt á einhverja af þessum frambjóðendum og þeir hafi þá af einhverjum ástæðum skipt um skoðun, þó hv. þm. Halldór Blöndal hafi haldið sinni skoðun á málinu allan tímann, þ.e. hafi einhverjir af þessum frambjóðendum sem gáfu til kynna á fundinum að þeir mundu ekki greiða atkvæði öðruvísi en að stóriðjan yrði við Eyjafjörð, þeir hefðu nú greitt málinu atkvæði þrátt fyrir það að stóriðjan yrði reist annars staðar.

Rétt að lokum, herra forseti, ég tek undir það með hv. þm. að auðvitað er afar mikilvægt og ég vil aðeins bæta um betur við það sem hv. þm. sagði þegar hann talaði um að landsbyggðarmenn ættu að berjast fyrir því að stóriðjan yrði reist sem næst virkjuninni. Ég held að það sé og eigi að vera almennt baráttumál okkar allra að þannig eigi að standa að málum af þeirri einföldu ástæðu að það er hagkvæmara. Og einnig það að virkjanirnar eru víða um land mögulegar og við eigum vissulega að horfa til þess hvernig við getum leyst þessi mál á sem hagkvæmastan hátt. Það á auðvitað að vera meginlínan í málinu.

Ég hygg því og mér hefur fundist það í þessari umræðu að hljómgrunnur fyrir slíkt sé miklum mun meiri en var hér á árum áður, að stóriðja sé reist sem næst virkjun. Það þótti t.d. ekki sjálfgefið á níunda áratugnum að þannig væri að málum staðið. Í kringum 1990 man ég eftir að nokkur átök urðu um slíkt þegar menn voru með umræðu hér um stóriðju á Keilisnesi. Sú stóriðja var ekki reist og mér finnst þessi mál hafa verið að þróast í rétta átt og geri ráð fyrir að við munum eiga samstöðu í því að reyna að tryggja veg stóriðju sem næst virkjunum í framtíðinni.