Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 21:13:17 (3129)

2003-01-28 21:13:17# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[21:13]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim sem greiddu atkvæði með því að Kárahnjúkavirkjun yrði reist. Síðan það mál var afgreitt hafa orðið verulegar breytingar á fyrirætlunum um stóriðju á Austurlandi. Það er komið nýtt fyrirtæki inn í þetta dæmi og hugmyndin er að byggja minna álver og virkja minna afl en gert var ráð fyrir þegar upphaflega var rætt um Kárahnjúkavirkjun. Ég sakna þess að ekki skuli hafa verið gert ljóst, a.m.k. hef ég ekki séð nákvæma útfærslu á því, hvernig menn ætli að standa að Kárahnjúkavirkjun eftir þessar breytingar. Tækifæri myndast auðvitað til þess að endurskoða skipulagið á þeirri virkjun og koma til móts við kannski eitthvað af þeim kröfum um mótvægisaðgerðir sem uppi eru. Það þarf miklu minna afl en gert var ráð fyrir í fyrri hugmyndum. Ég veit t.d. ekki til þess að menn hafi velt því fyrir sér hvort stíflan gæti orðið eitthvað lægri vegna þessa. Það er verulega mikill munur á framleiðslugetunni og orkuþörfinni. Þetta held ég að hljóti að verða skoðað vegna þess að mér skilst að hugmyndirnar um mótvægisaðgerðir vegna foks séu eitthvað umdeildari núna heldur en þegar þær voru settar fram. Menn hljóta þá að fara yfir það og skoða hvort hægt sé að gera hlutina eitthvað öðruvísi en reiknað var með í upphafi.

[21:15]

En ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur fundist að menn gengju lengra í því að lýsa skaðlegum áhrifum frá þessari virkjun en ég fæ séð. Og það að kalla þessa virkjun og þær hugmyndir sem þarna eru á ferðinni ,,mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar`` er að mínu viti alrangt. Ég hef gert mér far um að reyna að átta mig á því með því að bera saman þær virkjanir sem hafa verið gerðar hér og það er þá helst að bera saman hvernig menn hafa staðið að virkjunum á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu og hvaða fyrirætlanir eru um fleiri virkjanir þar og þessa stóru virkjun þarna fyrir austan. Ég get bara sagt að mér finnst reginmunur á hversu miklu betur verður staðið að virkjuninni fyrir austan og hvað miklu minna sést til hennar þegar hún verður orðin staðreynd heldur en þeirra virkjana sem ég er að vitna til hér.

Ég ætla ekki að fara að lesa upp hér aftur það sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði til, grein sem orkumálastjóri, Þorkell Helgason, skrifaði í Morgunblaðið þann 26. janúar, en þar fer hann einmitt yfir þessa hluti og bendir með gildum rökum á að það séu í raun og veru miklu minni umhverfisspjöll af þessari virkjun en öðru sambærilegu afli sem yrði virkjað. Síðan hefur þróunin auðvitað gengið í lið með okkur að því leyti til að nú eru ekki lengur vatnsvegir ofan jarðar heldur eru jarðgöng til að flytja vatnið. Ég get svo sem endurtekið það að mestu efasemdirnar sem ég hef haft um þessa virkjun hafa snúið að því að flytja vatnið á milli stórfljótanna eins og gert er þarna. Það var samt ekki mikið í umræðunni þegar verið var að fjalla um þessi mál, það er ekki fyrr en núna á síðustu vikum og mánuðum sem menn hafa verið að taka til það atriði. Ég vona bara að af því verði ekki stórkostlegar breytingar á náttúrufari.

En það er ýmislegt í sambandi við þetta álver sem mér finnst kannski að mörgu leyti erfiðara að henda reiður á heldur en sjálf virkjunin. Þar hefur maður fyrst og fremst horft til náttúruspjallanna sem verða vegna virkjunarinnar, óhjákvæmilega. En þegar kemur að álverinu hlýtur maður að velta fyrir sér hversu hagstætt þetta dæmi er og hvernig íslensk stjórnvöld hafa staðið að samningum um orkuverð og annað slíkt. Þá er þingmaður úr stjórnarandstöðu, sem ekki hefur aðgang að hinni innstu vitneskju, ekkert í sérstaklega góðri aðstöðu til þess að standa með eða taka þátt í að samþykkja mál af þessu tagi. Það hefur ekki þótt koma til mála að gera fullkomlega grein fyrir þessum atriðum, hvernig hagnaðurinn er reiknaður út og hversu mikill hann er, hvert verðið á rafmagninu er o.s.frv. Maður setur auðvitað ýmis spurningarmerki við ýmislegt af því sem hér kemur fram. Eða kemur öllu heldur ekki fram.

Ég verð að viðurkenna að ég hrökk illa við þegar ég sá stutt viðtal við einn af forráðamönnum þessa álfyrirtækis í sjónvarpinu. Það stóð upp úr honum að þetta væri besti staðurinn á jarðkúlunni til þess að setja niður álver. Þá velti ég fyrir mér: Voru Íslendingar virkilega að bjóða sig langt niður fyrir alla aðra í þessu efni? Það er umhugsunarefni hvort menn hafi staðið sig. Það er ástæða til þess að velta þessu fyrir sér vegna þess að mönnum hefur verið svo mikið í mun að gera samninga um álver og virkjun sem allra fyrst. Auðvitað er það ljóst að ýmsir stjórnmálamenn sem hafa lagt mikið undir í þessu máli hafa viljað leggja óskaplega mikið á sig til þess að ná í gegn samningum um álver og virkjun á Íslandi.

Hitt er svo annað að ég á afar erfitt með að trúa því að þeir embættismenn og stjórnmálamenn sem leggja til að í þetta verði farið láti ekki þjóðarhag ganga fyrir þegar þeir taka ákvarðanir eins og þessa. Ég sé ekki að út af fyrir sig sé hægt að fá nánari eða betri vitneskju heldur en þá sem núna liggur fyrir og verður þá lögð fram í iðnn. þingsins þegar þetta mál kemur inn og þar munu menn þá fara yfir málið í heild sinni að lokum. Ég geri ráð fyrir því að taka mikið mark á því sem þingmenn Samfylkingarinnar í iðnn. munu segja eftir þá yfirferð á málinu.

Það eru vissulega atriði sem ég velti dálítið fyrir mér í sambandi við þessa samninga og ákvæðin í samningunum sem hér er verið að leita eftir leyfi til að gera. Þetta fyrirtæki verður ekki sjálfstæður skattaðili. Þetta fyrirtæki, Alcoa, er gífurlega stórt. Það selur örugglega stundum ýmsum fyrirtækjum sem það á sjálft í afurðir sínar. Það eru að vísu ákvæði í þessum drögum hér sem gera ráð fyrir því að þá verði farið með mál eins og um óskylda aðila sé að ræða, en það gæti orðið býsna drjúgt verkefni að fylgjast með því ef þetta fyrirtæki gerði mikið af samningum við sín eigin fyrirtæki. Alcoa er svo stórt fyrirtæki í áliðnaðinum að tilþrif þess á þessum markaði geta líka ráðið einhverju um álverð í heiminum, geri ég ráð fyrir.

Það er gert ráð fyrir því að þetta fyrirtæki geti afskrifað tap í heil níu ár eins og önnur fyrirtæki í landinu. Við höfum eitt álver inni í Hvalfirði og það hefur ekki þurft að greiða skatt enn þá. Ég veit ekki í sjálfu sér hvenær kemur að því.

Mig langar að vitna í skjalið. Hér stendur á bls. 18, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í 3. mgr. er tekið fram að aðilar fjárfestingarsamningsins geti samið um tilteknar reglur og viðmiðanir er lúta að viðskiptum félagsins og eigendanna við Alcoa Inc. og fyrirtæki í eignatengslum við hið bandaríska fyrirtæki. Ætlast er til að slík viðskipti fari fram eins og um ótengda aðila væri að ræða. Tilteknar viðmiðanir eru þekktar í þessu efni, svo sem 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og viðmiðunarreglur OECD á þessu sviði (,,Transfer Pricing Guidelines for Multinational Enterprises and Tax Administrations``). Slíkar viðmiðunarreglur eru mjög ítarlegar í samningi ríkisins og Alcan á Íslandi hf. (ISAL) en ekki þykir ástæða til að hafa þær jafnviðamiklar nú.``

Mér leikur svolítil forvitni á að vita hvers vegna ekki þarf að ganga jafntryggilega frá þessum þáttum gagnvart þessu fyrirtæki eins og gagnvart hinu fyrrnefnda.

Mig langar líka til að benda á 9. gr. frv., reyndar í allt öðru samhengi. Ég get ekki að því gert að fara aðeins yfir hana, með leyfi hæstv. forseta, því að í henni stendur:

,,Samkvæmt tollalögum er heimilt að fella niður tolla og vörugjöld af hráefnum og efnivörum til iðnaðarframleiðslu, svo og af vélum og tækjum til framleiðslunnar. Engin gjöld eru nú á hráefnum og efnivörum. Eins er um fjárfestingarvörur sem fluttar eru inn frá EES-ríkjum og öðrum löndum sem fríverslunarsamningar eru við. Í fyrri málslið greinarinnar er við það miðað að felldir verði niður tollar og vörugjöld af innflutningi og kaupum félagsins á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir verksmiðju félagsins og tengd mannvirki, sem kunna að verða flutt inn frá öðrum löndum og bera tolla eða vörugjöld. Í síðari málslið greinarinnar er veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álverksmiðjunnar.``

Ég las þetta upp, hæstv. forseti, vegna þess að ég sé ástæðu til þess að menn velti því nú fyrir sér í þessu samhengi hvort þessi gæði sem stóriðjufyrirtækin fá að njóta þegar þau eru að byggja upp fyrirtæki hér í landinu ættu ekki alveg eins að koma til greina handa einhverjum öðrum fyrirtækjum sem menn væru að byggja upp á Íslandi. Það gæti skipt verulegu máli við uppbyggingu fyrirtækja ef þau fengju slíkar undanþágur frá tollum og vörugjöldum eins og hér er um að ræða. Það gæti vel orðið til iðnaður á Íslandi sem annars gæti ekki orðið til ef þannig væri að málum staðið.

Hæstv. forseti. Það mætti velta fleiru fyrir sér í þessu sambandi öllu. Mig langar til að bera niður á bls. 21. Ég gleymdi því áðan þegar ég nefndi mótvægisaðgerðir að eitt af því sem til fellur við framleiðslu á áli er gífurlega mikið ,,hrat`` eða hvað á að kalla það, og það er svo mikið að gert er ráð fyrir að innflutningurinn verði um 815 þús. tonn en útflutningurinn 373 þús. tonn. 442 þús. tonn verða sem sagt eftir í landinu með einhverjum hætti á hverju einasta ári. Það er hvergi minnst á það hvað verður um þennan afgang sem svona kemur til. Það er að vísu talað um útblástur og eitthvað um kerbrot og skaut og annað slíkt en hvergi í þessari skýrslu er gerð grein fyrir því hvar og hvernig gengið verður frá þessari uppfyllingu sem ég tel að hljóti að þurfa að verða til til þess að losna við þessi 400 þús. tonn eða hvað það nú verður í heildina sem verður eftir í landinu. Ég hefði áhuga fyrir því að það yrði upplýst hér nákvæmlega hvernig menn ætla sér að fara með þennan innflutning.

Ég ætla þá að koma aftur að þessu með rafmagnsverðið og vitna, með leyfi forseta, hér í athugasemdirnar um rafmagnsverðið. Þar stendur á einum stað:

,,Samkvæmt ákvörðun Landsvirkjunar og samkomulagi um trúnað milli samningsaðila ber að fara með ákvæði samningsins um rafmagnsverð sem viðskiptaleyndarmál, enda er það ákveðið sjálfstætt eins og í öðrum samningum fyrirtækisins um orku til stóriðju. Er því ekki unnt að greina hér frá ákvæðum þessum í einstökum atriðum. Þó er rétt að taka fram, að hið umsamda orkuverð verður tiltekið sem einingarverð á hverja kílówattstund, sem afhent er eða fellur til greiðslu samkvæmt kaupskyldu, og ákvarðað mánaðarlega samkvæmt tengingu við alþjóðlegt markaðsverð á áli eftir umsaminni aðferð. Það verður og ákvarðað og greitt í bandaríkjadollurum. Um afslátt fyrstu árin er ekki samið.``

Þessi setning er mér óskiljanleg og ég óska eftir því að fá skýringu á merkingu hennar. ,,Um afslátt fyrstu árin er ekki samið.``

[21:30]

Er verið að gefa til kynna að verðið sem lagt er hér til grundvallar sé ekki endilega til frambúðar heldur gæti orðið um einhvern afslátt að ræða að nokkrum árum liðnum? Ég átta mig hreinlega alls ekki á því hvað þarna er átt við.

Svo heldur þessi texti áfram, hæstv. forseti, og hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Auk þess sem samningstímanum er skipt í tvö verðlagningartímabil verður í samningnum ákvæði þess efnis, að hvorum aðila um sig sé heimilt að óska eftir endurskoðun á hinu gildandi orkuverði, ef grundvallarbreytingar verði innan áliðnaðarins eða á sviði orkuafhendingar til álframleiðslu, er hafi það í för með sér, að jafnvægi í samningnum raskist í grundvallaratriðum, þannig að telja megi orkuverðið bersýnilega ósanngjarnt gagnvart öðrum eða báðum aðilum. Ágreining um þetta efni megi leggja í gerð, ef aðilar nái ekki samkomulagi. Þessu sanngirnisákvæði verður þó ekki beitt oftar en einu sinni á hvoru verðlagningartímabili.``

Ég velti þessu fyrir mér og hjá mér kvikna spurningar. Þannig er að í lögum um Landsvirkjun er ákvæði sem fjallar um að Landsvirkjun megi ekki gera neina samninga um raforkuafhendingu sem geti orðið til að hækka orkuverð til almennings á Íslandi. Ég hefði áhuga á að fá við því svör hvort ákvæðið í samningnum við Alcoa geti ekki hugsanlega stangast á við þetta ákvæði í lögunum um Landsvirkjun. Ef breytingar á þessum markaði verða til þess að menn geti rökstutt að Alcoa eigi að fá lægra raforkuverð þá gæti það orðið það lágt að Landsvirkjun standi ekki undir því og tap verði á þessu dæmi. Hvað þá? Gilda þá ekki lögin um Landsvirkjun um að það megi ekki ýta taprekstri vegna sölu á raforku til stóriðju yfir á almenning í landinu?

Þetta eru vangaveltur mínar um þessa hluti. Ég vona satt að segja að við 2. umr. komi menn í þennan sal sannfærðir um að hér hafi verið vel að verki staðið og hægt verði standa að og styðja þetta mál í heild með því að styðja byggingu álversins, alveg eins og við studdum, samfylkingarmenn flestir, að farið yrði í að byggja Kárahnjúkavirkjun.

Vegna umræðna hér í dag sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vakti upp, um það hvernig þetta mál var afgreitt í borgarstjórn, langar mig að segja fáein orð. Ég verð að segja að mér fannst það mjög miður að í borgarstjórn gætu borgarfulltrúar ekki fjallað um þetta málefni öðruvísi en undir þeim þvingandi aðstæðum sem þar voru. Það er í mínum huga ekki sjálfsagt mál að bæjarfélag hér á landi taki ábyrgð á verkefni af þessu tagi. Reyndar er ég á þeirri skoðun að það ætti alls ekki að vera. Það er reyndar í andstöðu við ákvæði í sveitarstjórnarlögum að færa slíka ábyrgð á bæjar- eða borgarsjóði með þeim hætti sem hér er um að ræða.

En Akureyri og Reykjavík eiga helminginn af Landsvirkjun samkvæmt ákvörðunum Alþingis og þessara tveggja sveitarfélaga fyrir margt löngu. Það fyrirkomulag er óhafandi. Á því þarf auðvitað að taka í tengslum við raforkulagafrv. sem er til umfjöllunar hér á hv. Alþingi. Mér finnst í sjálfu sér hin eðlilegasta afstaða borgarfulltrúa og bæjarfulltrúa á Akureyri að vera á móti því að taka ábyrgð af þessu tagi á sveitarfélög sín. Satt að segja hefði ég ekki verið hissa á að einhverjir þeirra litu þannig á að þeim væri það bara hreinlega alls ekki heimilt vegna þess að slíkar ábyrgðir eru af þeirri stærðargráðu að þessi bæjar- og sveitarfélög gætu ekki borið þær. Menn hefðu þurft að fara yfir þá umræðu. Raunar hefði ekki verið óeðlilegt að þessi sveitarfélög hefðu sagt við Alþingi og þá sem ráða landstjórninni: Ef þið ætlið að fara í verkefni af þessu tagi þá verðið þið að taka ákvörðun um það og bera ábyrgðina á því á landsvísu en ekki láta okkur, fyrir hönd einstakra sveitarfélaga, sitja uppi með hana.

Þetta vildi ég hafa sagt um þetta. Það er auðvitað margt sem ástæða væri að ræða við þessa umræðu og kannski geri ég það að einhverju leyti við 2. umr. þegar ég veit meira um þetta mál en mér finnst ég vita núna, þegar við höfum farið yfir það sameiginlega í þingflokki okkar. Mér finnst hins vegar ástæða til, svona í lokin, vegna þess að mér fannst ég ekki hafa nægilegan tíma til þess, að svara hv. 1. þm. Norðurl. e. hér í dag. Hann vék að mér ýmsum orðum í ræðu sinni um þetta mál vegna þess að ég hafði forgöngu um að flytja þáltill. sem hér liggur fyrir, um mótvægisaðgerðir vegna þeirra byggðaáhrifa sem þessar framkvæmdir á norðausturhluta landsins munu hafa í för með sér. Sú þáltill. gengur ekki með neinum hætti út á að neinar af ákvörðunum eða fyrirætlunum um framkvæmdir og áætlanir eða hugmyndir um ný störf og starfsemi á norðaustursvæðinu verði teknar til baka.

Það er fráleitt að halda því fram að þessi þáltill. hafi verið sett fram til þess að auka úlfúð með mönnum, landsbyggðarþingmönnum eða fólki á landsbyggðinni. Hún er einfaldlega sett fram vegna þess, það hljóta allir að vita sem hafa velt fyrir sér byggðamálum, að byggðamál snúast um samkeppnisaðstöðu landsbyggðarinnar bæði við höfuðborgarsvæðið og milli landsvæða. Þegar spenna eykst á einhverju svæði þá versnar samkeppnisaðstaða fólks á öðrum svæðum. Það mun einfaldlega gerast í tengslum við þessar miklu fyrirætlanir að önnur landsbyggðarsvæði munu þurfa að blæða fyrir þær að einhverju leyti. Það er þess vegna full ástæða til að velta því fyrir sér í tíma hvernig eigi að bregðast við. Fyrst og fremst það felst í tillögu okkar um þessar mótvægisaðgerðir að menn bregðist við í tíma og reyni að sjá til að byggðavandinn verði ekki meiri en verið hefur í öðrum hlutum landsins vegna þeirra miklu framkvæmda sem þar er ætlað að fara í.

En menn geta auðvitað misskilið hlutina að yfirlögðu ráði ef þeir vilja. Við því er ekkert að segja. Ég er ekkert að víkja mér undan því að taka þá umræðu. Mér finnst hins vegar gott að fara yfir það hér. Ég vona að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi heyrt orð mín. Ég tel ástæðu til að vísa til föðurhúsanna öllu sem hann sagði um þetta mál, einfaldlega vegna þess að það er bara þannig. Ég orðaði það svo í þeirri utandagskrárumræðu sem hv. þm. vitnaði í, þ.e. í lokin spurði ég: Hvar voru þingmenn og ráðherrar af þessu norðvestursvæði þegar þessar ákvarðanir voru teknar? Ég ætla að skýra þau orð nánar. Ég vil taka fram að mér finnst að þeir hefðu þurft að gæta þess að tekið yrði á málum nægilega snemma og ná fram samkomulagi innan stjórnarflokkanna um að ákvarðanir um þau efni lægju fyrir núna strax á þessu hausti um leið og menn sæju fyrir endann á því að þessi stóru verkefni yrðu öll saman uppi á sama tíma á norðaustursvæðinu eins og núna liggur fyrir, þ.e. álverið, virkjunin, jarðgöngin og ofan í kaupið byggðaáætlun sem liggur fyrir og allar fyrirætlanirnar þar um að styrkja Eyjafjarðarsvæðið. Þetta liggur allt saman fyrir.

Mér finnst menn ekki hafa gætt að sínu hlutverki. Þeir hafa ekki séð til þess að reynt yrði að fylla í skarðið með því að koma framkvæmdum af stað og auka hraða þeirra fram að því að mesta spennan verður á norðaustursvæði landsins.