Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 21:46:10 (3132)

2003-01-28 21:46:10# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[21:46]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er verið að reyna að afstýra því að ráðist verði í einhverja heimskulegustu ráðagjörð í sögu þjóðarinnar. Ég er búinn að fylgjast með þessari umræðu í dag og mér finnst hún vægast sagt vera dapurleg því að hún byggir á botnlausri vantrú á íslenskri þjóð. Hún byggir á vantrú á sköpunarkrafti sem býr í íslensku efnahagslífi. Það kann nú að hljóma undarlega úr mínum hálsi en hún byggir líka á vantrú á kosti markaðshagkerfis. Hún byggir á botnlausri vantrú á þessu.

Menn ætla að reyna að reisa íslenskt efnahagslíf við og fara inn í framtíðina með því að gera þungaiðnað að grunnframleiðslu Íslendinga. Ég mun við síðari umræðu þessa máls fara yfir þessa þróun, á hvern hátt við erum smám saman að gera álframleiðslu að grundvallarþætti í íslensku framleiðslukerfi.

Hvers vegna segi ég vantrú á íslenskt hagkerfi? Frá 1970 og fram á þennan dag hafa að jafnaði orðið til í landinu um 1.700 störf á ári. Á síðasta áratug eða frá því um 1990 hafa að jafnaði orðið til 1.500 störf á ári og á komandi árum þarf að skapa hér, næsta áratug, um 15 þúsund störf.

Menn eru að tala um það núna að hugsanlega verði til í álverksmiðjunni og í afleiddum störfum sem kallað er, þeim tengdum, einhvers staðar í kringum 1.000 störf. Sumir tala um 750. Sumir tala um heldur meira, 1.200. En hvaðan eiga hin 14.000 störfin að koma?

Þau eiga að spretta upp úr hugviti almennings og það hafa þau verið að gera á undangengnum árum. Hver hefði séð fyrir stofnun fyrirtækisins Össurar sem hefur verið starfandi núna um 30 ára skeið og er orðið leiðandi fyrirtæki í heiminum á sínu sviði? Sömu sögu er að segja um Marel, Sæplast sem byrjaði smátt á Dalvík fyrir u.þ.b. 20 árum, 18--20 árum, 3X-Stál á Ísafirði, Atlanta, Bakkavör, Hampiðjuna sem er að færa út kvíarnar, Toghlera Jósafats Hinrikssonar, Kaffitár í Njarðvík og ferðaskrifstofurnar Ultima Thule, Terra Nova og Emblu. Svo eru það náttúrlega fjallagrösin sem Framsfl. er svo hrifinn af og reynir að hæða og spotta. Fjallagrös framleiða sultur og safa og kræklingavín í gamla mjólkursamlaginu á Húsavík. Síðan eru það fyrirtæki í líftækni, fyrirtæki sem framleiða gæludýrafóður. Það er sútað fiskroð á Sauðárkróki sem er notað sem hráefni í tískuhúsum heimsins. Bragðefni úr sjávarfangi er unnið á Hornafirði. Kúfiskvinnsla er í Þórshöfn. Svo er það kræklingarækt, fiskeldi og verkefnið Auður í krafti kvenna. Þar er talað um að 50 ný fyrirtæki hafi orðið til, 215 störf, á undanförnum þremur árum, aðallega kvennastörf. Ég gæti nefnt fjöldann allan af fyrirtækjum. Slökkvibílar koma frá Ólafsfirði. (Gripið fram í: Fáránlegt.) Ef einhver hefði stungið upp á því að Ólafsfirðingar framleiddu slökkvibíla og sjúkraflutningabíla, hvað hefði verið gert við slíkan mann? Það hefði verið hlegið, eins og hæstv. iðnrh. gerir. Það hefði verið hlegið að því. En þetta gerðist nú samt vegna þess að þetta spratt upp úr hugviti fólks. Það er á þessu sem atvinnustefna okkar byggir, (Gripið fram í.) atvinnustefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. (Gripið fram í.) Hún byggir á því að skapa mannlífinu og þar með atvinnulífinu hagstæð skilyrði. Hvernig gerum við það? Með því að skapa fólkinu sem þar starfar góða og trausta þjónustu.

Ég hef stundum vitnað til könnunar sem danska vinnumálaráðuneytið réðst í seint á tíunda áratugnum þar sem atvinnurekendur voru spurðir: ,,Hvað skiptir ykkur mestu máli þegar þið takið ákvörðun um að slá ykkur niður?`` Hverju skyldu þeir hafa svarað? ,,Við viljum góð barnaheimili. Við viljum góða skóla. Við viljum góð sjúkrahús. Við viljum góðar samgöngur. Fólk þarf að geta tengst internetinu. Fólk þarf að eiga aðgang að bankastofnunum. Löggæsla þarf að vera í góðu lagi.`` Þetta er það sem við viljum gera en þessi ríkisstjórn fer í akkúrat öfuga átt. Hún brýtur einmitt þessa þjónustu niður, einkavæðir og lokar pósthúsunum og bönkunum, dregur úr þessari þjónustu en tekur síðan ákvörðun um að ráðast í þungaiðnað sem grundvallarframleiðslu í hagkerfinu. Hvílíkt og annað eins. Þetta hlýtur að vera þungt fyrir þá sem hafa kennt sig við frjálshyggjuna og frjálst markaðskerfi, menn á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal og sjálfstæðismenn yfirleitt. Það er búið að snúa öllu á haus. Það erum við sem erum kennd við vinstri stefnu sem viljum hlúa að grunnþáttum samfélagsins og þar með einnig atvinnulífinu í landinu og treysta á frumkvæði fólksins. Þegar menn hafa spurt: Hvað viljið þið þá, þá er svarið þetta. En það er eitt til viðbótar. Þegar farið er um landið og forsvarsmenn fyrirtækja eru spurðir hvað helst bjáti á, hver skyldu þá svörin vera? Þau eru að dregið er úr þjónustustarfsemi, dregið úr fjölbreytni og síðast en ekki síst að aðgangur að fjármagni er takmarkaður.

Við höfum ekki talað fyrir því að gefa fjármagnið eins og ríkisstjórnin er tilbúin að gera í sumum tilvikum. Við höfum hins vegar talað fyrir því að fyrirtækjum í landinu og ekki síst á svæðum sem þurfa á uppbyggingarfjármagni að halda verði veittur greiðari aðgangur að fjármagni á hagstæðum kjörum. Þetta er almenn ráðstöfun en ekki sértæk á borð við það sem ríkisstjórnin ætlar að gera gagnvart Alcoa-fyrirtækinu. Hafa menn lesið frv. sem hér liggur á okkar borðum og er til afgreiðslu með skattaívilnunum til bandaríska álrisans?

Nú erum við ekkert feimin við það að grípa til sértækra ráðstafana undir vissum kringumstæðum. Okkar stefna er nefnilega ekki trúarbrögð. En þetta er hin almenna stefna sem við viljum sjá. (PHB: Hún hefur verið góð hingað til.) Hún hefur verið góð hingað til, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. En hans flokkur fylgir ekki þessari stefnu. Hans flokkur ræðst að grunnþjónustunni þannig að fjárglæframenn og fjáraflamenn geta gert sér hana að féþúfu. (Gripið fram í.) Heilbrigðiskerfið og skólakerfið vilja þeir einkavæða, póstinn og fjarskiptin, (JB: Vatnsveitur.) vatnsveiturnar. En síðan á ráðast í stóriðju.

Herra forseti. Það sem ég vildi leggja höfuðáherslu á í 1. umr. um málið er ein grundvallarspurning: Hafa menn leyfi til að gera þetta lagalega og siðferðilega, ríkisstjórn og Alþingi? Ég ætla að leyfa mér að efast stórlega um að svo sé. Sú spurning hlýtur nefnilega að vakna hvort stjórnvöld hafi umboð til þess að ráðstafa almenningseign til ákveðinna nota sem útilokar önnur not með þeim hætti sem hér er verið að gera.

Við höfum bitra reynslu af mistökum löggjafarvaldsins við að breyta almennum frelsisréttindum til nýtingar fiskimiða yfir í kerfi framseljanlegra veiðisérleyfa. Við þá breytingu var hvorki tryggt að nýja reglukerfið þjónaði almannahag til langs tíma né var öllum hópum sem málið varðaði sýnd sjálfsögð sanngirni. Landið okkar er nefnilega sameign þjóðarinnar. Þegar sameign og sameignarréttindum er breytt í einkaeign og sérréttindi þarf að fylgja ákveðnum sanngirnisreglum.

Nú vil ég sérstaklega vekja athygli á blaðagrein eftir Jónas Ólafsson kerfisfræðing sem birtist í Morgunblaðinu 12. júní árið 2001. Þar er þessarar spurningar spurt: Hafa stjórnvöld leyfi til að gera þetta?

Gera menn sér grein fyrir því, svo við tökum dæmi, að þegar kjördæmaskipan er breytt í landinu þarf stjórnarskrárbreytingu? Það þarf tvö þing til að samþykkja þá breytingu. Hér hins vegar leyfir ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi sér að rífa úr höndum þjóðarinnar eign hennar og fela hana sérhagsmunum. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að sá sem kemur til með að njóta hagsbótanna af þessum ákvörðunum ríkisvaldsins (Gripið fram í: Austfirðingar.) er tiltekið fyrirtæki. Nei, því miður þá verða það ekki Austfirðingar þegar til lengri tíma er litið. Þegar ég tala um vantrú á sköpunarkraft íslensku þjóðarinnar og efnahagskerfisins þá á það ekki síst við um Austfirðinga sem ég hef mikla trú á gagnstætt ríkisstjórninni því að það er ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem sýnir Austfirðingum sérstaklega fyrirlitningu og vantrú með því að þröngva þessum áformum upp á þann landshluta.

[22:00]

Núna er um það rætt að gera Landsvirkjun að hlutafélagi. Talað er um að markaðsvæða raforkukerfið og koma því á endanum í einkahendur, í hendur fjármagnsins. Finnst hv. þingmönnum þessi spurning a.m.k. ekki umhugsunarverð, hvort Alþingi og ríkisstjórn hafi í reynd rétt til að gera þetta?

Það er glens og gaman hér í hliðarherbergjunum. Þar er formaður Framsfl. með nokkrum viðhlæjendum sínum. Það er óskaplega gaman. --- En við hér á Alþingi ræðum einhverja afdrifaríkustu ákvörðun sem komið hefur fyrir þingið. Ég spyr hvort það geti verið að ríkisstjórn og Alþingi hafi rétt, siðferðilegan og lagalegan, til að taka þessa ákvörðun. Ég vísaði þar einnig í reynslu okkar af breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu, þar sem almenn frelsisréttindi eru færð í einkahendur. Þetta hefur, síðan þessar ákvarðanir voru teknar, skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Það er alveg ljóst að ekki var gætt sanngirnissjónarmiða og menn sáu ekki fyrir endann á ákvörðunum sínum. Gæti hið sama verið uppi á teningnum nú? Gæti það verið að Framsfl. sem öllum öðrum fremur hefur keyrt þetta mál áfram, sé að taka sér vald sem honum ber ekki? Honum ber skylda til þess að leita eftir þjóðarsátt og grundvallarkrafa í því efni er að leyfa þjóðinni að ganga til atkvæða, til kosninga um þetta afdrifaríka mál.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram þáltill., þingmál, um að svo verði gert jafnhliða alþingiskosningunum hinn 10. maí. Mér þætti fróðlegt að heyra álit formanns Framsfl. á þeirri tillögu. Og mér þætti fróðlegt að heyra álit hans á þeirri grundvallarspurningu, hvort við hér á Alþingi, löggjafarsamkundunni, höfum í rauninni rétt til þess að taka þá afdrifaríku ákvörðun í þeim fljótheitum sem verið er að gera, því það er verið að gera þetta í fljótheitum. Ég held ekki.

En er þetta mál þá tapað? Er það búið? Er búið að ákveða að ráðast í þessa framkvæmd? Nei, það er ekki búið að ákveða það.

Við erum að ræða frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Þar kemur fram að eftir á að gera eina fjóra samninga. Það á eftir að gera fjárfestingarsamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdaraðilanna. Og hér segir, með leyfi forseta:

,,Lagafrumvarp þetta er nauðsynleg forsenda þess að unnt verði að gera þennan samning.``

Og síðan eru það aðrir þættir þrír sem þarna þarf einnig að ganga frá áður en endanleg ákvörðun er tekin. Það er ekki búið að taka ákvörðun um þetta endanlega.

Ég gat um það hér áðan, kvaddi mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta mun það hafa verið, að mikilvægt væri að frv. gengi til þriggja nefnda. Ekki einvörðungu iðnn. eins og hæstv. iðnrh. lagði til, heldur einnig umhvn. og efh.- og viðskn. Það er augljóst að málið þarf að ganga til umhvn., það er augljóst. Reyndar eru komin upp ný efnisatriði sem gera það óhjákvæmilegt.

En ég nefni einnig efh.- og viðskn. vegna þess að frv. tekur á skattamálum. Með frv. er verið að veita Alcoa fyrirtækinu ýmsar undanþágur frá íslenskri skattalöggjöf. Fyrirtækið á jú að greiða skatta hér, tekjuskatt t.d., en það er tekið fram í frv. að ef tekjuskattar fyrirtækja verða lækkaðir, þá á fyrirtækið að njóta góðs af því. En ef þeir verða hækkaðir yfir 18% markið, þá gildir það ekki um Alcoa. Að sjálfsögðu ekki. Það gildir um Bakkavör. Það gildir um Kaffitár í Njarðvík. Það gildir um Húsavík. Það gildir um Marel. Það gildir um Össur. En það gildir ekki um Alcoa. Þeir eru undanþegnir.

Þannig er kerfisbundið farið í gegnum íslensku skattalöggjöfina og girt fyrir það að hækkanir sem kunna að verða í álögum á fyrirtæki á komandi árum gildi ekki um Alcoa, öll önnur fyrirtæki.

Hér segir t.d.: ,,Eigendurnir skulu undanþegnir eignarskatti.`` Að sjálfsögðu.

Hér er ég ekki farinn að ræða það að Alcoa-fyrirtækið þarf ekki að greiða fyrir afnot af landinu. Hvaða landi? Kárahnjúkum og öræfunum. Hvers vegna segi ég það? Er ekki Kárahnjúkavirkjun í okkar eign? Og er það ekki Landsvirkjun?

Staðreyndin er sú að virkjunin og álverksmiðjan eru eitt og hið sama, verða ekki aðskilin. Kárahnjúkavirkjunin er aflstöðin fyrir álverksmiðjuna. Hún er frábrugðin öllum öðrum virkjunum í landinu að því leyti að hún er reist til þess eins að knýja eina verksmiðju, ekki til neins annars. Og út á hvað skyldu deilurnar ganga sem við höfum orðið vitni að síðustu mánuði og missiri? Út á hvað ganga þær? Arðsemisdeiluna. Út á hvað ganga þær? Þær ganga út á tvennt: Þær ganga annars vegar út á hver hugsanleg arðsemi verði af þessari framkvæmd. Og þá segja hagfræðingar, flestir, það er nefnilega meirihlutinn sem segir: Arðsemin er ekki nægjanleg að okkar dómi. Hún er ekki nægjanleg. Þetta mun ekki auka lífsgæði í landinu. Aðrir valkostir til að ráðstafa fjármunum eru miklu vænlegri til þess að skapa þjóðinni lífvænlegri kjör. Þetta er ein umræðan.

Svo er önnur umræða. Það er umræðan um hvort hreinlega geti orðið tap, bókhaldslegt tap á þessari framkvæmd. Og það var sú ákvörðun sem Reykjavíkurborg stóð frammi fyrir hér fyrir fáeinum dögum. Þar þurftu menn að svara því hvort Reykjavík, Akureyri og ríkið yrðu fyrir tapi, gengjust þau í ábyrgð fyrir þessum lánum gæti það gerst að lánin féllu á þá aðila vegna þess að tap yrði á framkvæmdinni. Gera menn sér grein fyrir hvað við erum að tala um? Við erum að tala um að reisa risaraforkuver fyrir amerískt stórfyrirtæki og menn eru að deila um það hvort þeiri eigi fyrir skuldunum af þeim lánum sem verða tekin til að fjármagna þessa framkvæmd. Út á það gengur deilan.

Mér fannst sorglegt að hlusta á suma borgarfulltrúana þegar þeir sögðu að þetta væri á ábyrgð Alþingis. Þetta er á ábyrgð þjóðarinnar allrar. Og jafnt þingmanna sem borgarfulltrúa og bæjarfulltrúa á Akureyri. Okkar allra. Það er á ábyrgð okkar allra hvort landið okkar verði eyðilagt eins og óhjákvæmilega verður gert með þessari framkvæmd.

Aðeins áður en ég hverf frá þessari hugsun, að við erum í reynd að tala um eina framkvæmd; virkjun og álver sem ekki verða aðskilin, þá hefur mér þótt skorta nokkuð á að menn spyrðu um þennan endann á ábyrgðinni, Alcoa.

Hæstv. iðnaðar- og bankamálaráðherra sagði í framsöguræðu sinni í dag að þetta væri geysilega stórt fyrirtæki. Mörg hundruð þúsund manns í vinnu. Gríðarleg velta. Svona fyrirtæki getur ekki farið á hausinn. Skyldi þetta einhvern tímann hafa verið sagt um Pan American? (SJS: Sambandið?) Eða Sambandið, segir hv. þm.? Við skulum nú tala bara í stærri einingum. (SJS: Enron?) Enron? Tölum bara um Pan American. Pan American fór á hausinn, flaggskip bandaríska flugflotans. Það fór á hausinn. Gæti það gerst með Alcoa? Já, það gæti gerst. Það gæti hæglega gerst.

Í því sambandi er vert að rifja upp hvað gerðist á sínum tíma varðandi Járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Við ættum að hafa í huga hvað þar gerðist. Þar var líka samið eins og hér er ráðgert í tengslum við afurðarverðið. Það var tengt verði á járnblendi eins og við erum að tengja raforkuverðið þróun álverðs. Staðreyndin var hins vegar sú að þetta fyrirtæki, járnblendið, fór tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum á hausinn, varð gjaldþrota, og við fengum aðeins 50--70% af áætluðu raforkuverði. Eru menn búnir að gleyma því að hlutaféð var fært niður í árslok 2001 um 75%?

Mér finnst því hafa skort nokkuð á það að menn horfi á þennan enda áhættunnar. Við erum að reisa orkuver sem á að þjóna einu fyrirtæki og það er ekki ódauðlegt. Það er ekkert fyrirtæki ódauðlegt. Við erum hins vegar að fórna náttúru okkar fyrir þetta eina fyrirtæki og taka mikla áhættu með því. Mér finnst menn ekki hafa gefið þessu nægilegan gaum.

Nú má spyrja hvort þetta sé ekki allt saman löngu ákveðið. Það er alveg rétt að hinn pólitíski ásetningur liggur fyrir. Hann liggur fyrir hjá báðum fylkingum, þ.e. bæði þeim sem vilja virkja og hinum sem eru andvígir virkjun. Hann liggur fyrir. Við viljum ekki virkja. Við viljum ekki eyðileggja þetta landsvæði. Við viljum ekki gera það. Sá ásetningur liggur því fyrir hjá báðum.

Reyndar er það svo að allir, líka hæstv. ráðherra og ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn, viðurkenna að virkjun við Kárahnjúka mun valda óafturkræfum náttúruspöllum. Þetta viðurkenna allir. En virkjunarsinnar segja hins vegar að efnahagslegur ávinningur þessara framkvæmda sé svo ótvíræður að við hljótum að færa þessa fórn. Það er röksemdafærslan. Þess vegna staðnæmast menn við þennan meinta efnahagslega ávinning. Þess vegna staðnæmumst við við hann.

[22:15]

Til þess að geta rætt hann af einhverju viti þurfa staðreyndir málsins að liggja fyrir og líka ásetningur manna um að fara í þessa umræðu á faglegum og heiðarlegum forsendum. Það á við um alla. Það á við um virkjunarsinna og það á við um okkur sem erum andvíg þessari virkjun. Til þess að svo megi verða þurfum við að hafa aðgang að upplýsingum. Og þar hefur ríkisstjórnin því miður brugðist, hún hefur brugðist í því máli. Hún hefur þannig neitað að láta okkur fá aðgang að upplýsingum um raforkuverð.

Við vitum það hins vegar flest, við höfum fengið að heyra það svona í bakherbergjum eða öllu heldur í sögusögnum nánast, hvert verðið er. Við höfum fengið að heyra það þannig.

Í orði og á borði hefur þessi ásetningur komið fram. Hvers vegna segi ég ,,í orði og á borði``? Í orði vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa ítrekað lýst því yfir að af þessum framkvæmdum verði, hvað sem tautar og raular. Og á borði, í verki, þá þurfum við ekki annað en að horfa austur á land. Við heyrum nánast skröltið í vinnuvélunum, það er byrjað að bora í gegnum fjöllin.

Eru menn búnir að gleyma því að á sínum tíma var því lofað á Alþingi að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir sem tengjast orkuverinu eða þessum álframkvæmdum nema að áður hefðu allir samningar verið frágengnir, allir hnútar hnýttir? Það er ekki búið að því. Það á enn eftir að semja um málin endanlega. Það er ekki búið að semja við Ítalina, Impregilo, það er kapítuli út af fyrir sig.

Ég ráðlegg mönnum að fletta upp á internetinu, slá inn Impregilo og scandals, hneyksli, þá fyllist skjárinn. Menn geta náttúrlega gengið lengra og slegið inn Impregilo Berlusconi og þá fyllist skjárinn algerlega. Hann er að vísu allur á ítölsku, ég skil ekki ítölsku, en það er mjög mikið af upphrópunarmerkjum.

Þetta fyrirtæki er þekkt fyrir hneykslismál. Bresk þingnefnd sem fylgist með þeim fyrirtækjum á erlendri grundu sem njóta fyrirgreiðslu breskra fjármálafyrirtækja hefur sagt um þetta fyrirtæki og um framkvæmd sem það er sérstaklega viðriðið í Suður-Ameríku að þar hafi það tengst stærsta hneykslismáli í sögu kapítalismans. Í sömu skýrslu er vísað til hneykslismála sem tengjast Lesótó í Suður-Afríku. Þar hefur fyrirtækið verið ásakað um mútur.

Ég er að vísa til Lesótó, ég er að tala um Impregilo, fyrirtækið sem Landsvirkjun er að semja við. (Gripið fram í.) Ég er að vekja athygli á því hver saga þessa fyrirtækis er og á hvern hátt það er tengt hneykslismálum. Það reyndi að hvítþvo sig í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum og sagði að það væri rangt að verið væri að lögsækja þá í Lesótó. Staðreyndin er hins vegar sú að málið er í athugun hjá Alþjóðabankanum, og í skýrslu bresku þingnefndarinnar segir að það sem hafi verið sérlega ámælisvert og á mörkum hins löglega var að þetta fyrirtæki fór í gegnum alþjóðlega viðskiptabannið gegn apartheid-stjórninni í Suður-Afríku, setti upp platfyrirtæki í London til þess að þvo peninga, Laundry Money hét það á ensku. Þetta er fyrirtækið sem Landsvirkjun er að semja við núna.

Hafa menn engan áhuga á því kannski? Skiptir það engu máli? Eru þeirra peningar eins góðir og annarra? Og Alcoa sem verið er að flagga fyrir víðs vegar um landið --- sem mér finnst mjög dapurlegt --- hefur beitt verkamenn sína í Mexíkó og víðar miklu harðræði. Þetta eru þeir aðilar sem við erum að flytja inn til landsins, og við ætlum að eyðileggja og fórna einhverjum dýrmætustu náttúruperlum okkar í þeirra þágu. Og umræðan í landinu gengur út á það hvort við getum skrapað saman fyrir lánunum sem við tökum til að þjóna þeim. Hér koma menn síðan vígreifir og hæla sér af þessu í fullkominni einfeldni.

Í gær eða fyrradag skrifaði framkvæmdastjóri Framsfl. grein í Morgunblaðið og sagðist skilja að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs væru andvígir þessari ráðagjörð vegna umhverfismála, vegna umhverfisspjallanna, en hitt væri óskiljanlegt að þeir legðust gegn þessu á efnahagslegum forsendum. Þeir tala um hækkun vaxta, nú eru það ruðningsáhrif, segir framkvæmdastjórinn. Hvað verður næst?

En ég spyr: Hverjir hófu þá umræðu? Voru það ekki efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar? Var það ekki ríkisstjórnin sjálf sem talaði um nauðsyn þess að grípa til mótvægisaðgerða þegar mörg hundruð milljörðum yrði pumpað inn í hagkerfið? Jú, það var hún. Og það er hún sem gerir þetta í skýrslu sem birt var frá fjmrn. í byrjun janúar. Hvað eru menn að tala um þar? Menn eru að tala um 2% hærri vexti en ella hefði orðið. Menn eru að tala um niðurskurð í útgjöldum og menn hafa áður talað um nauðsyn þess að opna vinnumarkaðinn fyrir erlendu vinnuafli meðan á framkvæmdum stendur. Og efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar og háskólanna hafa varað við ruðningsáhrifum. Það eru þeir sem eru að ræða þetta, eðlilega. Og menn hafa bætt fjórða þættinum við, genginu, hvaða áhrif þetta hafi á gengið, stöðu krónunnar, og inn í efnahagslífið.

Þegar við spyrjum um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessu, þegar við segjum: Þótt ykkur takist með þessari ráðagjörð að skapa einhvers staðar upp undir þúsund störf til frambúðar af 15 þús. störfum sem þurfa að verða til í landinu á næstu tíu árum, þurfið þið ekki að hyggja þá að því hvort með þessari ráðagerð sé hugsanlega verið að bregða fæti fyrir annan atvinnurekstur? Þetta eru bara staðreyndir. Það er þarna sem talað er um ruðningsáhrif.

Hvað mun gerast þegar vextir eru hækkaðir og lánin eru hækkuð á fyrirtæki sem eru að færa út kvíarnar og þurfa á fjármagni að halda, lánsfjármagni eða til að standa í skilum og halda rekstrinum áfram og eiga fyrir afborgunum? Fyrirtækin munu skreppa saman. Er það eitthvað undarlegt? Nei, til þess er leikurinn gerður, til þess eru vextir hækkaðir, til þess að draga úr fjárfestingum, til þess að koma í veg fyrir að önnur fyrirtæki færi út kvíarnar og heimilin fjárfesti í húsum og híbýlum og framkvæmdum. Út á það gengur þetta.

Þegar ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra eru spurð eru engin svör, bara skætingur og talað út í loftið. (Iðnrh.: Tala ekki allir út í loftið?) Hvað segir hæstv. ráðherrann? Ég heyrði þetta ekki alveg. (Iðnrh.: Tala ekki allir út í loftið?) Tala ekki allir út í loftið, já. Hún gerði það, hæstv. ráðherra, um daginn á Bylgjunni, hún talaði svolítið mikið út í loftið vegna þess að þá var hún að svara borgarfulltrúa sem taldi sig hafa rök fyrir því að á þessari framkvæmd yrði bókhaldslegt tap. Þá mætti hæstv. iðnaðar- og bankamálaráðherra í fjölmiðla. Hvað sagði ráðherrann? Það var pínulítið út í loftið, það er alveg rétt. Það var Ólafur F. Magnússon sem átti frumkvæði að því að spyrja, að leiða getum að því, og taldi sig hafa rök fyrir því, að það yrði bókhaldslegt tap á þessari framkvæmd.

Ég ætla að lesa hérna upp úr fréttinni, með leyfi forseta:

,,Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir Ólaf F. Magnússon borgarfulltrúa vera að tjá sig um hluti sem hann viti ekkert um þegar hann heldur því fram að tap verði á Kárahnjúkavirkjun. Hvorki hann né reyndar hún hafi allar upplýsingar í málinu og verði að treysta á embættismenn og stjórn Landsvirkjunar.``

Ég skal vera svolítið nákvæmari því að hún segir orðrétt, hæstv. ráðherrann:

,,Ég get bara ekki rökrætt við Ólaf Magnússon í þessu máli vegna þess að hann hefur ekki allar upplýsingar og raunar ég ekki heldur. En það er nú í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að auðvitað treystum við þeim aðilum sem eru kjörnir af okkur til þess að fara með málið og bera ábyrgð á því. Þá er ég náttúrlega að tala um stjórn Landsvirkjunar og eins það ágæta starfsfólk sem vinnur hjá fyrirtækinu.``

Þetta er ráðherrann, þetta er hæstv. ráðherra sem er að þröngva þessu máli í gegn og segist ekki einu sinni þekkja staðreyndir þess. Hún er að lýsa því yfir í fjölmiðlum. Þarf frekari vitnanna við? Ég held ekki.