Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:27:50 (3134)

2003-01-28 22:27:50# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Ég skal orða þetta örlítið öðruvísi með skírskotun til þessara manna sem ég er að tala um, fjármálaspekúlanta og fjáraflamanna, sem m.a. ætla að veðja á aldraða, vegna þess að hægt sé að hafa úr rekstri elliheimila gríðarlegar tekjur. Ég er þar að vísa til eigenda Öldungs hf. sem munu vera búsettir á Gíbraltar til þess að komast hjá því að greiða íslenska skatta. Ég er að vísa í samninga sem ríkisstjórnin gerði við þessa aðila og kostar skattborgarana mörg hundruð milljónir.

Ég get tekið fleiri dæmi, ég get tekið mörg fleiri dæmi. Þegar talað er um fjárglæframenn og fjárglæfra ætti helst að vísa til ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem tekur eignir þjóðarinnar eins og ríkisbankana, þjóðbankana, og hefur geð í sér og smekkleysi, eins og hæstv. bankamálaráðherrann, til að afhenda Landsbankann í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag. Þar voru gerðir samningar við afhendingu á þjóðbönkunum sem má líkja við fjárglæfra og mjög óábyrga framkomu fyrir hönd þjóðarinnar.