Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:32:24 (3139)

2003-01-28 22:32:24# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um að heimila að reisa álver við Reyðarfjörð. Ég vil byrja á að ræða aðeins um trú manna á koldíoxíðmengun og þá vá sem af henni stafar fyrir jörðina. Ég vil líka minna á að sumir hafa nefnt að kjarnorkan sé líka vá.

Ef við trúum því að koldíoxíðmengunin valdi gróðurhúsaáhrifum og hækki hitastig á jörðinni, þá hljótum við að berjast á móti slíkri mengun, ekki satt? Ég trúi reyndar ekki svo bókstaflega á þetta, en margir gera það. Þá ættum við að vilja hafa bílana léttari til að þeir eyði ekki eins miklu bensíni. Þá ættum við sem sagt að vilja að hafa meira ál í bílunum. Þá ættum við líka að vilja stoppa framleiðslu rafmagns með brennslu olíu, gass eða kola. En 80% af rafmagni á jörðinni er framleitt með slíkri brennslu eða með kjarnorku. Og það hlutfall fer ekkert minnkandi.

Þörf mannkynsins fyrir ál fer vaxandi. Við notum öll flugvélar og vonandi notum við meira ál í bílana okkar, þannig að við verðum að framleiða meira ál til að minnka koldíoxíðmengunina og til þess þurfum við raforku. Ef við höfum þá trú að koldíoxíðmengun sé slæm, þá eigum við að framleiða raforku með öðru en brennslu.

Nú er það svo að ál þarf raforku. Það eru ekki til neinar þekktar aðferðir sem eru hagkvæmar aðrar en þær að framleiða ál með rafgreiningu. 90% af núverandi orku fer í þá efnabreytingu og neðar komumst við ekki þó við reynum að spara og þó að sparað hafi verið undanfarið. Það er því beint samband á milli álverðs og raforkuverðs, nema að því leyti sem farið er að endurnýta ál að einhverju leyti. Þannig að ef við trúum því að koldíoxíðmengunin og Kyoto-bókunin hafi eitthvert gildi þá eigum við að trúa því að raforkuverð muni hækka umtalsvert á næstu árum eða áratugum. (Gripið fram í: Þá er vitlaust að semja núna.) Þá er vitlaust að semja núna, segir hv. þm. Hann gleymir því að umsamið raforkuverð er háð álverði og er þar með óbeint háð raforkuverði um allan heim. Ef raforkuverð hækkar um allan heim vegna þess að umhverfisverndarsinnar ná því í gegn að hætt verði að nota olíu, kol og gas til að framleiða rafmagn, þá njótum við Íslendingar heldur betur góðs af því og þessi virkjun þar með.

Með þeim augum horft, þar sem við höfum bara eina jörð til að lifa á, þá er það nánast siðferðileg skylda Íslendinga að framleiða ál með rafmagni, okkar endurnýjanlega rafmagni, sem ekki veldur koldíoxíðmengun.

Það er meira að segja þannig að rafmagn framleitt sums staðar í heitu löndunum --- vegna þess að notkun veldur mikilli koldíoxíðmengun í vötnunum og það þýðir að rafmagn framleitt með slíkum vatnsorkuverum veldur sums staðar meiri koldíoxíðmengum heldur en rafmagn framleitt með kolum. Það er því enn frekar skylda þeirra sem eiga kalt vatn að framleiða rafmagn. Siðferðileg skylda.

Herra forseti. Ég hef lesið skýrslu eigendanefndar sem er afskaplega fróðleg og góð. Þeir beita mjög þekktri aðferð, Monte Carlo-aðferð, til að fá út líkur á tapi eða hagnaði af öllum þeim þáttum sem koma inn í þetta dæmi með alls konar líkum, dreifingu á líkum. Þetta er mjög góð aðferð. Hún sýnir að mjög miklar líkur eru á því að hagnaður verði af þessari virkjun og að forsendur nái fram að ganga.

Það væri mjög skemmtilegt ef svipuðum aðferðum yrði beitt á sjávarútveg á Íslandi. Ég er hræddur um að hann stæðist ekki það próf. Það er nefnilega miklu meiri áhætta í sjávarútvegi á Íslandi heldur en í álframleiðslu á Reyðarfirði vegna þess að í fyrsta lagi eru spurningar um hvort fiskurinn sé ekki að verða dvergvaxinn. Og það er spurning hvort við getum veitt eins mikið. Í öðru lagi eru markaðirnir mjög hættulegir. Það þarf ekki nema orðspor um bein í fiski eða bara einhverjar rangar upplýsingar um það að fiskur frá Íslandi sé geislavirkur og allur markaðurinn er hruninn. Þar er miklu meiri áhætta. Og ég er hræddur um að sjávarútvegurinn ægti ekki farið í gegnum svona nákvæma skoðun.

Það er eitt í skýrslu eigendanefndar sem ég hef, herra forseti, athugasemdir við. Þeir gera ráð fyrir að orkuverð lækki um 0,45% á hverju einasta ári til framtíðar. Við erum ekki að tala um tíu ár eða tuttugu ár, við erum að tala um fjörutíu, fimmtíu, jafnvel hundrað ár. Þetta hefur mjög mikil áhrif á arðsemina. Það er eins og þessir menn átti sig ekki á því að það sé umræða um koldíoxíðmengun, að einhver hlýnun sé á andrúmsloftinu, að það sé einhver stór hætta fyrir mannkynið út af gróðurhúsaáhrifum. Þeir gera sem sagt ekki ráð fyrir því. Þeir trúa ekki umhverfisverndarsinnum í því efni. Og umhverfissinnar sem benda einmitt á þetta atriði lenda í mótsögn, þ.e. þegar þeir benda á það að orkuverðið lækki jafnvel meira, þá eru þeir um leið að segja að umhverfissjónarmið þeirra varðandi koldíoxíðmengun séu röng. Því ef mannkynið kemst að því eftir tíu, fimmtán, tuttugu ár að loftslag sé virkilega orðið heitara, þá verður að sjálfsögðu öll brennsla bönnuð, þ.e. framleiðsla rafmagns með brennslu kola, olíu og gass, sem mun hafa hræðileg áhrif, m.a. það að orkuverð hækkar, þar með álverð og þar með tekjur þessa fyrirtækis langt umfram það sem menn reiknuðu með.

Svo hafa menn sagt að lónið fyllist á 400 árum. Og það er talið merki um að þetta sé ekki endurnýjanleg orka. Ja, það væri nú gaman að vera uppi eftir 400 ár. En hvað skyldi virkjunin verða búin að borga sig mörgum sinnum á þeim tíma? Hvað skyldu jarðgöngin verða búin að borga sig mörgum sinnum? Því þau eyðast ekki. Það er hægt að nota þau í 400 ár og 400 ár í viðbót, væntanlega. Auk þess sem menn verða væntanlega eftir 200 ár búnir að finna aðferð til að spúla þessari uppfyllingu út í sjó, eða jafnvel selja til Evrópu í vegagerð, í byggingar eða annað.

Menn hafa talað um samtengingu álvers og virkjunar sem áhættu. Það er ekki rétt. Það er minni áhætta í virkjuninni en álverinu. Segjum að álverið fari á hausinn. Hvað gerist þá? Þá þurfa Íslendingar að fara að leita að nýjum orkukaupanda. Dálítið slæm staða eins og var við Blöndu á sínum tíma. En á fimm eða tíu árum munum við finna orkukaupanda og það er stuttur tími í því dæmi sem við erum að ræða hér. Og sá orkukaupandi mun standa undir virkjuninni áfram. Ef álverið færi á hausinn, þá færi virkjunin ekki á hausinn, en ef virkjunin færi á hausinn, þá færi hins vegar álverið á hausinn því það er gjörsamlega háð þessu rafmagni og fær það ekki annars staðar. Það er því minni áhætta af virkjuninni en álverinu og það er sú áhætta sem Íslendingar taka.

Menn hafa talað um (Gripið fram í: Ríkisvæðing.) ríkissósíalisma, ég ætlaði einmitt að fara að koma með það, herra forseti, fara að tala um ríkissósíalisma. Við búum við það að allur orkugeirinn á Íslandi er í opinberri eigu, meira og minna. Það eru einstaka bændur sem róa á móti straumnum og þetta er afskaplega dapurleg staða. En að gefnu því að horfa á fallvötnin falla óvirkjuð til sjávar og skila þjóðinni ekki neinu, þá lít ég á þetta sem betri kost, þó þetta sé ríkisvæðing, herra forseti, í von um það að menn muni einkavæða þetta á næstunni sem er næsta skref. Og mér sýnist nú jafnvel að borgarstjóri, sá sem er enn þá, er að hætta, sem er tilvonandi forsætisráðherra, mér skildist að hann væri búinn að ráðstafa peningum af Landsvirkjun, hann ætlaði nefnilega að byggja menningarhús í Reykjavík fyrir aurinn. Þannig að það getur vel verið að það komi hvati til að selja Landsvirkjun. Ég vona að hún verði seld sem fyrst.

Það hefur verið dálítið undarleg umræða, herra forseti, undanfarið um það mikla böl að fá svona mikla atvinnu inn í landið og fá svona miklar framkvæmdir og eitthvað sem þjóðina hefur dreymt um í fjölda ára. Nú er það allt í einu orðið böl. Hvaða svartnætti sjá menn fram undan? Til dæmis að það þarf hærri vexti. Af hverju þarf hærri vexti, herra forseti? Vegna þess að það verður svo mikil eftirspurn eftir vinnuafli, það verður ekkert atvinnuleysi, þannig að launin hækka og kaupmáttur vex. Og til að halda aftur af því þannig að ekki verði verðbólga, þarf hugsanlega að hækka vexti til að koma í veg fyrir þenslu. Ja, það eru nú aldeilis vandamálin í dag, herra forseti. Ég verð að segja það eins og er. Þetta er nú aldeilis sorglegt. Svona mikil atvinna. Og svona mikil þensla. Og svona mikið fjör. Þá er nú betra að hafa atvinnuleysi og kreppu og dálítið huggulegt og jafnvel neikvæða vexti. Eða hvað? (Gripið fram í.) Mér heyrist að sumir séu að biðja um það. Svo eru menn að vísa til þess að það sé vaxandi atvinnuleysi á síðustu mánuðum, það er rétt. (Gripið fram.) Mér finnst þetta álver koma á hárréttum tíma, herra forseti, á hárréttum tíma til að vega upp á móti því atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir núna og að álverið muni laga það mjög hratt og vel.

Á vissan hátt hef ég skilning á baráttu umhverfissinna. Ég heft oft reynt að setja mig í þeirra spor. Þeir trúa því að þarna sé að verða slys. Þeir trúa því að þarna séu ósnortin víðerni að skemmast. Þeir trúa því að þarna séu að verða einhver spjöll sem ekki verða aftur tekin. Og þegar maður setur sig í þau spor, þá hefur maður skilning á þeirri baráttu. Maður skilur líka að núna þegar þetta er að dynja yfir þá --- þeir líta eflaust svo á að þetta sé eitthvað sem er að detta yfir þá, sem eitthvert svartnætti --- þá nota þeir öll rök. Það er allt tínt til sem hægt er. Ég skil það ósköp vel. Ég skil alveg þessi mótmæli hjá þessum aðilum. Ekki spurning.

En ég vil benda á að þau eru ýmis umhverfisslysin á Íslandi. Þegar átti að fara að byggja við Elliðavatn, þá var sagt að ekki mætti byggja of nálægt Elliðavatni. Af hverju? Það mundi spilla vatninu og vatnsbökkunum. En Elliðavatn er umhverfisslys. Ef ætti að stífla Elliðavatn núna þá yrði það bannað. Það yrði aldrei leyft. Þarna voru mýrar áður. Elliðavatn er umhverfisslys. Hreindýrin sem menn eru að nota sem rök gegn virkjuninni, þau væru ekki leyfð í dag. Það yrði aldrei nokkurn tímann í lífinu leyft að flytja inn hreindýr til Íslands frá Noregi. Þau eru líka umhverfisslys. Það eru nokkrir aðilar sem vilja flytja hreindýr til Vestfjarða. Þeir mega það ekki af umhverfisástæðum. Hreindýrin eru því umhverfisslys líka.

[22:45]

Ef við lítum á Reykjavík ofan af Esjunni þá er alveg hræðilegt að líta á þetta. Hér eru uppfyllingar, húsbyggingar og ég veit ekki hvað. Ef einhver hefði staðið frammi fyrir því um aldamótin þarsíðustu að byggja Reykjavík þá hefði það hreinlega verið bannað. Reykjavík er umhverfisslys að sjálfsögðu. (SJS: Maðurinn, er hann ekki umhverfisslys?) Ég ætlaði að koma að því. Landnám Íslands yrði heldur ekki leyft. (SJS: Nei, nei.) Nei. Ef landnám Íslands hefði farið í umhverfismat hefði það nú heldur betur verið bannað, ósnortin víðerni eyðilögð. (SJS: Adam hefði verið bannaður.) Ég hugsa það já.

Svona geta öfgarnar farið út í hreina vitleysu. Talandi um ósnortin víðerni. Þegar ég hugsa um orðið verður mér alltaf dálítið óglatt vegna þess að þau eru ósnortin, það þýðir að enginn maður má drepa þar niður fæti. Að ætla að nota þetta sem ferðamannaagn, það er hrein della. Um leið og tíu manna hópur er kominn inn á ósnortin víðerni þá truflar hann sýn mína á landið, þessir tíu menn svo að ég tali nú ekki um rútuna og bílana sem þeir nota. Þannig að ósnortnu víðernin eru ekki lengur ósnortin þegar ferðamennirnir eru komnir inn á þau. Það er mótsögn í orðunum ,,ósnortin víðerni``. Menn skulu bara líta á hvernig ferðamennirnir spilla landinu. Lítið þið á Fimmvörðuháls. Hann er að skemmast. Ekki er það af völdum bíla, álvers eða virkjana, heldur af völdum ferðmanna sem troða niður svörðinn.

Herra forseti. Ég má nú til með að koma inn á það að hv. þm. Ögmundur Jónasson taldi upp fullt af afskaplega góðum og gæfulegum fyrirtækjum, Össur, Sæplast og ég veit ekki hvað. Hjarta mitt tók kipp af ánægju vegna þess að hann var að lýsa því sem ríkisstjórnir Sjálfstfl. hafa náð fram síðustu tólf ár. Með því að bæta stöðu atvinnulífsins blómstrar nýsköpun og alls konar fyrirtæki fara í gang. Það gladdi mig sérstaklega að hv. þm. Ögmundur Jónasson væri nú kominn í flokk aðdáenda ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Herra forseti. Ég hef ekki talað um efnahagsleg áhrif þessa álvers á Austfirði. Ég þarf þess ekki. Ég þarf ekki að segja Austfirðingum af því. Þeir vita það nú þegar. Þeir eru byrjaðir að byggja, byrjaðir að panta lóðir og eru að fara í gang. Það er mikil gleði og heiðríkja yfir Austfirðingum, nema náttúrlega þeim umhverfissinnum sem þar búa sem sjá svartnættið skella yfir. Ég óska Austfirðingum sem og öllum landsmönnum til hamingju með þetta álver. Ég styð eindregið að það verði reist.