Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 23:00:40 (3147)

2003-01-28 23:00:40# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[23:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég á dálítið erfitt með að ræða um trú hv. þingmanns á því að eitthvað annað taki við af álinu. Þetta er nú bara trú og menn geta haft ýmiss konar trú og ég get ekkert rætt það frekar.

Varðandi það að ál sé ekki umhverfisvænn málmur má vel vera að hann sé ekki umhverfisvænn þegar hann er framleiddur með rafmagni sem er búið til með brennslu kola og olíu. Það má vel vera. Ég hef meira að segja mikla trú á því að þá sé hann ekki umhverfisvænn, ef menn trúa Kyoto-bókuninni. Ál sem hins vegar er framleitt með mengunarlausri raforku tel ég vera miklu umhverfisvænna heldur en hitt álið sem framleitt er með brennslu jarðefna.

Að öðru leyti get ég ekki komið inn á andsvar hv. þm. Ég áttaði mig ekki almennilega á hvort þetta sé trú um það að álið sé að fara út og allt sé í himnalagi án þess að hafa ál og bílarnir séu ágætir bara úr þungu járni, stáli o.s.frv. Ég hef aftur á móti þá trú að ál muni taka yfir í bílum, til þess að létta þá, til þess að minnka orkunotkun þeirra og þannig sé ál sem framleitt er á Íslandi í tvíþættum skilningi umhverfisvænt. Rafmagnið til framleiðslunnar er framleitt með vatnsorku en ekki með bruna og álið veldur því að bílar þurfa að brenna minna, það verði minni bruni þar.