Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 23:42:44 (3150)

2003-01-28 23:42:44# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[23:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ástæða til að segja hérna nokkur orð við lok umræðunnar. Ég þakka fyrir hana. Hún er reyndar búin að standa ansi lengi en það var kannski ekki hægt að búast við öðru. Þetta er stórt mál, vissulega mjög stórt mál sem við erum að fjalla hér um. Reyndar erum við kannski ekki að fjalla um Kárahnjúkavirkjun að þessu sinni, heldur álverið því lög hafa verið samþykkt um Kárahnjúkavirkjun. Þau voru samþykkt í apríl sl. En þetta er svo sem allt meira og minna tengt eins og hv. þm. vita og hafa vissulega látið koma í ljós í umfjöllun --- ég er bara að hugsa um þetta rauða ljós, forseti.

(Forseti (GuðjG): Það er eitthvert óstand á klukkunni.)

Nú, þá höfum við það bara svona. (Gripið fram í.) En það er ágætt að vera á rauðu ljósi í sjálfu sér, full ástæða til kannski.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að bregðast aðeins við þó að ég viti að það sé orðið áliðið og það eigi eftir að fjalla um þetta mál í nefnd þar sem áreiðanlega fást svör við mörgu af því sem hér hefur komið fram. Það kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að kannski hefði verið ástæða til að þetta fyrirtæki færi bara inn í hið hefðbundna skattkerfi okkar og þyrfti ekkert endilega að hafa miklar ívilnanir, eins og ég skildi hana í sambandi við málið. Nú er það þannig að það er ekki hægt að tala um að þarna séu ríkisstyrkir, að þeir séu neitt grundvallaratriði í málinu. Hins vegar er, eins og kemur fram í frv., tekið tillit til þess í ýmsum liðum að hér er um mjög sérstaka framkvæmd að ræða og mjög stóra. Það hlýtur að gefa augaleið að t.d. hvað varðar fasteignaskattana, sem eru kannski hvað stærsti liðurinn sem gefinn er afsláttur á, væri mjög óeðlilegt að beita hefðbundnum aðferðum við álagningu fasteignaskatts þegar um svona stóra framkvæmd er að ræða, og það er skattur sem varðar sveitarfélagið en ekki ríkið. Í sambandi við þessar ívilnanir erum við bæði að tala um skatta til sveitarfélagsins og ríkisins.

[23:45]

Hvað varðar ýmis gjöld t.d. iðnaðarmálagjaldið, þá er ekki útlit fyrir að þetta fyrirtæki muni njóta þeirrar þjónustu og þeirra fríðinda sem slíkt gjald gefur fyrirtækjum. Því er undanþága frá því gjaldi og mætti telja svona lengi áfram. En síðan hefur fyrirtækið tækifæri til að fara inn í hið almenna skattkerfi ef það tekur ákvörðun um það og þá reikna ég með að það yrði auðveld leið.

Um útblástur lofttegunda og takmörkun að leggja á losunargjald eins og kom líka fram í máli hv. þm. þá snýr þetta ákvæði fyrst og fremst um að gætt sé jafnræðis ef til þess kemur að skattur eða göld yrðu lögð á gróðurhúsalofttegundir og held ég það að sé mjög almenn regla að gæta jafnræðis á milli fyrirtækja.

Í sambandi við rammaáætlun sem talað hefur verið um og í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom fram að miðað við það uppkast að rammaáætlun, drög að rammaáætlun, sem kynnt hefur verið sé þessi framkvæmd, Kárahnjúkavirkjun, eiginlega versti kosturinn. Þá ber þess að geta að þar er ekki tekið tillit til orkueininga og að þetta er mjög mikil orkuframleiðsla. Þetta er stærsta virkjunin sem metin er og hefur þar af leiðandi mest áhrif en ef ekki kæmi til þess að virkja við Kárahnjúka þyrfti margar smærri virkjanir sem mundu að öllum líkindum og ég vil fullyrða hafa miklu meiri umhverfisáhrif.

Hv. þm. hafði mörg orð um að ekki skyldi vera notaður vothreinsibúnaður heldur svokallaðir strompar sem eru ekki nein sérstök vandamál í Norðurlandi eystra. Sú útfærsla sem Alcoa ætlar að beita og byggja hefur farið í gegnum það ferli sem lög kveða á um. Málið hefur verið lagt fyrir Skipulagsstofnun og hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sem slík þurfi ekki að fara í sérstakt mat á umhverfisáhrifum vegna þess að hún hafi minni umhverfisáhrif en sú sem upphaflega var gert ráð fyrir þannig að mér finnst hv. þm. vera svolítið að skjóta sjálfan sig í fótinn þegar hann er þarna að gagnrýna að mér finnst Skipulagsstofnun í sambandi við úrskurðinn um álverið.

Talað var um 60 fossa en ég held því fram að þeir séu miklu færri og ekki rétt að tala um 60 fossa heldur séu þeir þrisvar sinnum færri eða svo.

Um það efni að þeim sérfræðingum sem fóru yfir arðsemina fyrir eigendur Landsvirkjunar hafi ekki verið falið að fara yfir útreikninga á forsendum, hafi einungis verið falið að fara yfir útreikninga en ekki forsendur þær sem Landsvirkjun gaf sér, þá er það ekki rétt. Eigendanefndin telur og kemst að þeirri niðurstöðu að forsendur þær sem Landsvirkjun gefur sér við útreikninga séu eðlilegar og byggðar á rökum. Það tel ég að þurfi að koma fram.

Í sambandi við framtíðarspá um álver sem hv. síðasti ræðumaður hafði greinilega mikla þekkingu á, þá held ég að við getum ekki unnið það á annan hátt en þann sem fyrirtæki í heiminum gera, að byggja spá sína á aðferðum eða á niðurstöðum þekktra alþjóðlegra fyrirtækja og einstaklinga sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar á því sviði og eru sérfræðingar í sambandi við spár um álverð. Ég a.m.k. get ekki treyst mér til að gera það betur og ég leyfi mér að efast um að hv. síðasti ræðumaður mundi spá betur til um þessa hluti.

Í máli hv. þm. Þuríðar Backman kom fram, reyndar sagði hún að fólk á Austfjörðum væri bjartsýnna núna en það hefði verið og hvort sem hún missti það út úr sér eða ekki þá lét hún þessi orð falla og sagði jafnframt að það væri sennilega vegna þess að stórframkvæmdir eða stóriðjuframkvæmdir væri það eina sem ríkisstjórnin væri að vinna að og það eina sem væri að gerast heyrðist mér. En það er aldeilis ekki því að margt annað jákvætt er að gerast á Austurlandi t.d. í sambandi við stækkun ferju og beint flug, fiskeldi og fleira mætti nefna. Það sem heyra mátti í umræðunni hvað eftir annað að það eina sem ríkisstjórnin væri að berjast fyrir og hafi á stefnuskrá sinni sé uppbygging álvera og stóriðja, er bara ekki rétt. Stjórnvöld hafa klærnar úti hvað varðar alla hugsanlega uppbyggingu á atvinnutækifærum. Þetta er vissulega það stærsta en það mætti mjög margt upp telja.

Um það sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, hann talaði reyndar um ESA-dómstólinn að hann væri að fjalla um málið, það er náttúrlega ekki rétt heldur er það ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem er að fara yfir þá opinberu aðstoð sem þarna gæti talist vera um að ræða og það er samkvæmt EES-samningnum sem þetta er gert. Og þar sem sá stuðningur sem kemur fram í frv. er mjög í samræmi við það sem beitt var hvað varðar Norðurál, þá tel ég ekki miklar líkur á því að þarna komi önnur niðurstaða en jákvæð.

Ég ætla ekki að fara frekar í þau atriði sem fram komu í umræðunni en mig langar samt að segja, hæstv. forseti, nokkur orð í lokin, fyrst og fremst það að sú framkvæmd sem hér um ræðir er vissulega stór framkvæmd og það er orðið býsna langt síðan ég sannfærðist um það að hún ætti rétt á sér og hún mundi verða eins og vítamínssprauta inn í efnahagslíf okkar Íslendinga. Það er ekki síður mikilvægt að hún mun hafa gífurleg áhrif á byggðaþróun. Við erum að tala um tíu ára tímabil uppbyggingar og grósku á Austurlandi með áhrifum langt út fyrir Miðausturland, til Norðausturlands og landsins alls og mér finnst ekki frambærilegt að vera á móti þessum framkvæmdum á grundvelli þess að þær séu ekki arðbærar. Mér finnst heldur ekki frambærilegt að berjast gegn þessum framkvæmdum á grundvelli þess að hugsanlegt sé að beita þurfi mótvægisaðgerðum í tvö ár, á árunum 2005 og 2006. Svo er sagt að það eigi að nota þessa peninga í eitthvað annað, eitthvað sem tengist t.d. hugviti. Hvaða peningar eru þetta nú sem þarna er verið að tala um? Þetta eru peningar Alcoa og það vill svo til að ríkisstjórnin hefur ekkert yfir þeim peningum að segja. Það er ekki þannig að ríkisstjórnin sé að leggja fram fjármagn í þessar framkvæmdir sem hugsanlega væri hægt að nota í eitthvað annað. Þetta er búið að ganga í gegnum alla þessa umræðu og kemur alltaf upp aftur og aftur.

Svo með það að Alcoa sé erlent fyrirtæki og að arður af rekstri álverksmiðjunnar fari úr landi. Eins og komið hefur fram verður hann skattlagður á Íslandi. Ég vil benda á hvað varðar Norðurál og Kenneth Peterson að í fyrravetur var lögum um Norðurál breytt á hv. Alþingi til þess að gera honum kleift að fjárfesta í öðrum greinum á Íslandi og það hefur hann verið að gera. Það frv. var samþykkt samhljóða ef ég man rétt. Hver veit nema Alcoa fari svipaða leið og fari út í frekari fjárfestingar hér á landi þegar fram líða stundir og vissulega væri það mjög ánægjulegt.

Síðan vil ég aðeins koma að hugvitinu sem hv. þm. Ögmundi Jónassyni var tíðrætt um og taldi upp fjöldamörg fyrirtæki sem væru alveg til fyrirmyndar og hefðu verið stofnsett á síðustu missirum mörg hver og önnur eldri en hafa verið í umræðunni vegna þess að þau hafa verið að gera það gott. Þar er ég alveg innilega sammála hv. þm., ég gleðst líka yfir því að mörg fyrirtæki hafa verið að gera það gott og það vildi svo til að mörg af þeim fyrirtækjum sem hann nefndi hafa einmitt notið stuðnings iðn.- og viðskrn. En ég vil hins vegar gera athugasemd við það að mér heyrðist að hann teldi að það væri fyrst og fremst vegna stefnu Vinstri grænna í atvinnumálum að þau fyrirtæki hefðu náð slíkum árangri. Eftir því sem ég best veit hefur stefna þeirra ekki verið ofan á í íslensku samfélagi og þeir hafa ekki haft mikil völd enn þá a.m.k. hvað sem gerist eftir næstu kosningar, en miðað við þær ræður sem haldnar voru hér í dag af hálfu hv. þm. þá finnst mér ekki fýsilegt að vinna með þeim eftir kosningar.

Lítið hefur verið talað um Kyoto, Kyoto-samþykktirnar, en auðvitað skipta þær verulega miklu máli. Sá árangur sem íslensk stjórnvöld náðu í sambandi við það mál er náttúrlega alveg sérstaklega ánægjulegur og þá gilti eins og svo oft áður að gefast ekki upp. Það að alþjóðasamfélagið hafi samþykkt og komist að þeirri niðurstöðu að það sé jákvætt fyrir umheiminn að framleiða ál á Íslandi skiptir ekki litlu máli en það er það sem lesa má út úr þessum samþykktum. Og mér er minnisstætt að formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, og ég þreytist ekki mikið á að endurtaka það, sagði þegar stjórnvöld lögðu af stað með kröfur sínar í þeim samningum að þær voru svo fáránlegar að þær yrðu hlegnar út af borðinu. En engu að síður náðist árangur og við náðum þeim niðurstöðum sem við lögðum upp með.

Hæstv. forseti. Nú er klukkan alveg að verða 12 og ég ætla að ljúka máli mínu fyrir miðnætti. Ég vil endurtaka það sem ég hef sagt að það er frábær árangur að vera komin með þetta mál á það stig sem raun ber vitni að við séum um það bil að ná málinu í höfn, að álver verði byggt á Austurlandi þar sem orka verður nýtt úr fallvötnum norðaustan Vatnajökuls. Þetta er mál sem Austfirðingar hafa barist fyrir í mjög langan tíma af þolinmæði, vil ég halda fram. Nú erum við að sjá árangur og það er glæsilegt.