Skráning ökutækja

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:36:25 (3158)

2003-01-29 13:36:25# 128. lþ. 67.1 fundur 401. mál: #A skráning ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Spurningin sem hv. þm. leggur fram er í fjórum liðum og ég tek fyrir svar við fyrsta lið. Það er mikil upptalning og í tölum. Það hefði sjálfsagt verið betra að svara henni skriflega, en hefst nú upptalningin.

Því er hér til að svara að skráningarárið 1997 eru alls átta ökutæki nýskráð samkvæmt óskráðu framleiðsluári, 5.570 ökutæki eru nýskráð af framleiðsluárinu 1997, 4.853 ökutæki eru nýskráð af framleiðsluárinu 1996 og af framleiðsluárinu 1995 eru 282 ökutæki nýskráð. Síðan er mikil upptalning á tölum. Ég vona að hv. fyrirspyrjandi sætti sig við að ég afhendi honum þessar upplýsingar sem hér eru vegna þess að ég vil gjarnan bregðast við öðrum spurningum sem eru í þremur öðrum liðum.

Í öðrum lið fyrirspurnarinnar er spurt hvort kaupendur notaðra bifreiða geti auðveldlega fullvissað sig um árgerð ökutækja út frá skráningargögnum þeirra.

Því er til að svara að í bifreiðum frá sumum framleiðendum er unnt að sjá árgerð í verksmiðjunúmeri og er það tíundi bókstafur verksmiðjunúmers sem segir til um árgerð. Árgerð bifreiðar segir hins vegar ekki nákvæmlega til um það hvenær bifreiðin var framleidd. Í þeim efnum getur munað allt að einu ári frá árgerðarári bifreiðarinnar. Því er auk þess þannig farið að ekki nærri allir framleiðendur bifreiða nota tíunda staf verksmiðjunúmers fyrir árgerð og má hér nefna sem dæmi algengar bifreiðategundir á borð við Toyota og Mercedes Benz.

Á því tímabili sem framleiðsluár bifreiða var skráð reyndist erfitt fyrir innflytjendur að fá staðfestingar þar um frá framleiðendum og upplýsingar framleiðenda voru mismunandi um hvað teldist vera framleiðsluár. Var þannig ýmist miðað við þann tíma þegar ökutækið kom af færibandinu eða þann tíma þegar það fór af lager framleiðandans.

Í þeim löndum sem flestar notaðar bifreiðar eru fluttar inn frá, svo sem Þýskalandi, Danmörku og Noregi, eru ekki skráð í skráningarskírteini framleiðsluár eða árgerð, aðeins fyrsti skráningardagur.

Í þriðja lið er spurt hvort hlotist hafi vandkvæði af þeirri breytingu sem varð þegar farið var að skrá ökutæki sem ný þó að þau hafi verið framleidd einhverjum árum fyrr. Hér skiptir vitaskuld öllu máli hver viðmiðunarhópurinn er. Það er ljóst að ég er ekki í aðstöðu til að meta áhrif breytinganna fyrir alla hópa. Ég get t.d. ekki svarað þessu fyrir hönd bílasala. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér frá íslenskum skráningaryfirvöldum er það skoðun mín að ekki hafi hlotist vandkvæði vegna breytingar á framkvæmd ökutækjaskráninga.

Loks er í fjórða lið spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að stuðst verði að nýju við framleiðsluár við nýskráningu bifreiða.

Svar mitt við þessu er að ég tel engin rök hníga til þess að breyta frá þeirri skráningarframkvæmd sem nú er við lýði. Eflaust kunna að vera einhver atriði sem skoða má betur. En það er mitt mat að núverandi framkvæmd við skráningu bifreiða hafi gefist vel.

Fyrir liggur að skráningu á framleiðsluári var hætt hér á landi á miðju ári 1998 en samtímis var heimilað að skrá árgerð væri þess óskað og fyrir lægju traustar upplýsingar þar að lútandi. Hefur þessi heimild verið talsvert notuð. Enn fremur er ljóst að í nágrannalöndum okkar hefur aldursviðmið ökutækja almennt verið fyrsti skráningardagur nema til skamms tíma í Svíþjóð. Skráningu á árgerð í Svíþjóð hefur nú verið hætt og styðjast Svíar nú eingöngu við fyrsta skráningardag eins og öll helstu nágrannalöndin.

Mér er það fullkomlega ljóst að það voru íslenskum markaði talsverð viðbrigði þegar hætt var skráningu á framleiðsluári og eingöngu miðað við fyrsta skráningardag. Þó er viðbúið að markaðurinn venjist þessu þegar frá líður en íslensk skráningaryfirvöld hafa einmitt spurt að það sé reynsla kollega þeirra í nágrannalöndunum.

Ég vona að hv. fyrirspyrjandi sé nokkru fróðari um verklag vegna skráningar ökutækja eftir þessa umfjöllun. Ég vil leyfa mér að afhenda honum þessar upplýsingar sem spurt er um í fyrsta lið, þ.e. hversu mörg ökutæki hafi verið skráð sem ný samkvæmt gildandi viðauka við reglugerðina frá 1997. Það var óskað eftir sundurliðun annars vegar eftir skráningarárum og hins vegar eftir framleiðsluárum.