Skráning ökutækja

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:43:37 (3160)

2003-01-29 13:43:37# 128. lþ. 67.1 fundur 401. mál: #A skráning ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Allt fram á síðasta áratug síðustu aldar var árgerð helsta viðmið í aldursgreiningu ökutækja hér á landi og eins og ég nefndi áðan þá er árgerð ökutækja ekki heppilegt aldursviðmið eitt og sér enda slík framkvæmd ónákvæm þar sem framkvæmd hugtaksins fól í sér að skráningar- eða aldursviðmið ökutækis gat náð frá tímabilinu frá febrúar á undangengnu ári og allt fram til júnímánaðar á því ári sem árgerðin tilheyrði, þ.e. yfir hartnær 16 mánaða tímabil vegna sömu árgerðar.

Þá vil ég líka benda á reglugerðina frá 1997 en þar er ákvæði um gerðarviðurkenningu fólksbifreiða breytt þannig að frá þeim tíma er einungis heimilt að gerðarviðurkenna fólksbifreiðar samkvæmt evrópskum heildargerðarviðurkenningum, samanber EBE-tilskipun frá árinu 1992, en samkvæmt þessum reglum er óheimilt að hafna nýskráningu innan Evrópska efnahagssvæðisins ef framvísað er svokölluðu samræmingarvottorði. Þessi evrópsku samræmivottorð bera ekki með sér framleiðsluár ökutækisins og af þeim sökum er reglugerðarákvæði um skráningu framleiðsluárs fellt niður í þessari reglugerð.

Á Íslandi var fyrir nokkrum árum ákveðið að fara þá leið að skrá bæði framleiðsluár ökutækja ásamt fyrsta skráningardegi og var þar m.a. tekið mið af sjónarmiðum Bílgreinasambandsins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Í ljós kom að erfiðlega gekk að uppfylla þetta verklag vegna þess að margir framleiðendur bifreiða skráðu ekki framleiðsluár þeirra. Eins og ég sagði áðan virðist þetta skráningarkerfi hafa gengið allvel fyrir sig. En það er ágætt að við ræðum það á hinu háa Alþingi og það er sjálfsagt að skoða hvort uppi eru einhver vandamál í tengslum við fyrirspurn hv. þm.