Starfatorg.is

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:45:54 (3161)

2003-01-29 13:45:54# 128. lþ. 67.2 fundur 450. mál: #A starfatorg.is# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi BH
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Nýverið hófst sú nýlunda hjá fjmrn. að upp var settur vettvangur undir heitinu starfatorg.is. Þar má sjá ýmsar gagnlegar upplýsingar er varða starfsmenn ríkisins, kjarasamninga og réttindi en þar er líka að finna auglýsingar um laus störf hjá ríkinu og vísað á viðkomandi ríkisstofnun til frekari upplýsinga um störfin. Vefstjóri fjmrn. er umsjónarmaður torgsins. Stjórnendur ráðuneyta og stofnana eða starfsmenn í umboði þeirra annast gerð auglýsinga.

Á Starfatorgi eru skráðar um 140 ríkisstofnanir og í fljótu bragði virðast þar vera allar stofnanir ríkisins, þar á meðal Samkeppnisstofnun sem nú hefur reyndar kærumál vegna Starfatorgsins til umfjöllunar.

Ég spyr hæstv. fjmrh. hvað starfatorg.is sé. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þar er um að ræða ríkisrekinn auglýsingamiðil eða jafnvel að einhverju leyti ráðningarskrifstofu því svo mikið er víst að starfatorg.is fer einnig að hluta til inn á verksvið ráðningarskrifstofa. A.m.k. er ljóst að einhverjum hluta ráðningarmarkaðarins hefur verið kippt út af frjálsum markaði og vísað inn í ríkisstofnanirnar sjálfar þar sem úrvinnsla upplýsinga og umsókna er unnin af ríkisstarfsmönnum viðkomandi stofnana en ríkið hefur hátt í 20% af vinnuaflinu og enn stærra hlutfall af atvinnuauglýsingamarkaði. Þjónusta starfatorgs.is er ókeypis.

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. út í þetta fyrirbæri, ekki síst í ljósi þess að hér virðist sem farið sé þvert gegn stefnu hæstv. ríkisstjórnar sem, eftir því sem ég hef best skilið, hefur lagt á það áherslu að efla samkeppnis- og einkamarkaðinn sem mest og kemur það m.a. fram í glænýrri innkaupastefnu ríkisins þar sem mikil áhersla er lögð á eflingu samkeppnismarkaðar og m.a. vakin athygli á því að í krafti stærðar sinnar hefur ríkið mikil áhrif á samkeppnismarkað. Hægt er að nota innkaup ríkisins til að stuðla að uppbyggingu markaðar á tilteknu sviði, bættri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja o.s.frv. Þar er m.a. vakin athygli á því að ,,bestu kaup`` fela ekki eingöngu í sér innkaup á aðföngum vegna núverandi starfsemi heldur einnig að hugað sé að því hvort einstakir þættir í rekstrinum eða tiltekin verkefni verði betur leyst með kaupum á almennum markaði.

Því hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh.:

Hvað er starfatorg.is og hver er tilgangur þess?

Telur ráðherra slíkan rekstur eiga heima undir hatti ríkisins og ef svo er, af hverju?

Hefur verið kannað hver áhrif af rekstri starfatorg.is eru á rekstur einkarekinna fyrirtækja, auglýsingafyrirtækja og að einhverju leyti ráðningarfyrirtækja sem starfa á sama markaði?