Verndun Mývatns og Laxár

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:12:25 (3170)

2003-01-29 14:12:25# 128. lþ. 67.4 fundur 468. mál: #A verndun Mývatns og Laxár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt:

,,Hefur ráðherra í hyggju að leggja fyrir yfirstandandi löggjafarþing frumvarp um breytingar á lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu?``

Því er til að svara að hinn 25. september 2001 var skipuð nefnd til að endurskoða þessi lög með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu árum á stjórnsýslu náttúruverndarmála, m.a. með nýjum lögum um náttúruvernd nr. 44/1999. Einnig var nefndinni falið að gera tillögur um framtíðarstarfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Í nefndina voru skipaðir Finnur Þór Birgisson lögfræðingur, formaður, Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, Gísli Már Gíslason, prófessor og formaður stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Sigbjörn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, og Jón Helgi Björnsson líffræðingur.

Nefndin hefur skilað drögum að frv. til nýrra laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar er gert ráð fyrir að gildissviði laganna verði breytt frá því sem nú er og þau taki í meginatriðum til Laxár, Mývatns og ýmissa votlendissvæða þar í kring. Gert er ráð fyrir að önnur svæði í Skútustaðahreppi sem hafa hátt verndargildi verði friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum og skal því ferli samkvæmt frv. vera lokið innan tiltekins tíma. Nýmæli eru í frv. að kveðið er á um sérstaka vernd vatnasviðs Mývatns og Laxár.

Frumvarpsdrög nefndarinnar voru send til umsagnar ýmissa aðila sl. vor og skiluðu 20 aðilar ítarlegum athugasemdum og umsögum. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að það var nokkuð góð sátt í nefndinni þó að þar væri sérstakt minnihlutaálit. Hins vegar var alveg ljóst að þegar við fengum inn umsagnir frá aðilum höfðu þeir talsverðar athugasemdir við frumvarpsdrögin. Það er því búið að skoða í ráðuneytinu undanfarna mánuði hvernig hægt sé að koma til móts við þær athugasemdir sem þar komu fram. Það er búið að fara yfir umsagnirnar og það er verið að vinna úr athugasemdum. Það er mjög mikið verk að gera það.

Það var einnig rétt sem hér kom fram hjá fyrirspyrjanda að ég hafði í hyggju að leggja þetta frv. fram á haustþingi en vegna anna tókst það ekki. Önnur mál sem komu inn í ráðuneytið þurftu að fá forgang, m.a. fjölmargar kærur sem við þurfum að afgreiða á ákveðnum tíma þó að við höfum því miður fallið á þeim tíma í mörgum tilvikum. Það komu inn tilskipanir frá Evrópusambandinu sem við þurftum að klára og vorum líka með í tímahraki. Það komu inn aðgerðir vegna rjúpnastofnsins þar sem það var brýnt að leita eftir lagaheimildum vegna þeirra atriða o.s.frv. Ekki tókst því að klára þetta frv. þannig að hægt væri að leggja það fram á haustþingi. Hins vegar var það sett á þann lista sem hér er ávallt kynntur í upphafi þings yfir þau mál sem ráðherra hefur í hyggju að leggja fram. Við höfum stefnt að því að koma þessu máli fram.

Við erum sem sagt á lokasprettinum í ráðuneytinu við það að klára þetta mál. Það þarf síðan að fara í gegnum ríkisstjórn og það þarf að fara í gegnum þingflokka. Vonandi get ég lagt það fram hér von bráðar. Ég get ekki tímasett það neitt frekar en það er alveg ljóst að það er mjög mikill áhugi, sérstaklega á Norðausturlandi, fyrir því að þetta mál fái framgang og talsverður þrýstingur er frá heimaaðilum þannig að ég veit af þeirra áhuga sem hér endurspeglaðist líka í ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Mér er kunnugt um þann áhuga og við reynum að vinna þetta eins og okkur er frekast unnt en það er kannski ekki eins mikil sátt um þetta mál og hér mátti túlka hjá fyrirspyrjanda. Ég tel þó að við getum komið til móts við þær umsagnir sem til okkar hafa borist og ég vona að við sjáum þetta mál á borðum þingmanna bráðlega.