Verndun Mývatns og Laxár

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:17:03 (3171)

2003-01-29 14:17:03# 128. lþ. 67.4 fundur 468. mál: #A verndun Mývatns og Laxár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Nú kom það fram í máli hæstv. ráðherra að nokkuð góð sátt hefði verið í nefndinni sem var skipuð m.a. heimamönnum, um það hvernig þessum málum yrði best varið í framtíðinni. Síðan kom fram í máli hæstv. ráðherra að aðrir hefðu verið með miklar athugasemdir og það hefði tafið málið.

Mér þætti vænt um, herra forseti, ef ráðherrann vildi upplýsa okkur um helstu athugasemdir sem aðrir en þeir sem búa í sveitinni og unnu að þessu máli í nefndinni hafa fram að færa. Ég er á þeirri skoðun almennt að heimamenn eigi að hafa mikið að segja um þau svæði sem verið er að fjalla um. Þar eru þeir búsettir og þekkja vel til og eiga að hafa mikið um það að segja hvernig þeir vilja nýta sín svæði. Ég get nefnt mörg dæmi máli mínu til stuðnings, m.a. þverun Dýrafjarðar, þverun yfir Eyjafjarðarleirur og fleira þar sem allt var að fara upp í loft ef eitthvað átti að gera. En ég vil bara ítreka það að fá þetta upplýst hjá ráðherranum.