Viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:26:18 (3175)

2003-01-29 14:26:18# 128. lþ. 67.5 fundur 504. mál: #A viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Staða innlends skipasmíðaiðnaðar er stöðugt til umfjöllunar hjá iðnrn. og náið samráð er haft við Samtök iðnaðarins um málefni greinarinnar. Í þessu sambandi er vert að geta viðamikillar úttektar á samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðar sem birtist í greinargerð í september 2002. Úttektin og tillögur um aðgerðir til að styrkja stöðu skipasmíðaiðnaðarins var samstarfsverkefni iðnrn., Samtaka iðnaðarins og Málms, samtaka fyrirtækja í málmiðnaði. Þeir sem áhuga hafa á málefnum skipaiðnaðarins ættu að kynna sér þessa skýrslu.

Þar er m.a. gerð tillaga um að komið verði á nánara samráði við þau ráðuneyti og stofnanir sem áhrif hafa á útboð er tengjast skipaiðnaði og sem hagsmuni hafa af því að hér á landi verði áfram öflugur málm- og skipaiðnaður. Bæði fjmrh. og sjútvrh. hafa sýnt málefnum skipasmíðaiðnaðarins mikinn skilning, m.a. í tengslum við fyrirhugaða viðgerð á rannsóknarskipinu Bjarna Friðrikssyni.

Útboð á verkefnum í skipaiðnaði eru flest þess eðlis að þau falla undir útboðsskilmála EES-samningsins um jafnan aðgang allra sem staðfestu hafa á innri markaðnum. Um er að ræða alþjóðlega skuldbindingu sem enginn hefur áhuga á né hag af að víkjast undan. Útreikningar á svokallaðri þjóðhagslegri hagkvæmni þess að verkefni í skipaiðnaði fari fram hér á landi hafa því engan sérstakan tilgang. Ég hef því fyrst og fremst beitt mér fyrir því að unnið verði að útboðsmálum á þann hátt að íslenskur skipaiðnaður standi ekki höllum fæti gagnvart erlendum skipasmíðastöðvum þegar íslensk skip eiga í hlut. Í þessu felst að samanburður á kostnaði taki fullt tillit til allra breytistærða sem máli skipta. Á sama hátt verði tekið tillit til nauðsynlegra skilmála í útboðsgögnum sem m.a. lúta að landfræðilegum og veðurfarslegum sérkennum hér við land. Þessi atriði hef ég rætt við fjmrh., enda eru þau til þess fallin að auka líkur á því að skipasmíðaverkefni haldist í landinu. Þessi leið er bæði lögmæt og framkvæmanleg.

Varðandi áhrif gengis íslensku krónunnar á samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins þá hefur auðvitað hátt raungengi krónunnar veikt mjög samkeppnisstöðu greinarinnar. Þegar gengið lækkaði á síðasta ári batnaði staðan nokkuð og almennt má segja að sveiflur í gengi krónunnar geri áætlanir óvissari og skapi mjög erfiða samkeppnisstöðu. Gengið hefur haldist nokkuð jafnt um nokkurra mánaða skeið og virðist vera viðunandi fyrir greinina. Þó vil ég halda því til haga að það er alveg í hærri kantinum.

Í þessu sambandi má geta þess að flest bendir til að tvær íslenskar skipasmíðastöðvar geri stóra nýsmíðasamninga við færeyskar útgerðir. Það er viðbót við þau tvö nýsmíðaverkefni sem unnið er að fyrir þá.

Ég vil leggja áherslu á að farsæl framtíðarþróun skipaiðnaðarins mun fyrst og fremst byggjast á því að greininni sé búin sem hagstæðust ytri skilyrði, að greinin vinni markvisst að innri endurbótum og hún nái að starfa á jafnréttisgrundvelli við skipaiðnaðinn í öðrum löndum á EES-svæðinu.

Við þetta er svo því að bæta að viðgerðin á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni féll Slippstöðinni á Akureyri í skaut. Ég fékk tilkynningu um þetta laust eftir hádegi á mánudaginn var og gleðst að sjálfsögðu yfir því því að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt verkefni, bæði fyrir Slippstöðina og einnig fyrir greinina í heild. Þannig var, af því að hv. fyrirspyrjandi spurði til viðbótar hvort þarna hefði einhverjum reglum verið breytt, að þegar málið var tekið til frekari vinnslu þá kom í ljós að þetta tilboð var hagstæðast og finna mátti galla á tilboðum sem voru lægri.