Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:44:14 (3179)

2003-01-29 14:44:14# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Því er ekki að neita að þetta er ákveðið vandamál sem hér er verið að fjalla um. Hins vegar þarf að velta ýmsu fyrir sér ef menn ætla að taka upp á að sökkva svo stórum flota í sjó. Ég tel rétt að fram fari á þessu einhver skoðun sem við gætum þá kallað umhverfismat. Bæði er það svo að það getur ekki verið sama hvar slíkur skipakirkjugarður væri, á hvaða dýpi, hversu þétt skipunum væri komið fyrir á því svæði sem um væri að ræða og eins þyrftu menn að hafa í huga hvers konar skip þetta væru. Hvað er t.d. hægt að láta sér detta í hug að hafa mikið magn af járni á tilteknu svæði. Þar koma auðvitað inn í straumar og annað sem þarf þá að velta fyrir sér og lífríkið á því svæði sem um er að ræða.

En það er fleira sem skoða þarf. Í sumum tilfellum, vonandi flestum, er einhver eigandi. Vitanlega er það eigandinn sem á að bera ábyrgð á að koma þessum skipum fyrir með einhverjum hætti. Við getum ekki, þó að við eigum bíl sem er orðinn ónýtur, farið og lagt honum á eitthvert bílastæði, yfirgefið hann og látið hann eiga sig. Það er ekki liðið. Það á heldur ekki að líða það að skip séu skilin eftir í höfnum. Það er hins vegar vandamál sem skapast öðru hvoru að eigandinn gufar upp, viðkomandi fyrirtæki fer á hausinn og af einhverjum ástæðum verður enginn eigandi eftir til að bera ábyrgð á skipinu. Ég tel að taka þurfi á því. Í þeim tilfellum þarf ábyrgðin að vera skýr og klár, það séu þá sveitarfélögin eða hið opinbera sem taki við hlutverki eigandans og sjái til þess að svona reiðileysisskip dagi ekki uppi í höfnum langtímum saman. Þá yrði hægt að grípa til úrræða til að koma þeim fyrir og reikningurinn fyrir það verður þá að greiðast af hinu opinbera ef ekki er hægt að finna eiganda sem á að bera ábyrgðina.

Mér finnst ekki boðlegt að það geti orðið úrræði manna sem eiga skip í höfnum að geta bara nánast yfirgefið þau á hafnarbakkanum og einhverjir aðrir taki við ábyrgð á að farga þeim. Þetta er atvinnutæki og það er auðvitað á ábyrgð þeirra sem eiga.

Ég geri mér grein fyrir því að það er uppi ákveðinn vandi en hann er tvíþættur. Annars vegar er eitthvað af skipum sem enginn eigandi finnst að. Hins vegar eru skip sem eigendur eru að. Þeir eiga að mínu viti að bera ábyrgð á að koma þessum skipum einhvern veginn fyrir. Ef það yrði niðurstaðan að búa til skipakirkjugarð, sem ég ætla út af fyrir sig ekki að setja mig gegn núna, finnst mér að það þyrfti að undirbúa eins og ég var að lýsa áðan. Finna þyrfti afmörkuð svæði til að láta þetta fara fram á og taka út þau svæði með tilliti til lífríkisins, velja dýpi og staði við hæfi. Það þarf jafnvel að hafa í huga að einhvern tíma muni menn komast að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið mistök. Þess vegna ætti að vera tiltölulega auðvelt að farlægja skipin af því svæði sem þau voru sett á.

Mér finnst samt í þessu fólgin veruleg uppgjöf. Við erum að tala um járn sem á að vera hægt að endurnýta. Það er alveg ömurlegt að hugsa til þess að endurnýtingarstöð á brotajárni sem hér var í landinu skuli hafa verið rifin niður og flutt úr landi af því að í landinu var ekki skilningur fyrir því að við þyrftum á því að halda að losna við brotajárn. En þannig er það. Þannig var það og eru ekki mörg ár síðan það gerðist. Í stað þess að hið opinbera gengi í lið með því fyrirtæki eða sæi til að sá rekstur gæti gengið og eflst, því að á því þurfum við að halda að til staðar sé svona þjónusta, þá horfðu menn bara upp á að þetta fyrirtæki lognaðist út af, vélarnar teknar niður og fluttur úr landi að lokum. Þannig er það.