Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:50:00 (3180)

2003-01-29 14:50:00# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. sem hér um ræðir fjallar um varnir gegn mengun sjávar en tekur í raun til þess að heimilt verði að sökkva skipum í sæ, m.a. til að rýma til í höfnum landsins. Það veldur mér nokkrum heilabrotum. Ég er almennt frekar andvígur því að menn noti hafið eins og geymslukistu. Þó er það alveg hárrétt sem hv. 1. flm., hv. þm. Einar Guðfinnsson, sagði hér áðan. Þegar búið er að tæma öll aukaefni úr skipum eru þau náttúrlega ekki beinn mengunarvaldur þó að þeim sé sökkt. Að mínu viti eru þau samt mengunarvaldur á botninum.

Í sumum tilvikum kann að vera hægt að finna dæmi þess að skipsflök hafi dregið að sér fisk og stór skipsflök hafi í raun og veru orðið fiskimið og fengið nöfn af viðkomandi skipum. Nokkur slík fiskimið eru þekkt við Ísland. Þau hafa hins vegar öll orðið til fyrir sérstaka óheppni eða stríðsárásir, samanber skip fyrr austan Víkurál og heitir Baya blanca en þar eru þekkt fiskimið í dag, nokkurs konar ufsahóll. Eitt er á Halanum sem heitir Menjan og þar eru líka þekkt fiskimið. Síðan munum við eftir einu skipi sem átti að draga til hafs. Skipið hét Sesar og var dregið frá Patreksfirði minnir mig, frekar en Ísafirði, og átti að fara með það vel vestur af landinu en það sökk í drætti á afargóðri fiskislóð í Víkurál og er þar enn á botninum. Ég veit ekki hvort það var algerlega tómt þegar farið var af stað með það. Ég dreg í efa að það hafi verið vel tæmt þó að vafalaust hafi verið búið að taka það mesta af mengunarefnum úr því. En það er önnur saga.

Við megum ekki gleyma því að það er mjög vandasamt að fara þá leið sem hér er lögð til, í fyrsta lagi að velja skipum stað og í öðru lagi, eins og hér hefur verið bent á úr ræðustól, að skoða vel hvað af því gæti hlotist í framtíðinni. Ég heyrði að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson minntist á ýmislegt sem menn hefðu nefnt í þessu sambandi. Það er auðvitað alveg rétt. Menn hafa velt fyrir sér margs konar aðferðum til að losna við þau skip sem á annað borð er ekki fyrirsjáanlegt að neitt verðmætt verði gert úr.

Sum af þessu skipum eru vel nothæf. Þau þurfa auðvitað einhverrar lagfæringar við en eru verkefnalaus eða verkefnalítil. Sala á þeim kann að vera möguleg ef gengið væri í það. Það er staðreynd að allmörg fiskiskip hafa verið seld úr landi á síðustu missirum. Hvort þau eru öll söluvara dreg ég hins vegar mjög í efa.

Fyrir nokkuð mörgum árum voru dregnir frá landi síðustu síðutogararnir okkar í halaraófu, aftan í varðskipi ef ég man rétt, tveir eða þrír. Því miður, verð ég að segja. Ég tel að eitthvað af þeim skipum hefði átt að vera varðveitt hér á landi sem sérstakt sýnieintak af atvinnusögu okkar Íslendinga. En við bárum ekki gæfu til þess. Það er að mörgum sjónarmiðum að hyggja í þessu sambandi.

Ég vil leyfa mér að halda í vonina um að eitthvert fyrirtæki vildi taka að sér að reyna að selja þessi skip til brotajárns. Hugsanlega gæti verið til einhver kaupandi sem vildi kaupa nokkra svona skrokka í einu og taka þetta í einni ferð. Ekki skal ég þó fullyrða um hvort sá markaður er til staðar. En ég veit það hins vegar að verið er að rífa niður skip í mörgum löndum, t.d. í Eystrasaltslöndunum, Lettlandi og Litáen og einnig í Póllandi. Þar er verið að rífa niður gömul skip í brotajárn. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það hefur verið fjármagnað eða hver hefur greitt með því. Þó hygg ég að Evrópusambandið hafi reitt af hendi sérstakar greiðslur vegna eyðingar skipa í Eystrasaltslöndunum, m.a. gamalla rússneskra kafbáta. Þar eru einfaldlega nokkurs konar hreinsunarmál í Evrópu. Ég veit ekki hvort aðild okkar að EES-samningnum fellur að einhverju leyti undir það. Mér er ekki kunnugt um það.

Ég hef hins vegar heyrt nokkrar hugmyndir sem mér finnst allrar athygli verðar varðandi það að nýta eitthvað af þeim skipsskrokkum sem á annað borð yrðu ekki nýttir til neins annars. Fyrir örstuttu síðan var í blaðagrein lagt til að gera svokallaða sumarhúsabyggð úr skipum sem ekki yrðu framar notuð til fiskveiða. Hugmyndin var um að koma slíkri byggð upp í Hvalfirði. Ekki skal ég fullyrða um að hvort það verður lausnin en ég hygg að hv. 1. þm. Vestf. hljóti að hafa tekið eftir einum slíkum sumarbústað sem stendur vestarlega á Barðaströnd á leiðinni til Patreksfjarðar, fallegur og lítill bátur sem stendur þar í túni. Ég tel að hann sé ekki lýti á landslaginu þó hann hafi verið staðsettur þarna. Þetta er því kannski ekki hugmynd sem ber að henda frá sér einn, tveir og þrír.

Ég heyrði hins vegar eina hugmynd um daginn þegar ég var á ferð um Suðurland sem mér finnst athyglisverð þó að hún mundi ekki farga mörgum skipum. Hún var einfaldlega sú að fara með nokkuð stór skip, hreinsa þau vel, jafnvel taka ofan af þeim yfirbyggingarnar og sökkva þeim báðum megin í sandinum við Jökulsárlón til að varna frekari ágangi á landið. Ekki skal ég segja til um hvort þessi hugmynd er snjöll en staðreyndin er samt sú að skip sem strönduðu á söndum suðurstrandar fyrr á tímum eru núna langt uppi í landi. Það skyldi þó ekki vera að svona hugmynd, sem fæddist í ferðalagi sem ég var á fyrir stuttu síðan, væri kannski einhvers virði. Menn eru alla vega að berjast við þann vanda að ekki gangi frekar á ströndina á vissum svæðum, m.a. við þjóðveg nr. 1. Þetta kann að vera staður fyrir einhver skip ef það er raunhæft. Það ættu einhverjir verkfræðingar að geta sagt til um. Samt sem áður leysir þetta ekki hið mikla vandamál sem hér er lýst, að hundruð skipa séu verkefnalaus og liggi vítt og breitt í höfnum landsins.

Sú hugmynd að reyna að verja Kolbeinsey með því að sökkva skipum held ég að sé alveg dauðadæmd. Ég dreg þá ályktun einfaldlega af því að við Vestfirðingar höfum séð skip sem liggur í vestanverðu Straumnesi og strandaði þar fyrir einhverjum áratugum síðan. Það er nánast ekkert eftir af því skipi. Síðan munum við eftir ensku togurunum sem strönduðu undir Grænuhlíð. Þar sem svona skipsflök, þó úr járni séu, lenda á hörðu grjóti eða bergi þá hverfa þau gersamlega á fáum árum. Ég hygg að svo gildi um þessa hugmynd án þess að ég geti neitt fullyrt um það, ég dreg bara minn lærdóm af því sem ég hef séð í náttúru Íslands.

Herra forseti. Ég held að það þurfi að fara mjög varlega í að sökkva skipum og tek undir að það verði þá að leggja sérstakt mat á hvar þeim beri að sökkva og hvort þau verði þar til einhverra umhverfisspjalla. Það held ég að þurfi að gera. Það er oft svo með eignir sem enginn á, eftir að þær hafa farið í gjaldþrot og engin eign eftir í fyrirtækinu og nánast eintómar skuldir, sama hvort um skip eða eignir á landi er að ræða, að þær vilja oft lenda hjá því opinbera vegna vangreiddra gjalda, hvort sem það eru hafnargjöld eða aðrir skattar. Í mörgum gjaldþrotum lendir mikill kostnaður á ríkinu, samanber þá fjármögnun sem við höfum notað í ábyrgðasjóð launa svo dæmi sé tekið. Allt er þetta tekið einhvers staðar af okkur sem búum í þessu landi, af okkur íslenskum ríkisborgurum sem myndum íslenska ríkið. Þannig verður sjálfsagt aldrei hjá því komist, hvort sem um skip er að ræða eða aðrar eignir, að ef engin finnst eigandinn og engin peningaleg eign í búinu að það lendi oft og tíðum á hinu opinbera. Þar erum við kannski komin að vandamálinu. Margar hafnir landsins hafa ekkert bolmagn til að taka við þessu vandamáli, hvorki að láta vandamálið liggja í höfnunum árum saman né að takast á við að eyða vandamálinu. Sem slíkt er málið þarft.

Þetta er vandamál og það þarf einhvern veginn að fjalla um það og taka á því. En ég hef hins vegar miklar efasemdir um það, herra forseti, að við getum almennt farið þá leið að sökkva skipum. Alla vega þarf að meta umhverfið þar sem á að sökkva þeim og vera um það nokkuð góð sátt. Við megum ekki gleyma því að sokkin skip geta verið miklar slysagildrur. Það eru til dæmi um að þegar togarar eða togbátar hafa fest í skipsflökum hafi ekki bara orðið fjárhagslegt tjón á veiðarfærinu og slys heldur jafnvel stórslys á mönnum og mannskaðar.

Allt er þetta vandmeðfarið. Ég skil vel hugsun flutningsmanna og vilja til að taka á þessu vandamáli en við megum ekki valda með því stórkostlegum skaða á öðrum stað og öðrum tíma.