Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 15:03:31 (3181)

2003-01-29 15:03:31# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða um frv. til laga um það hvort sökka megi skipum sem hafa ekki lengur verkefni. Í greinargerð með frv. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og Kristján Pálsson leggja fram kemur fram að 158 skip eru verkefnalaus, þar af eru 88 fiskibátar, 14 skuttogarar, 38 smábátar og 20 önnur skip. Hér er um að ræða 70 þúsund tonn af járni. Það er mjög skiljanlegt að hugmyndir sem þessar komi upp þegar við horfum á þessi skip og báta og upplifum þau sem nokkurs konar draugaskip. En það vekur náttúrlega upp aðrar spurningar, þ.e. hvort þetta séu allt skip sem ekki er hægt að nýta lengur eða hvort kvótakerfið sé búið að leika svo lengi lausum hala um allt kerfið að fleiri skipum er lagt sem ekki er hægt að nota vegna þess hvernig kerfið er í sjávarútveginum. Þetta eru kannski skip sem einhver kvóti er skráður á. En svo er kvótinn bara leigður öðrum. Það er nú ekki tilefni --- jú það er náttúrlega alltaf tilefni til að ræða um kvótakerfið og fiskveiðistjórnarkerfið í landinu og hvað það hefur leikið byggðirnar grátt. Þessi draugaskip eru endurspeglun af því, finnst mér. Það er mjög leiðinlegt að koma í hafnir og sjá svona skip og báta sem eiga kannski glæsta sögu en eru ákafalega drungaleg og draugaleg.

Þetta vekur líka upp aðrar spurningar, herra forseti. Hvað er mikil fyrirhöfn á bak við það að framleiða eitt tonn af járni sem síðan er brætt og notað til að smíða skip? Nú er verið að smíða skip á hverju ári úr járni. Það er væntanlega unnið úr jörðinni, málmgrýti sem er brætt og mikil orka í það sett. Svo eru örlög þessara skipa að vera sökkt í hafið. Mig langar að velta þessari spurningu upp hér. Kannski getur hv. 1. þm. Vestf. Einar K. Guðfinnsson svarað því hvort það sé svona rosalega dýrt að endurvinna járnið, hvort það sé dýrara að endurvinna þetta járn en að vinna járn úr jörðinni, bræða það upp og nota það í ný skip eða bíla. Ég vil að þetta komi fram. Ég er ekki að lýsa vantrausti á flutningsmennina, síður en svo. Frv. vekur einmitt athygli á dálítið sérkennilegu máli, þ.e. að við eyðum gífurlega mikilli orku í að vinna málma úr jörðinni. En þegar skipin hafa gegnt hlutverki sínu eða ekki finnast not fyrir þau lengur þá er farið með þau út á haf og þeim sökkt. Mér finnst þetta vera svolítið ankannalegt.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að því fylgi ekki mikil mengun þegar járn smitast úr öllu þessu járni út í umhverfið. Ég reikna ekki með að mikil mengun sé af því enda er þetta bara málmgrýti eða málmur, einfalt frumefni þannig að ekki ætti að vera mengun af því. En þær spurningar vakna hvernig standi á þessu og einnig um bílana, þ.e. þegar við hættum að nota bíla. Fleiri þúsund tonnum af járni úr bílum er pakkað saman í klumpa og það brætt upp vænti ég. Spurningarnar eru þær hve vanmegnug við erum eða hversu lítið við leggjum á okkur til að endurvinna þessa hluti. Auðvitað væri eðlilegast, herra forseti, ef hægt væri að taka allt þetta járn og bræða það upp. Eins er það með gamlar dráttarvélar í sveitum og margt annað. Við sjáum járn liggja eins og hráviði víða og það er náttúrlega ekki gott.

Hins vegar hef ég heyrt sagt að þegar skipsflök liggja á hafsbotni myndist oft í kringum þau aukið líf eins og í sambandi við kóralla og svo í framhaldi af því ýmislegt annað. Því getur ýmislegt jákvætt þessu fylgt. Hugmynd hv. 1. þm. Vestf. Einars K. Guðfinnssonar er sökkva skipunum í kringum Kolbeinsey og ef þetta er svona gífurlega mikið magn, 14 skuttogarar og 88 fiskibátar, og ef við sökktum þessu í kringum Kolbeinsey þá sýnist mér þetta vera svo mikið að það gæti kannski haft nokkur áhrif til verndunar eynni og þá um leið fiskveiðilögsögu okkar.

Svo nefndi líka hv. 4. þm. Vestf. Guðjón A. Kristjánsson að hægt væri að sökkva þessum skipum eða koma þeim fyrir á söndunum til að hindra landbrot. Þetta eru allt hugmyndir sem ég tel vera þess virði að athuga og gefa gaum að. Engu að síður skil ég fullkomlega ástæður þess að þetta frv. til laga kemur fram því, eins og ég hef sagt, þá er afar leiðinlegt að koma inn í hafnir þar sem skip liggja sem enginn notar, annaðhvort vegna þess að búið er að leggja þeim þó að þau séu í góðu lagi af því að kvóti er ekki fyrir hendi eða hreinlega að þau eru orðin svo gömul og hættuleg. Auðvitað eru hafnir ekki geymslustaðir fyrir þessi skip frekar en við mundum fylla bílaplön borgarinnar eða landsins af bílum sem fólk er hætt að nota. Það er ekki hægt að skilja bíla eftir úti á bílaplönum þar sem menn ganga frá þeim. Það þarf náttúrlega að koma ónýtum bílum á þá staði sem þeir eiga að vera á. Auðvitað væri best ef hægt væri að endurnýta þá, bræða þá og smíða nýja bíla í staðinn. Það þýðir náttúrlega að þá er meira eftir af járngrýti í jörðinni fyrir komandi kynslóðir til að nýta.

Þetta vildi ég segja í þessari umræðu. En gífurlega er þetta mikið magn af járni sem við mundum setja þarna í hafið, 70 þúsund tonn. Það er mikið.